Völundur Valdi á verkstæði Ýmis. „Ég snerti aldrei á handtaki eftir klukkan fjögur, hvernig sem á stendur ...“
Völundur Valdi á verkstæði Ýmis. „Ég snerti aldrei á handtaki eftir klukkan fjögur, hvernig sem á stendur ...“ — Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Skapti Hallgrímsson skapti@mbl.is Valdimar Jóhannsson, húsgagnasmiður á Akureyri, man tímana tvenna eða jafnvel þrenna. Hann hóf nám í stríðslok,1945, gengur enn til verka dag hvern og hefur því verið að í 70 ár!

Skapti Hallgrímsson

skapti@mbl.is

Valdimar Jóhannsson, húsgagnasmiður á Akureyri, man tímana tvenna eða jafnvel þrenna. Hann hóf nám í stríðslok,1945, gengur enn til verka dag hvern og hefur því verið að í 70 ár! Valdi á Ými, eins og hann er jafnan kallaður, verður 88 ára eftir fáeina daga.

Valdi vill svo sem ekki gera of mikið úr því að hann sé enn að störfum. Vinnudagurinn hafi oft verið mjög langur á árum áður, en það sé liðin tíð. „Ég snerti aldrei á handtaki eftir klukkan fjögur, hvernig sem á stendur ...“ segir hann.

Valdi átti sjötta part í húsgagnaverksmiðjunni Valbjörk og sömu sögu er að segja af Snorra Rögnvaldssyni. Þeir seldu sína hluti 1966 og stofnuðu þá Ými. Snorri lést fyrir nokkrum árum en áður hafði Þengill, sonur Valdimars, keypt hlut Snorra og þeir feðgar eiga fyrirtækið saman. Starfsmenn eru fjórir. „Við vorum mest sex hérna og stækkuðum aldrei þó mjög mikið væri að gera.“

Valdimar er Dalvíkingur en flutti til Akureyrar 1945 til að hefja nám. Hann segir margt hafa breyst í gegnum tíðina. „Mér fannst vinnan skemmtilegust frá 1945 til 1949, um það bil; þegar ekki voru til vélar af nokkru tagi. Þá reyndi á mann! Mér hefur ekki þótt eins gaman eftir að bættist við af tækjum.“

Valdi lauk námi 1949 hjá Kristjáni Aðalsteinssyni sem var með verkstæði við Hafnarstræti, í húsinu sem kallað er París, þar sem kaffihúsið Bláa kannan er nú. „Kristján átti hálfa París, jarðhæð og kjallarann en Þorsteinn M. [Jónsson, skólastjóri og síðar alþingismaður] efri hæðirnar. Verkstæðið í París var sérstaklega skemmtilegur staður, við vorum sex þar og alltaf mikil kátína og gleði. Allir með sporjárnið og hamarinn á lofti, það voru helstu verkfærin.“

Spurður telur Valdimar líklegt að í Ými hafi verið smíðaðar meira en 2000 eldhúsinnréttingar fyrir akureyrsk heimili. „Í 40 ár smíðuðum við svo allar gjaldkerastúlkur og afgreiðslur fyrir Íslandsbanka, jafnt í Reykjavík sem annars staðar. Fyrst fyrir Iðnaðarbankann og héldum áfram eftir sameiningu og nafnabreytingar. Þá smíðuðum við mikið fyrir póstinn á sínum tíma.“

Vegna þess að Valda var farin að leiðast rútínan í vinnunni tók hann upp á því fyrir nokkrum árum að smíða sér fiðlu. Til að komast aftur í handverkið, alvöru handverk, segir hann. Greip þá aftur til sporjárnsins og hafði gaman af. En skyldu hljóðfærin hafa verið notuð? „Nei, þetta var bara fyrir vitleysu í mér,“ segir hann. Fiðlurnar geymir hann heima hjá sér. „Þetta er allt gert í höndunum. Ég vissi ekkert um fiðlusmíði og þurfti að lesa mér til; er með stóran doðrant. Þetta er mikil nákvæmnisvinna,“ segir Valdi. Stundum er unnið með einn tíunda úr millimetra!

Heimsstyrjöldin er honum hugleikin enda unglingur þegar Bretar stigu á land og hernámu Ísland. „Það hryggir mig hve oft frásagnarmenn hafa talað illa um hermennina sem hér voru. Ég gat ekki verið í meira návígi því skotgrafirnar voru tæpa 75 metra frá húsinu heima og þetta voru einstakir öðlingsdrengir, Bretarnir. Ekki er óeðlilegt að einn og einn hafi gert eitthvað af sér, en heildin var afskaplega góð.“