Leiðir forsetanna Obama og Kenyatta liggja saman með óvenjulegum hætti í gegnum feður þeirra

Kenýa er á krossgötum,“ sagði Barack Obama í heimsókn sinni þangað um helgina, „hætturnar eru miklar, en tækifærin eru einnig gríðarleg.“ Þegar Obama heimsækir Kenýa og fjallar um ástandið þar sperrir heimsbyggðin eyrun umfram það sem venja er, því að það er ekki á hverjum degi sem Bandaríkjaforseti heimsækir föðurland sitt, í orðsins fyllstu merkingu, hvað þá þegar landið er í Afríku.

Obama kom með ýmsar gagnlegar ábendingar til kollega síns Kenyatta, en fundur þeirra hlýtur að hafa verið nokkuð óvenjulegur af ýmsum ástæðum, meðal annars þeirri, að Kenyatta eldri, sem þá var forseti eins og sonur hans nú, rak á sínum tíma Obama eldri úr starfi hagfræðings hjá hinu opinbera fyrir gagnrýni á stefnu stjórnvalda.

Hvað sem því líður þá á það sem Obama sagði um hætturnar og tækifærin í Kenýa mjög vel við og gildir raunar um mörg önnur lönd í Afríku einnig. Þar hefur víða verið ágætur vöxtur og tækifærin eru fyrir hendi. Spilling og margvíslegur vandi við uppbyggingu innviða þjóðfélaganna dregur úr möguleikunum og hægir á vextinum og lífskjarabatanum.

Hið sama á við, þó af öðrum og hryllilegri toga sé, um hryðjuverkaógnina sem geisar í mörgum löndum Afríku og minnti meðal annars á sig í Sómalíu í gær. Obama hefur tækifæri til að hafa margvísleg jákvæð áhrif í Afríku og hefur án efa áhuga á því þó að hann hafi beitt sér hóflega hingað til. Eitt af því augljósasta sem hann gæti gert er að beita sér meira í baráttunni gegn hryðjuverkum í Afríku og víðar.