Fyrst Hafdís Sigurðardóttir í gær.
Fyrst Hafdís Sigurðardóttir í gær. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Andri Yrkill Valsson yrkill@mbl.

Andri Yrkill Valsson

yrkill@mbl.is

„Fólk var mikið að spyrja hvort það væri svona rólegt hjá mér, þar sem ég tók bara þátt í þremur greinum,“ sagði Hafdís Sigurðardóttir úr UFA í samtali við Morgunblaðið á Meistaramóti Íslands í frjálsum íþróttum sem fram fór um helgina. Hvort hún hafi tekið það rólega skal alveg liggja á milli hluta, því Hafdís vann gullverðlaun í öllum þremur greinum sínum, 100 metra hlaupi á 12,02 sek. og 200 metra hlaupi á 24,43 sek. og langstökki.

Þrátt fyrir að hafa þrjú gull um hálsinn má segja að Hafdís hafi ekki náð aðalmarkmiði sínu um helgina. Hún er að reyna að ná lágmarki í langstökki inn á heimsmeistaramótið í Peking sem fram fer í næsta mánuði, en til þess þarf hún að stökkva 6,70 metra fyrir 10. ágúst næstkomandi. Það mundi einnig skila henni á Ólympíuleikana í Ríó á næsta ári, en Hafdís sigraði með stökki upp á 6,39 metra um helgina, sem jafnframt var besta afrek mótsins. En hvað segir Hafdís um möguleikana á því að ná draumastökkinu fyrir HM?

„Ég vona það svo innilega. Það hefur gengið vel en ég þarf að hafa trú á sjálfri mér líka. Það er erfitt stundum þegar maður ætlar sér að gera svona stóra hluti. Þetta eru ekkert margir sentimetrar en þeir eru erfiðir samt í svona grein,“ segir Hafdís, en Íslandsmet hennar í greininni er 6,45 metrar. Hún keppir á þremur mótum á næstunni og getur enn náð lágmarkinu í tæka tíð.