Héraðsdómur Ákært er meðal annars fyrir fjárdrátt, umboðssvik, hylmingu og peningaþvætti í Marple-málinu.
Héraðsdómur Ákært er meðal annars fyrir fjárdrátt, umboðssvik, hylmingu og peningaþvætti í Marple-málinu. — Morgunblaðið/Eggert
Þorsteinn Ásgrímsson thorsteinn@mbl.is Við ákvörðun mögulegrar refsingar í Marple-málinu ætti að horfa til dómafordæmis þar sem sakfelldir fengu fjögurra og hálfs árs dóm fyrir mun lægri upphæð en um ræðir í þessu máli.

Þorsteinn Ásgrímsson

thorsteinn@mbl.is

Við ákvörðun mögulegrar refsingar í Marple-málinu ætti að horfa til dómafordæmis þar sem sakfelldir fengu fjögurra og hálfs árs dóm fyrir mun lægri upphæð en um ræðir í þessu máli. Þetta sagði Arnþrúður Þórarinsdóttir, saksóknari, í málflutningi sínum í gær, en þar var vísað til Exeter-málsins svokallaða, þar sem sparisjóðsstjóri og stjórnarformaður Spron voru dæmdir fyrir umboðssvik.

Ákærð fyrir fjárdrátt og svik

Í Marple-málinu eru Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrum forstjóri Kaupþings, Guðný Arna Sveinsdóttir, fyrrum fjármálastjóri bankans, og Magnús Guðmundsson, fyrrum forstjóri Kaupþings í Lúxemborg, ákærð fyrir fjárdrátt og umboðssvik, eða hlutdeild í slíkum brotum. Auk þess er fjárfestirinn Skúli Þorvaldsson ákærður fyrir hylmingu og peningaþvætti.

Sigurður G. Guðjónsson, lögmaður Guðnýjar Örnu Sveinsdóttur, eins hinna ákærðu í Marple-málinu, fór mikinn í málflutningi sínum í gær og réðst með hörðum orðum gegn framkvæmd rannsóknar og saksóknar hjá embætti sérstaks saksóknara.

Sagði hann að umbjóðandi sinn hefði misst vinnuna, þurft að flytjast úr landi og haft ásakanir hangandi yfir sér undanfarin 5 ár. „Það er þungur baggi að vera sakaður um 8 milljarða auðgunarbrot í 5 ár,“ sagði hann og bætti við að ekkert í málinu hefði sýnt fram á sekt hennar.

Sérstök mótmæli við kröfuna

Lögmaður slitabús Kaupþings, Friðrik Árni Friðriksson Hirst, óskaði eftir að bóka sérstök mótmæli við upptökukröfu sérstaks saksóknara gegn félaginu Marple, en Kaupþing er meintur brotaþoli í málinu.

Þessi sérstaka staða kom upp þar sem upptökukröfur ganga sjálfkrafa til ríkissjóðs og núna er Marple í gjaldþrotameðferð og Kaupþing er eini kröfuhafinn. Fari fjármunirnir því eitthvað annað en til Kaupþings, gæti það rýrt verðmæti félagsins.

Kaupþing eini kröfuhafinn

Friðrik upplýsti enn fremur að Kaupþing væri eini kröfuhafi slitabús Marple, en lýstar kröfur á búið nema 34 milljörðum króna. „Væri fallist á upptöku fjármuna á hendur Marple myndi það skerða hagsmuni Kaupþings,“ sagði hann og bætti við að það væri mat kröfuhafa að vegna þessarar sérstöku stöðu væri farið fram á við dómara að hafna upptöku Marple, enda væri í lögum talað um að verja þyrfti hagsmuni brotaþola.

„Allt í nafni réttlætis“

Sigurður G. Guðjónsson, lögmaður Guðnýjar Örnu, gagnrýndi harðlega, eins og fleiri lögmenn í svokölluðum hrunmálum hafa gert áður, hvernig embætti sérstaks saksóknara var stofnað og hlutverk þess.

„Allt í nafni réttlætis,“ sagði hann og bætti við að „svonefnt réttlæti“ hefði átt að nást með stofnun embættisins sem átti að sefa reiðina á Austurvelli frá haustinu 2008 til stjórnarskiptanna 2009.

„Dómstólar eiga ekki að láta löggjafann bjóða sér svona dellu,“ sagði hann og hvatti dómstóla til að stíga niður fæti í þessum efnum. Hlutverk þeirra væri að verja borgara fyrir ofvaldi löggjafans og framkvæmdavaldsins. Sagði hann saksóknara ekki hafa tekist að sýna fram á að ákærðu hefðu gerst sek um fjárdrátt eða umboðssvik.