Tónskáldið Arvo talaði um að það eina sem hann vildi væri ein laglína sem lifði og andaði sjálf, „hrein laglína, nakin rödd sem er grunnur alls annars“.
Tónskáldið Arvo talaði um að það eina sem hann vildi væri ein laglína sem lifði og andaði sjálf, „hrein laglína, nakin rödd sem er grunnur alls annars“.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Pál Ragnar Pálsson: "Miðað við flutning tónverka er Pärt vinsælastur núlifandi tónskálda í heiminum."

Arvo Pärt, fæddist þann 11. september, árið 1935 í Paide í Eistlandi. Paide er lítill bær sem hefur lítið breyst frá barnæsku Arvos. Hann hefur lýst því sjálfur sem þorpi þar sem lífið leið áfram á rólegan og einfaldan hátt. Foreldrar Arvo skildu þegar hann var þriggja ára og mamma hans flutti með hann til Rakvere, nokkuð stærri borgar í norð-austurhluta Eistlands, miðja vegu milli Tallinn og St. Pétursborgar. Rakvere er dæmigerð eistnesk borg með lágreistum timburhúsum og miðborg frá miðöldum ásamt rústum af kastala þar sem börnum þykir gaman að leika sér. Til er falleg saga af Arvo frá því hann var lítill strákur í Rakvere. Í miðju þorpinu var torg og á miðju torginu var lítill turn þar sem útvarpað var tónlist. Arvo hjólaði hring eftir hring í kringum turninn og hlustaði.

1953 flutti Arvo til Tallinn þar sem hann lærði tónsmíðar í konservatoríinu hjá Heino Eller, sem sjálfur hafði stundað nám í St. Pétursborg, á fiðlu hjá Leopold Auer og tónsmíðar hjá Alexander Glazunov. Aðgangur að upplýsingum var mjög takmarkaður í Sovétríkjunum og það gilti líka um tónlist. Heino Eller, sem fylgdist alla tíð með því sem hann komst yfir af nýrri tónlist, líka úr vestrinu, komst yfir bækur Herberts Eimerts og Ernsts Kreneks um tólftóna tónsmíðatækni. Arvo gat því lesið bækur sem voru stranglega bannaðar í Sovétríkjunum og þannig lært um hluti sem flestum voru huldir. Þannig hófst hans fyrsta tónsmíðaskeið sem kennt er við þessa tónsmíðatækni. Sú tónlist er í engu lík þeirri sem við eigum að venjast frá Pärt í dag. Arvo sagði síðar um þetta tímabil að honum þætti erfitt að tala um hluti sem gerðust fyrir svo löngu: „En ég get fullvissað þig um að sálarlíf mitt á þessum tíma var svo sprungum brostið að þegar maður ber það saman við andrúmsloft og tónmál tólftónatónlistar virkar hún vinsamlegri.“

Tilraunir Pärts með vestræn áhrif á tónlist sína leiddu hann strax í ónáð hjá stjórnvöldum en það var ekki fyrr en hann samdi Credo (trúarjátningu) að steininn tók úr. Verkið var frumflutt við gríðarlega góðar undirtektir áheyrenda en síðan var hann boðaður í yfirheyrslu, honum varð ljóst að hann væri kominn út í horn. En fleira hvíldi á Pärt. Hann var hvorki ánægður með tónlistina sem hann samdi né líf sitt á þessum tímapunkti. Hann var í tónlistar- og tilvistarlegu öngstræti. Næstu átta árin leitaði Arvo að sínu eigin tónmáli, þetta var ekki einungis tónlistarleg leit heldur líka andleg.

Arvo og kona hans, Nora, snerust til rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar og má segja að andlegt inntak tónlistar Pärts komi síðan úr þeirri átt. Einn af upphafspunktum leitarinnar var þó þar sem hann var staddur í bókabúð í Harju stræti í Tallinn. Þar var verið að spila gregoríska tónlist. Hann komst svo að orði: „Lífið var svo fátækt og tilgangslaust. Hvílík fegurð sem ég uppgötvaði í gegnum gamla tónlist! Ég átti alla þessa vini allt um kring en síðan heimsótti ég af tilviljun þessa bókabúð í Harju stræti... tónlistin hlýtur að búa yfir einhverjum kröftum fyrst að hún getur hrifið mann svona. ... Þetta byrjaði dropa fyrir dropa. Rétt eins og sakleysi getur horfið dropa fyrir dropa. Þú verður að taka lítil skref afturábak og horfast í augu við það sem áður sneri í bak þitt.“

Arvo tók að kynna sér gamla tónlist. Hann talaði um að það eina sem hann vildi væri ein laglína sem lifði og andaði sjálf, „hrein laglína, nakin rödd sem er grunnur alls annars“. Þessi eina rödd, þessi eining sem Arvo talar þarna um, varð miðpunktur leitar hans. Það var ekki fyrr en hann gafst í rauninni upp og viðurkenndi fyrir sjálfum sér að ein rödd væri ekki nóg að hann fann það sem hann leitaði. Árið 1976 byrjaði hann að prófa að setja inn aðra rödd sem lék alltaf eina af þremur röddum sama þríhljómsins meðan laglínan leið frjálslega áfram. Á þessum tímapunkti var eins og allar flóðgáttir brystu og tónlistin streymdi fram. Árið 1977 samdi hann 16 verk, mörg þeirra eru á meðal þekktustu verka hans í dag, þar á meðal Fratres (Bræður).

Árið 1980 flúði Pärt með fjölskyldu sína frá Sovétríkjunum. Þau voru fyrsta árið í Vín í Austurríki en settust síðan að í Berlín þar sem þau bjuggu næstu 20 árin. Á þeim tíma komst Pärt í samband við Manfred Eicher, eiganda ECM-hljómplötuútgáfunnar, sem er útgefandi hans enn þann dag í dag. Árið 1984 kom út fyrsta platan í samstarfi þeirra, Tabula Rasa, sem hefst einmitt á verkinu Fratres. Miðað við flutning tónverka er Pärt vinsælastur núlifandi tónskálda í heiminum.

Arvo Pärt býr ásamt konu sinni í Laulasmaa, tæpa 40 km fyrir utan Tallinn.

Kammersveit Reykjavíkur flytur Fratres í fimm útsetningum Pärts í Langholtskirkju að kvöldi föstudags 11. september. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Kammersveitin flytur þetta verk heldur gerði hún það einnig á sama stað árið 1998. Pärt var sjálfur á þeim tónleikum og má segja að koma hans hingað þá hafi orðið kveikjan að því að hann samdi verk fyrir Evrópukór ungmenna sem flutt var á árinu 2000 undir stjórn Þorgerðar Ingólfsdóttur. Í tilefni af því kom Pärt hingað til lands í annað sinn og fylgdist með æfingum kórsis í Reykholti í Borgarfirði.

Höfundur er tónskáld.

Höf.: Pál Ragnar Pálsson