— Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Vilhjálmur A. Kjartansson vilhjalmur@mbl.is Útgáfufélagið Fótspor ehf. sem gefið hefur út 12 blöð og þar með nokkur vikublöð. s.s. Reykjavík Vikublað, Akureyri Vikublað, Bæjarblaðið Kópavogur o.fl.

Vilhjálmur A. Kjartansson

vilhjalmur@mbl.is

Útgáfufélagið Fótspor ehf. sem gefið hefur út 12 blöð og þar með nokkur vikublöð. s.s. Reykjavík Vikublað, Akureyri Vikublað, Bæjarblaðið Kópavogur o.fl. blöð, hefur hætt útgáfu sinni og selt útgáfufélagi Björns Inga Hrafnssonar, Vefpressunni ehf., útgáfurétt blaða sinna.

Ingimar Karl Helgason, ritstjóri Reykjavíkur Vikublaðs, segir fréttir af sölu útgáfuréttarins hafa komið sér verulega á óvart en hann er í fríi með fjölskyldu sinni í Bandaríkjunum og heyrði fyrst fréttir af sölunni þegar fjölmiðlar leituðu viðbragða hans.

„Ekkert benti til þess Fótspor ehf. væri að hætta útgáfu sinni og selja útgáfuréttinn til Vefpressunnar. Málið kemur mér því verulega á óvart. Síðustu samskipti mín við útgefanda Fótspors ehf., Ámunda Ámundason, voru á þá leið að fjölga síðum í Reykjavík Vikublaði í 24 í haust og ég hef verið með hugann við það. Ég frétti ekki af þessu fyrr en þetta var um garð gengið og okkar síðustu samskipti því snautleg,“ segir Ingimar en tekur þó fram að bæði samskipti hans og samstarf við Ámunda og son hans, Ámunda Steinar Ámundason, framkvæmdastjóra Fótspor, hafi alltaf verið góð.

Fjölmiðlaveldi Björns Inga vex

Ámundi Ámundason stofnaði Fótspor ehf. útgáfufélag árið 2008 og hefur útgáfa þess vaxið stöðugt frá þeim tíma. Sala hans á útgáfurétti félagsins til Vefpressunnar eykur því enn á fjölmiðlaveldi Björns Inga en félag hans Vefpressan á og rekur DV og dv.is og vefmiðlana Pressuna, Eyjuna og Bleikt.is. Auk þess hefur Björn Ingi umsjón með vikulegum umræðuþætti á Stöð 2.

Kaupsamningur Vefpressunnar á útgáfurétti Fótspors ehf. var undirritaður á fimmtudaginn í síðustu viku en að sögn Ámunda er hann háður fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins og Fjölmiðlanefndar.

Í tölvupósti sem Björn Ingi sendi til mbl.is segir að öll blöðin 12, sem Fótspor gaf áður út, muni áfram koma út og að Vefpressan komi ekkert að rekstri blaðanna fyrr en Samkeppniseftirlitið hafi gefið grænt ljós á kaupin.

Lengi legið fyrir að selja

Í samtali við mbl.is í gær sagði Ámundi Ámundason, eigandi Fótspors ehf., að það hefði legið fyrir í tvö ár að hann myndi selja útgáfuréttinn.

„Fyrstu samskipti mín við Björn Inga voru þegar hann bauð mér fyrir tveimur árum að gerast auglýsingastjóri hjá fyrirtækinu hans en ég hafnaði því. Síðan eftir að hann keypti DV hafði hann aftur samband við mig og vildi kaupa útgáfuréttinn og var kaupsamningurinn undirritaður á fimmtudaginn,“ sagði Ámundi.

Afskiptum hans af rekstri blaðanna er þó ekki að öllu lokið því hann mun taka við starfi auglýsingastjóra hjá félagi Björns Inga. „Hjá Fótspor ehf. hef ég verið að sjá um bókhaldið, samninga, auglýsingar og fleira. Það verður léttara starf hjá mér núna að verða bara aftur auglýsingastjóri eins og ég var áður til margra ára.“

Akureyringum boðið að kaupa

Björn Þorláksson, ritstjóri Akureyrar Vikublaðs, sagði við mbl.is í gær að það hefði komið sér og nokkrum samstarfsmönnum sínum verulega á óvart að búið væri að selja útgáfurétt Fótspor til Vefpressunnar. „Nú veltur það bara á aðstæðunum sem eru uppi hjá hverjum og einum. Í okkar tilfelli hafa verið tvö blöð á Akureyri í fjögur ár. Þetta eru ólík blöð og margir hafa talað um mikilvægi þess að hafa tvö blöð. Því er heldur ekki að leyna að fólk hefur haft samband við mig og hvatt mig til að leggja ekki árar í bát varðandi það að gefa út blað á Akureyri. Það gæti þó reynst öðrum ritstjórum þyngra sem þurfa sterkara bakland eins og Fótspor hefur verið að veita varðandi auglýsingar og fleira,“ segir Björn en hann telur allt of snemmt að ræða möguleika á útgáfu á nýju blaði.

Í samtali Ámunda við mbl.is í gær upplýsti hann að útgáfurétturinn hefði áður verið til sölu. Hann hefði m.a. reynt að selja einstök blöð út úr útgáfufyrirtækinu. Þannig hefði hann boðið fyrirtækjum á Akureyri að kaupa réttinn að Akureyri Vikublaði.