Rökstólar Fjármálaráðherra mælti fyrir fjárlagafrumvarpi næsta árs á Alþingi í gær. Hann sagði að ríkið ætti að eiga 40% í Landsbankanum.
Rökstólar Fjármálaráðherra mælti fyrir fjárlagafrumvarpi næsta árs á Alþingi í gær. Hann sagði að ríkið ætti að eiga 40% í Landsbankanum. — Morgunblaðið/Eggert
Fjárlög næsta árs verða afgreidd með rúmlega 15 milljarða króna afgangi sem verður í þriðja sinn sem afgangur verður af fjárlögum. Ennfremur stefnir í að meiri afgangur verði af fjárlögum yfirstandandi árs en gert hafi verið ráð fyrir í fjárlögum.

Fjárlög næsta árs verða afgreidd með rúmlega 15 milljarða króna afgangi sem verður í þriðja sinn sem afgangur verður af fjárlögum. Ennfremur stefnir í að meiri afgangur verði af fjárlögum yfirstandandi árs en gert hafi verið ráð fyrir í fjárlögum. Þetta kom fram í máli Bjarna Benediktssonar á Alþingi í gær þegar hann mælti fyrir fjárlagafrumvarpi næsta árs.

„Sex prósent kaupmáttaraukning frá júlí 2014 til júlí 2015 samfara lágri verðbólgu, lækkandi skuldastöðu heimilanna, minnkandi atvinnuleysi og myndarlegum hagvexti sýnir svo ekki verður um villst að verulegur lífskjarabati hefur náðst að undanförnu með stöðugleika í efnahagsmálum,“ sagði Bjarni. Engu að síður væru ýmsar blikur á lofti þar sem verðbólguvæntingar hefðu aukist. Ekki síst vegna mikilla launahækkana í þeim kjarasamningum sem gerðir hefðu verið. Enn ríkti mikil óvissa um það hvaða áhrif þeir samningar ættu eftir að hafa á eftirspurn og þenslu. Þar spilaði einnig inn í að töluverður órói hefði verið á heimsmörkuðum síðustu vikur og ekki ljóst hver framvindan yrði í þeim efnum.

70 milljarðar árlega í vexti

Bjarni nefndi vaxtagjöld ríkissjóðs sérstaklega í ræðunni en þau væru þriðji stærsti útgjaldaliður hans. Heildarskuldir ríkisins hefðu verið nær 1.500 milljarðar króna um síðustu áramót. Að óbreyttri skuldastöðu þyrfti að greiða um 70 milljarða króna árlega í vexti.

Þeim fjármunum væri betur varið til þess að byggja upp innviði samfélagsins, styrkja velferðarþjónustuna og lækka skatta og aðrar álögur á einstaklinga og fyrirtæki.

Samstaða um sölu ríkisbankans

Þá nefndi Bjarni að stjórnarflokkarnir væru samstiga um að selja hluta af eign ríkisins í Landsbankanum. Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, spurði ráðherrann hvort hann nyti stuðnings Framsóknarflokksins í þeim efnum.

Bjarni sagði að fjárlagafrumvarpið væri frumvarp ríkisstjórnarinnar og þar með stæðu báðir ríkisstjórnarflokkanir að því. Þar væri gert ráð fyrir því að hluti af eign ríkisins í Landsbankanum yrði seldur. Benti hann ennfremur á að fyrri ríkisstjórn hefði upphaflega markað þá stefnu að selja hlut ríkisins í bankanum. Sjálfur væri hann þeirrar skoðunar að ríkið ætti að eiga áfram 40% í Landsbankanum en selja ætti það sem útaf stæði.

Forsætisráðherra gagnrýndur

Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, gagnrýndi Sigmund Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, harðlega fyrir að hafa í stefnuræðu sinni fyrr í vikunni látið eins og allt gott í núverandi efnahagsumhverfi væri núverandi ríkisstjórn að þakka. Skuldasöfnun ríkissjóðs vegna bankahrunsins var stöðvuð 2013 í samræmi við áætlanir ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur.

Þannig hefði staða ríkissjóðs farið stöðugt batnandi á síðasta kjörtímabili, kaupmáttur aukist, hagvöxtur verið umtalsverður, atvinnuleysi minnkað jafnt og þétt og vextir og verðbólga lækkað. Sú þróun hefði sem betur fer haldið áfram á þessu kjörtímabili.