Pálmi Stefánsson
Pálmi Stefánsson
Eftir Pálma Stefánsson: "Örverur í og á okkur eru tíu sinnum fleiri en frumur okkar. Við eigum allt undir því komið að bakteríuflóra okkar sé í jafnvægi."

Þýsku rannsóknasamtökin Helmholz eru í ár 20 ára gömul og hafa í tvö ár gefið út vandað tímarit annan hvern mánuð með ágripi valinna efna rannsóknanna. Starfsmenn eru um 38.000 og hafa til umráða um 4 milljarða evra, að meiri hluta opinbert fé. Af starfsliðinu eru um 15.000 vísindamenn, yfir 6.000 doktorar og yfir 1.600 í starfsþjálfun. Árið 2013 nýttu 8.534 erlendir vísindamenn sér aðstöðuna hjá Helmholz. Í Helmholz Perspektiven nr. 02 2015 er yfirlitsgrein með heiti þessa pistils og tipla ég á sumu af því sem mér finnst áhugavert í henni.

Síðan 2008 hefur farið af stað viðtæk rannsókn á bakteríum í og á mannslíkamanum en talið er að þar muni finnast nálægt 100 milljarðar baktería, sveppa og vírusa. Þetta er tíu sinnum fleira en allar frumur líkamans til samans. Án þeirra gætum við ekki þrifist, því þær sjá okkur fyrir næringarefnum og hjálpa okkur við að melta matinn. Hætta myndast bara þegar óboðnar gestabakteríur ná að fjölga sér eða stöðugt jafnvægi örvera líkamans raskast. Mannsaugað greinir ekki minna en 0,1 mm og flestar einfrumuörverur eru smærri en það. Það er fyrst 1677 að Hollendingurinn Leeuwenhook lýsir bakteríum með hjálp smásjár sem er aðaltækið enn í dag. Það var svo Frakkinn Pasteur sem á árunum 1857-1876 skýrði gerjunina, eða líf án súrefnis. Þjóðverjinn Koch uppgötvaði síðan að bakteríur yllu sjúkdómum: miltisbrandi og berklum, 1876 og 1882. Það var svo 1928 sem bakteríudrepandi fúkkalyfið penisillín var þróað af Alexander Fleming. 1983 sýndu Ástralarnir Marshall og Warren fram á að magabakterían Helicobakter pylori gæti valdið magasári. Bara í þörmunum eru taldar vera 10.000 tegundir og í ristlinum einum eru um 2 kg af örverum. Mikill fjöldi mismunandi gerla er líka á tönnum okkar. Við einn tungukoss er áætlað að um 80 milljónir örvera fari á milli. Bara 1% baktería eru þekktar í dag. Við getum einfaldlega ekki lifað án baktería okkar sem færa okkur vítamín og næringu, eyða úrgangi og vernda okkur fyrir alls kyns sjúkdómum. Það er því unnið að því um þessar mundir að virkja bakteríur, genabreyttar, til að lækna sjúkdóma. Þetta gæti notast t.d. líkt og efna- og geislameðferð við krabbameinslækningar. Allar bakteríur í okkar hafa alls um 8 milljónir gena en við sjálf aðeins rúm 22.000. Bakterían Clostridium botulinum, sem öll niðursuða matvæla byggist á að eyða, er svo eitruð að 1 kg eiturs hennar myndi nægja til að útrýma mannkyninu! Elsta lifandi vera á jörðinni er einmitt baktería sem fannst árið 2000 í Mexíkó og er talin 250 milljón ára gömul. Bakteríur og sveppar sjá um að brjóta niður lífrænt efni í náttúrunni og eru ómissandi til að viðhalda þannig hringrás lífefnanna. Ég hvet alla sem geta og hafa áhuga á nýjustu vísindum og ransóknum að skoða Helmholz Perspektiven á netinu (gúggla: helmholtz.de/perspektiven ).

Höfundur er efnaverkfræðingur.

Höf.: Pálma Stefánsson