Þegar Neville Chamberlain sneri aftur frá München 1938 með plaggið sem átti að tryggja „frið um vora tíma“ á Winston Churchill að hafa sagt að Chamberlain hefði fengið val á milli vansæmdar eða stríðs.

Þegar Neville Chamberlain sneri aftur frá München 1938 með plaggið sem átti að tryggja „frið um vora tíma“ á Winston Churchill að hafa sagt að Chamberlain hefði fengið val á milli vansæmdar eða stríðs. „Þú valdir vansæmdina og þú munt fá stríð.“ Er óhætt að segja að Churchill hafi þar reynst sannspár, því að í stað þess að samkomulagið dygði til þess að halda aftur af Hitler gaf það honum tíma til þess að undirbúa enn betur komandi átök.

Mér verður hugsað æ oftar til þessara orða eftir því sem ég les meira um hið nýgerða samkomulag um kjarnorkumál Írans, ekki síst vegna þess að bandarísk stjórnvöld hafa kosið að „selja“ samkomulagið tortryggnum þingmönnum og almenningi heima fyrir með þeim orðum að valið stæði á milli þess að gera nákvæmlega það samkomulag sem nú stendur til boða eða þess að farið yrði í stríð við Írani. Eða eins og Barack Obama Bandaríkjaforseti orðaði það: „Án þessa samnings hættum við á frekari átök í Mið-Austurlöndum, og önnur ríki heimshlutans myndu sjálf reyna að koma sér upp kjarnorkuvopnum.“

Að frátalinni allri gagnrýni á tækniatriði samningsins, þar sem rætt er um óspennandi atriði eins og hversu margar skilvindur Íranir megi nota, og hversu hátt hlutfall auðgaðs úrans þeir megi eiga, virðist vera ljóst að samkomulaginu er eingöngu ætlað að tefja fyrir Írönum næstu tíu árin, ákveði þeir að standa við sinn hlut. Um leið veðjar Obama á að það að hægja á kjarnorkudraumum Írana muni duga til þess að draga úr þeirri ólgu sem nú einkennir heimshlutann.

En af hverju ætti það að gerast? Líkt og hinn umdeildi sagnfræðiprófessor Niall Ferguson bendir á í nýlegri grein í Wall Street Journal, þá þurfa Íranir eingöngu að telja Alþjóðakjarnorkumálastofnuninni trú um að þeir séu að hegða sér vel, en á móti fái þeir gríðarlegan ávinning þegar refsiaðgerðunum verður létt. Sá ávinningur hefur verið áætlaður um 150 milljarðar Bandaríkjadala, eða sem nemur um 2.000 milljörðum króna, rétt rúmlega landsframleiðslu Íslands.

Í samkomulaginu er ekkert sem hindrar Írani í því að veita stærstan hluta þessara fjármuna til bandamanna sinna í Sýrlandi, Jemen eða í hryðjuverkasamtökunum Hisbollah eða Hamas. Það er ekkert í samkomulaginu sem neyðir þá til þess að bæta hegðun sína í Írak eða til þess að láta af þróun eldflauga.

Hvernig ætli önnur ríki heimshlutans muni taka því þegar Íranir fara á næstu tíu árum að veita enn meira til bandamanna sinna, þróa fullkomnari eldflaugar og fá á endanum árið 2025 kjarnorkuvopn með „sérstöku leyfi“ alþjóðasamfélagsins? Hin líklega niðurstaða að mati Fergusons er vopnakapphlaup og enn meiri róstur í Mið-Austurlöndum. Hafi hann rétt fyrir sér hafa þeir sem stóðu að samkomulaginu allavega gulltryggt vansæmd sína. sgs@mbl.is

Stefán Gunnar Sveinsson

Höf.: Stefán Gunnar Sveinsson