Aðgangur Ríkisskattstjóri stefnir að meiri notkun rafrænna skilríkja í síma í stað veflykils. Notkun Íslykils er mikil hjá innskráningarþjónustu Ísland.is
Aðgangur Ríkisskattstjóri stefnir að meiri notkun rafrænna skilríkja í síma í stað veflykils. Notkun Íslykils er mikil hjá innskráningarþjónustu Ísland.is
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Ómar Friðriksson omfr@mbl.

Fréttaskýring

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Þrátt fyrir að stefnt hafi verið að því að þjónustustofnanir taki í auknum mæli við rafrænum skilríkjum í símum við innskráningu á vefsvæði, virðist ekkert hafa dregið úr notkun Íslykilsins, sem gefinn er út af Þjóðskrá Íslands. Hjá Ríkisskattstjóra fer þó notkun rafrænna skilríkja í síma stöðugt vaxandi á kostnað veflykilsins, sem notaður hefur verið við innskráningu frá 1999.

Á innskráningarþjónustu island.is er boðið upp á innskráningu inn á vefi um 150 þjónustuveitenda, stofnana, sveitarfélaga, félagasamtaka og fyrirtækja. Notendur geta valið um að nota Íslykilinn, rafræn skilríki á korti eða rafræn skilríki í síma. Virkir notendur Íslykilsins voru 1. september sl. rúmlega 177 þúsund einstaklingar og 4.375 fyrirtæki. Nýtt yfirlit Þjóðskrár yfir innskráningarleiðir sem notaðar eru, sýnir að síðast liðna 60 daga var Íslykill notaður í 87,13% tilvika og rafræn skilríki í farsíma í 11,74% tilvika. Hlutur rafrænna skilríkja á korti var aðeins 1,13%.

Á bilinu 5 til 15 þúsund manns nota innskráningarþjónustu island.is á degi hverjum og leggur Bragi Leifur Hauksson, verkefnastjóri hjá Þjóðskrá Íslands, áherslu á að notendur hafi val um hvaða leið þeir nota til að auðkenna sig. Hann segir að ætla megi að um 70 þúsund manns séu með rafræn skilríki í síma en Íslyklarnir séu um 177 þúsund eins og áður segir. Gerð var krafa um að rafræn skilríki yrðu notuð við samþykki skuldaleiðréttingarinnar sl. vetur. Að sögn Braga hefur notkun þeirra aukist mikið í prósentum talið frá því sem áður var. „En vissulega hefur þetta kannski ekki náð því flugi sem sumir voru að vonast eftir,“ segir hann.

Sífellt færri nota rafræn skilríki á kortum og segir Bragi að þó hugmyndin um rafræna skilríkjaverkefnið hafi í sjálfu sér verið ágæt á sínum tíma, þar sem flestir væru með debetkort, hafi fólk hins vegar þurft að stíga yfir of marga þröskulda. Virkja þurfti skilríkin og þegar heim var komið að vera með lesara og hugbúnað fyrir kortalesara og skilríkin. Eru virkir notendur skilríkja á korti því orðnir fámennur hópur. Sú lausn að nota rafræn skilríki í farsíma hafi verið byltingarkennd vegna þess hversu notendavæn hún er.

,,En við höfum alla tíð stillt hlutunum þannig upp að boðið sé upp á val um innskráningarleiðir,“ segir hann. Notendur geti ef þeir kjósa skráð sig inn með Íslyklinum eða styrktum Íslykli ef um aðgang að mjög viðkvæmum gögnum er að ræða og fá þá send sms-skilaboð. En einnig geta menn notað rafræn skilríki í síma eða á korti ef þeir vilja það frekar.

Ekki í hlutverki stóra bróður

,,Það er þjónustuveitandinn sem ákveður hvaða kröfur hann vill gera til innskráningarinnar og notandinn velur þá leið sem uppfyllir þær kröfur,“ segir hann. „Við viljum leyfa fólki, fyrirtækjum og stofnunum að velja og ekki vera í hlutverki stóra bróður,“ bætir hann við.

Mismunandi er hvaða leiðir er boðið upp á við innskráningar hjá stofnunum, bönkum og öðrum fyrirtækjum eða samtökum. Líkur eru á að farið verði að innheimta gjöld af símafyrirtækjum vegna rafrænna skilríkja um áramótin þannig að áfram má búast við óvissu um hvaða leiðir verða ofaná við auðkenningar á vefsíðum og hversu strangar öryggiskröfur eru gerðar.

Rafræn skilríki öruggust

„Við erum að auka rafrænu skilríkin á kostnað veflykilsins,“ segir Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri. „Það hefur sýnt sig að veflykillinn er ekki nægjanlega örugg innskráningarleið, þó hann hafi verið sæmilegur í upphafi og rafræn skilríki eru miklu öruggari,“ segir hann og bendir á að útilokað hefði verið að framkvæma skuldaleiðréttinguna í fyrra nema með notkun rafrænna skilríkja. Stefnir embættið á að rafræn skilríki verði notuð í enn meira mæli.

„Við munum gera það á næstu árum þannig að menn muni geta skilað á veflykli en sú þjónusta sem við munum bjóða upp á á komandi árum verður ekki í boði nema með rafrænum skilríkjum,“ segir Skúli Eggert. Það sé tímaspursmál hvenær rafræn skilríki taki alveg yfir. ,,Þróunin erlendis er í þá átt. Það eru allir með síma og þetta er öruggasta leiðin sem vitað er um.“