Afleiðingar hryðjuverkanna 11. september 2001 voru víðtækar

Fjórtán ár eru liðin frá hryðjuverkunum miklu í Washington og New York, þar sem um 3.000 féllu fyrir hendi hryðjuverkamanna. Viðburðirnir eru enn í fersku minni þeim sem upplifðu þá, og fylgdust með hinni ógnvekjandi atburðarás á sjónvarpsskjánum. Á þeim tíma hefði líklega fáa grunað hversu víðtækar afleiðingar árásirnar á Bandaríkin myndu hafa, ekki bara á stjórnmálaþróun, heldur einnig á þróun samfélags okkar.

Þetta stafar meðal annars af því, að árásirnar áttu sér stað á sama tíma og sú mikla bylting í tækni- og upplýsingamálum sem nú hefur gjörbreytt lífi okkar var að slíta barnsskónum. Á sama tíma og almenningi voru færð í hendur tæki til þess að afla sér enn víðtækari upplýsinga en áður og auka samskiptin verulega, fengu ríkisstjórnir á Vesturlöndum tól til þess að fylgjast betur og nánar með almenningi en nokkru sinni fyrr, auk þess sem hryðjuverkin veittu rúma réttlætingu til þess að koma á auknu eftirliti. Hefur síðan komið í ljós, að í þeim efnum hefur ríkisvaldið gengið langt inn á einkalíf borgaranna.

Á móti hefur því verið haldið fram að hryðjuverkum hafi fækkað, og að mikill árangur hafi unnist í baráttunni gegn þeim, sem megi þakka að miklu leyti hinu gríðarmikla eftirliti. Raunar er það að vissu leyti rétt, að stórar og skipulagðar hryðjuverkaárásir hafa vart sést í kjölfar 11. september, en á móti hafa færst í vöxt árásir einstaklinga, oftar en ekki manna sem alist hafa upp í vestrænum samfélögum.

Þá er árangurinn heldur minni þegar litið er til Mið-Austurlanda eða Norður-Afríku, þar sem hryðjuverkasamtök á borð við Ríki íslams og Boko Haram fara sínu fram með ótrúlegri grimmd. Vesturlönd hafa gripið ríkulega inn í á þessum 14 árum og farið fram með hernaði gegn ýmsum ríkjum, oftast nær af „mannúðarástæðum“. Hins vegar hefur nokkuð skort á það að hugað hafi verið að afleiðingunum og hvernig megi tryggja það að samfélög ríkjanna endi ekki í algjörri upplausn eftir að hinum göfugu markmiðum hernaðarins hefur verið náð, líkt og í Líbýu.

Ein afleiðing þessa sést mjög skýrt í flóttamannavandanum mikla, þar sem fjöldi fólks kýs að flýja hið ömurlega ástand og flykkist til Evrópu. Það lýsir kannski best skammsýninni að viðbrögð Vesturlanda hafa verið þau að leita bara að lausnum að því hvernig megi taka við sem flestum, í stað þess að huga að því, hvernig hægt sé að gera ástandið í ríkjunum sem þau flýja aftur nógu gott til þess að þar sé lífvænlegt. Ein leið til þess er að berjast gegn hryðjuverkahópunum þar sem þeir eru sýnilegastir og valda mestu tjóni.