Efni Albert Guðmundsson í búningi PSV Eindhoven. Hann hefur búið í tvö ár í Hollandi og stefnir hátt.
Efni Albert Guðmundsson í búningi PSV Eindhoven. Hann hefur búið í tvö ár í Hollandi og stefnir hátt.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is Fyrir tæplega 70 árum varð Albert Guðmundsson fyrsti atvinnumaður Íslendinga í knattspyrnu.

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Fyrir tæplega 70 árum varð Albert Guðmundsson fyrsti atvinnumaður Íslendinga í knattspyrnu. Fyrir skömmu skrifaði Albert Guðmundsson, barnabarnabarn hans, undir samning til þriggja ára við hollenska félagið PSV Eindhoven, en foreldrar Alberts yngri og afi hans, sonur Alberts eldri, gerðu garðinn einnig frægan í fótboltanum.

Albert Guðmundsson er stórt nafn í íslenskum íþróttaheimi. Hann ruddi ekki aðeins brautina fyrir atvinnumennsku íslenskra leikmanna heldur var hann einn fremsti knattspyrnumaður landsins og vann að framgangi knattspyrnunnar hérlendis, meðal annars sem formaður Knattspyrnusambands Íslands. Hann var fyrsti knattspyrnumaðurinn til þess að vera tekinn inn í Heiðurshöll Íþrótta- og ólympíusambands Íslands. „Þetta truflar mig ekkert,“ segir Albert um framgöngu langafa síns, en Albert afhjúpaði styttu af langafa sínum fyrir framan höfuðstöðvar KSÍ 2010.

Áhrif fjölskyldunnar

Þekkt er í atvinnulífinu að börn feti í fótspor foreldra og jafnvel einnig forfeðra. Mörg dæmi eru um að börn afreksfólks í íþróttum feti sömu braut, en sjaldgæfara er að afreksfólkið sé í þremur ættliðum og hvað þá fjórum.

„Ég hef alla tíð verið með augun á boltanum og alltaf vitað hvað ég vildi gera,“ segir Albert og bætir við að sennilega hafi fótboltasaga fjölskyldunnar eitthvað með það að gera. Hann segist snemma hafa byrjað að fara með foreldrunum á æfingar og boltinn þannig verið stór hluti af uppeldinu. „Eftir að skóla lauk á daginn fór ég beint í fótbolta, hafði ekki tíma fyrir neitt annað. Fór meira að segja stundum á morgunæfingar fyrir skóla, þannig að lífið hefur að mestu snúist um fótbolta.“

Albert segist hafa lesið allt sem hann hefur komist yfir um langafa sinn og þekkja líka vel afrek afa síns, en Ingi Björn Albertsson átti lengi markametið í efstu deild á Íslandi, 126 mörk. „Ég veit alveg hvað mamma, pabbi, afi og langafi hafa afrekað á vellinum og ég hef lært mikið af þeim,“ segir hann.

Kristbjörg Ingadóttir, móðir Alberts, lék m.a. með yngri landsliðum og Guðmundur Benediktsson, faðir hans, var með bestu knattspyrnumönnum landsins en varð að hætta snemma vegna meiðsla. „Sem betur fer er ég ekki með hnén hans,“ segir Albert. „Mér er sagt að ég sé líkur pabba í hreyfingum, léttleikandi eins og hann var, en ég er ekki með sama markanef og afi,“ heldur hann áfram. „Ég fylgdist vel með pabba æfa og spila þegar ég var yngri og hef tileinkað mér margt frá honum.“

Undanfarin tvö ár var Albert á mála hjá hollenska liðinu Heerenveen og hann er því öllum hnútum kunnugur í atvinnumennskunni, þó að hann sé aðeins 18 ára. „Í raun var miklu stærra skref að fara úr KR í Heerenveen en þaðan í PSV,“ segir hann.

Gert er ráð fyrir að Albert æfi og leiki með varaliðinu fyrsta árið. „Markmiðið hjá mér er að vera búinn að vinna mér sæti í aðalliðinu eftir tvö ár,“ segir miðjumaðurinn ungi.

Sóknargen

Albert Guðmundsson ólst upp hjá Val og lék síðan með Glasgow Rangers, Arsenal, Nancy, AC Milan, Racing Club og Nice, en lauk ferlinum með ÍBH.

Ingi Björn Albertsson skoraði 126 mörk fyrir Val og FH í efstu deild og lék einnig í Frakklandi.

Kristbjörg Ingadóttir lék með Val og KR.

Guðmundur Benediktsson lék með Þór, Val, belgísku liðunum Geel og Ekeren og KR. Og svo er það Albert Guðmundsson yngri.