Fimm Arnar Birkir Hálfdánsson skýst á milli Akureyringa og býr sig undir að skjóta en hann skoraði fimm mörk fyrir ÍR í gær.
Fimm Arnar Birkir Hálfdánsson skýst á milli Akureyringa og býr sig undir að skjóta en hann skoraði fimm mörk fyrir ÍR í gær. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Austurbergi Sindri Sverrisson sindris@mbl.is Hvað gerirðu þegar maðurinn sem skoraði fjórðung marka liðsins á síðustu leiktíð ákveður að fullnægja ævintýraþörfinni með því að flytja til Dúbaí og leika þar handbolta?

Í Austurbergi

Sindri Sverrisson

sindris@mbl.is

Hvað gerirðu þegar maðurinn sem skoraði fjórðung marka liðsins á síðustu leiktíð ákveður að fullnægja ævintýraþörfinni með því að flytja til Dúbaí og leika þar handbolta? Jú, þú leitar nýrra leiða til að halda liðinu þínu svo góðu að það geti aftur gert tilkall til Íslandsmeistaratitilsins, jafnvel komist enn nær en í fyrra þegar hálfgert slys kom í veg fyrir að ÍR spilaði um Íslandsmeistaratitilinn. Alla vega ef þú ert á annað borð með metnað fyrir slíku.

Já, það var enginn Björgvin Hólmgeirsson á fjölunum í Austurbergi í gær, þegar ÍR lagði Akureyri í fyrstu umferð Olís-deildarinnar. Björgvin hefur verið andlit ÍR-liðsins, einn albesti leikmaður deildarinnar, og hans skarð verður í raun ekki fyllt með einum manni. ÍR-ingar eru hins vegar byrjaðir að moka. Mörkin þurfa nú að koma úr fleiri áttum og með öðrum hætti. Það gekk nægilega vel upp í gærkvöld.

Sá sem tók stöðu Björgvins sem vinstri skytta, og fær ef að líkum lætur mun stærra hlutverk nú en áður, er Ingi Rafn Róbertsson. Hann stóð vel fyrir sínu í gærkvöld og skoraði átta mörk. Hvort hann verður burðarás í ÍR-liðinu verður að koma í ljós en hann gaf alla vega góð skilaboð í gær. Sennilegra er að Arnar Birkir Hálfdánsson þurfi að bera meiri ábyrgð en áður, og hann hefur svo sem aldrei verið hræddur við að taka af skarið. Frekar hefur hann skort skynsemi við val á sendingu eða skoti, en Arnar átti ágætan leik í gær. Sturla Ásgeirsson og þjálfarinn Bjarni Fritzson verða áfram í stórum hlutverkum, ef mið er tekið af leiknum í gær, þar sem Sturla tók reyndar upp á að klúðra tveimur vítaskotum, sem er saga til næsta bæjar. Arnór Freyr Stefánsson stóð sig vel í markinu og tókst með vörninni að halda hreinu á um 10 mínútna kafla um miðjan seinni hálfleik, þar sem ÍR lagði grunninn að sigrinum.

Sverre þarf meiri stemningu

Akureyri er nú komið undir stjórn silfurdrengsins Sverre Jakobssonar. Það verður forvitnilegt að sjá hvernig hann plumar sig sem þjálfari. Akureyringar byrjuðu leikinn vel og sérstaklega vakti Brynjar Hólm Grétarsson, stór og sterk skytta þeirra, athygli mína. Hörður Másson, örvhent skytta sem kom frá Selfossi, sýndi einnig á tíðum lipra takta.

Það hljómar kannski eins og mikil einföldun, en það virtist einfaldlega vanta kraft og stemningu í gestina í seinni hálfleiknum. Hreiðar Levý Guðmundsson kom í markið þegar leið á, varði vel og reyndi að rífa menn í gang, enda sást betra lífsmark hjá Akureyringum á lokamínútunum, en þá var það orðið of seint.