[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Byggingafélagið Sandfell er að undirbúa byggingu 200 herbergja hótels í landi eyðijarðarinnar Orustustaða á Brunasandi austan Kirkjubæjarklausturs.

Baksvið

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Byggingafélagið Sandfell er að undirbúa byggingu 200 herbergja hótels í landi eyðijarðarinnar Orustustaða á Brunasandi austan Kirkjubæjarklausturs. Hótelið, sem rekið verður undir merkjum Stracta hótela, verður í mörgum húsum sem reist verða ásamt þjónustubyggingum í kringum hóteltorg. Það líkist því þorpi, segir Hreiðar Hermannsson, framkvæmdastjóri fyrirtækjanna. Heildarkostnaður er áætlaður rúmir þrír milljarðar króna.

Hótelið verður í svipuðum stíl og hótel Stracta sem opnað var á Hellu á síðasta ári, en mun stærra. Byggt verður tveggja hæða hús fyrir móttöku, þjónustu og veitingastaði og hótelálmur með mismunandi stórum herbergjum og íbúðum í kring.

Auglýst í annað sinn

Stracta hefur verið að undirbúa hótel á Orustustöðum og Húsavík. Hreiðar reiknar með að Orustustaðir verði næstir í röðinni ef tekst að ljúka skipulagsmálum. Það ferli hafi verið tafið óhóflega.

Orustustaðir eru eyðijörð, um 20 kílómetrum austan við Kirkjubæjarklaustur. Hreiðar keypti hana fyrir um tveimur og hálfu eða þremur árum og hefur síðan unnið að skipulagningu hótelsins. Með breytingu á aðalskipulagi var landinu breytt úr landbúnaðarsvæði í verslunar- og þjónustusvæði með uppbyggingu hótels í huga. Sandfell lét í framhaldi af því vinna deiliskipulag fyrir hótelið. Þegar það var auglýst bárust ýmsar athugasemdir, aðallega frá eigendum nágrannajarða en einnig frá nokkrum opinberum stofnunum. Ekki er föst búseta nema á einum bæ í nágrenninu. Athugasemdir eigenda nágrannajarða sneru einkum að málsmeðferð og að aðkomuvegur að hótelinu væri skipulagður yfir land þeirra. Einnig um áhrif hótelrekstrar og tilheyrandi umferðar á hagsmuni þeirra.

Forsvarsmenn framkvæmdarinnar og sveitarstjórn svöruðu athugasemdum og tóku tillit til þeirra eftir því sem ástæða þótti til. Jafnframt var gerð umhverfisskýrsla með deiliskipulaginu. Sveitarstjórn Skaftárhrepps ákvað að auglýsa deiliskipulagið að nýju með áorðnum breytingum og umhverfisskýrslu, í óþökk forsvarsmanna Sandfells.

Hreiðar segir að sveitarstjórn og yfirvöld skipulags- og byggingarmála virðist alfarið á móti uppbyggingu. Telur hann að verið sé að tefja málið til að reyna að láta hann gefast upp. Það komi ekki til greina. Segir hann að erlendur fjárfestir sem veitt hafi vilyrði fyrir þátttöku í fjármögnun verkefnisins hafi horfið frá þegar hann áttaði sig á andúð yfirvalda. Því þurfi að fjármagna fjárfestinguna upp á nýtt. Hann segist ekki skilja þessa afstöðu. Engum fornminjum verði raskað og öllum reglum fylgt. Húsunum sé þannig fyrirkomið að þau sjáist hvorki frá þjóðveginum né öðrum bæjum.

„Þetta sveitarfélag á í erfiðleikum, íbúum hefur fækkað og það er í gjörgæslu í fjárhagsmálum. Samt er staðið gegn uppbyggingu í sveitarfélaginu. Hins vegar eru íbúarnir áhugasamir. Þeir hringja í mig til að spyrja hvort ekki eigi að fara að byrja á uppbyggingu,“ segir Hreiðar.

Hann segir lítið hafa gerst í skipulagsmálunum frá því í maí. Nú hafi verið ákveðið að auglýsa aftur og nýir athugasemdafrestir veittir. Væntanlega taki það marga mánuði að vinna úr þeim málum og veltir Hreiðar því fyrir sér hvort skipulagið verði þá ekki auglýst í þriðja sinn. Þetta ætli engan endi að taka.

Byggja þarf upp innviði

Jörðin hefur verið í eyði frá 1950 og vantar því alla innviði á fyrirhugað hótelsvæði. Þar er hvorki vatnsveita, rafmagn, vegur né fráveita. Þessu þarf Sandfell að koma upp og hefur unnið að undirbúningi þess. Rafstrengur verður lagður í jörð meðfram vegi og gerð er krafa um þriggja þrepa hreinsun fráveitu. Fyrirhugaður vegur er 1,7 km langur og á að liggja af núverandi vegi rétt vestan við Hraunból. Veglínan er skipulögð rúmlega hálfan kílómetra sunnan við bæjarstæðið þar til þess að umferð trufli sem minnst þá sem þar dvelja. Vegurinn liggur síðan meðfram skógræktarsvæði og að hótellóðinni, sem er 300 metrum frá hraunjaðri og búsetuminjum á Orustustöðum.

Hreiðar segir að staðurinn sé einstakur og telur að ferðafólk muni njóta sín vel. Þar sé veðursæld mikil. Þá sé útsýni gott, það sjáist austur að Lómagnúp og vestur á Háfell í Mýrdal og upp á jökul. Hótelið muni standa þannig að engin truflun verði af umhverfinu.

Hreiðar segist hafa orðið var við mikla eftirspurn eftir stóru hóteli á Suðurlandi, hóteli sem geti tekið við stórum hópum. Þetta segi reynslan af rekstri Stracta hótels á Hellu honum. Nefnir hann að þangað hafi komið hópar sem þurfi 50-100 herbergi, til dæmis vegna kvikmyndagerðar. Slíkir hópar þurfi margar gerðir af hótelum eins og er á Hellu og fyrirhugað er að hafa á Orustustöðum. Þar verða einnig heitir pottar og sána, göngustígar verða lagðir um skógræktina og víðar um landareignina og stórar tjarnir með eyjum verða útbúnar til að hlúa að fuglalífinu.

Gert er ráð fyrir aðstöðu fyrir handverksfólk og listafólk til að auðga mannlíf í hótelþorpinu. Þar verði 3-4 gerðir af veitingastöðum. Segir Hreiðar að mikið líf verði í hótelþorpinu og það muni í sjálfu sér draga að gesti.