Páll Bergþórsson
Páll Bergþórsson
Guðmundur Magnússon gudmundur@mbl.is „Á mesta hlýskeiði síðan hitamælingar hófust hafa nú komið hér samfelldir níu mánuðir sem sverja sig algerlega í ætt við kuldaskeiðið 1961 til 1990.

Guðmundur Magnússon

gudmundur@mbl.is

„Á mesta hlýskeiði síðan hitamælingar hófust hafa nú komið hér samfelldir níu mánuðir sem sverja sig algerlega í ætt við kuldaskeiðið 1961 til 1990.“ Þetta segir Páll Bergþórsson veðurfræðingar og fyrrverandi veðurstofustjóri í færslu á Facebook-síðu sinni, þar sem hann birtir gjarnan veðurspár og ýmsar kenningar og fróðleik um veðurfar hér á landi fyrr og nú. Þessir færslur njóta vinsælda og taka margir þátt í umræðum sem af þeim hljótast.

Minni hlýnun

Páll spáir því að áfram haldi það veðurfar sem hófst fyrir áratug og einkennist af minni hlýnun en í þrjátíu ár þar á undan.

Hann segir í samtali við Morgunblaðið að kenning sín um þrjátíu ára tímabil, þar sem kuldaskeið og hlýindaskeið skiptist á, njóti ekki viðurkenningar alþjóðlegrar veðurfræði, en þetta sé engu síður sín kenning og byggist á hitamælingum og reynsluathugunum.

„Það var mikið hitaskeið hér á norðurslóðum á árunum 1975 til 2005 eða í þrjátíu ár, en síðan þá hefur hlýnun stöðvast,“ segir Páll. Hann telur að veðrið hér gangi í slíkum sveiflum. „Hlýnunin hefur eiginlega stöðvast og það bendir til þess að nýtt tímabil sé hafið og við getum ekki átt von á mikilli hlýnun næstu tvo áratugi,“ segir hann.

Hafísinn er ástæðan

Páll segir ástæðuna fyrir þessu vera virkni hafíss á norðurslóðum. Hann hafi þá náttúru að ýmist aukast eða minnka og hafi það síðan áhrif á hitafar á hvorn veginn þróun hans sé.

Páll kveðst ekki beinlínis vera að boða nýtt kuldaskeið á Íslandi. Áfram megi búast við hlýindum hér vegna mótáhrifa frá almennri hlýnun jarðar, en kólnunarsveiflan vinni þar á móti. Spurning sé hvor krafturinn verði áhrifameiri hér á landi.