John Sewel
John Sewel — Ljósmynd/The Times
John Sewel, varaforseti lávarðadeildar breska þingsins, hefur sagt af sér embætti eftir að breska dagblaðið The Sun birti myndskeið af honum í samkvæmi þar sem hann sést taka kókaín í nefið innan um vændiskonur.

John Sewel, varaforseti lávarðadeildar breska þingsins, hefur sagt af sér embætti eftir að breska dagblaðið The Sun birti myndskeið af honum í samkvæmi þar sem hann sést taka kókaín í nefið innan um vændiskonur.

Í myndskeiðinu má sjá hinn 69 ára gamla Sewel afklæðast í samkvæmi heima hjá sér fyrir rúmum tveimur vikum. Með honum í samkvæminu voru tvær vændiskonur. Er hann sagður hafa fengið sér þrjár línur af kókaíni á 45 mínútum.

Ein vændiskonan segir við hann í myndskeiðinu. „Þú ert nú meiri partípinninn.“ Sewel svarar: „Ég veit það, er ég ekki ógeðslegur?“

Forseti lávarðadeildar þingsins, lafði D'Souza, sagði hegðun Sewels „hneykslanlega og óvænta,“ og kvaðst hafa vísað málinu til lögreglunnar í Lundúnum. „Lávarðadeild þingsins mun áfram halda uppi siðferðisreglum í opinberu lífi og samþykkir ekki á nein frávik frá þeim,“ sagði hún, að því er fram kemur á vef The Guardian.

Strangari siðareglur

Er hegðan Sewels einnig sérstök fyrir þær sakir að fyrr í mánuðinum skrifaði hann grein á vef Huffington Post um að til stæði að setja strangari siðareglur fyrir þingmenn. Gegndi hann þá formennsku í siðanefnd þingdeildarinnar. „Nokkrir svartir sauðir í hópi þingmanna eyðileggja fyrir hinum,“ sagði hann.