[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Guðrún Dager Garðarsdóttir, hún Gunna, er Ofanbyggjari úr Vestmannaeyjum sem slysaðist til náms og hleypti heimdraganum 16 ára gömul. Jarðirnar fyrir ofan Hraun voru lengi ríkisjarðir sem ábúendur leigðu gegn viðhaldi þeirra.

Guðrún Dager Garðarsdóttir, hún Gunna, er Ofanbyggjari úr Vestmannaeyjum sem slysaðist til náms og hleypti heimdraganum 16 ára gömul. Jarðirnar fyrir ofan Hraun voru lengi ríkisjarðir sem ábúendur leigðu gegn viðhaldi þeirra. Þeim fylgdu hlunnindi, sjófugl og egg, á Heimaey og í úteyjum. Húsaþyrpingin hverfðist um prestsetrið Ofanleiti. Á bæjunum var framan af stundaður sjálfsþurftarbúskapur, þar bjó ósérhlífið fólk, bæði fátækir og ríkir, sem naut kompanísins við náttúruna.

Menntun og störf

Eftir landspróf innritaði faðirinn heimasætuna í Menntaskólann á Akureyri í hans heimabæ hjá ættinni og tilheyrir hún annáluðum 1975-stúdentahópnum. Í skjalageymslu skólans ku enn vera geymd sk. pönnukökuritgerð sem rann úr sjálfblekungi hennar yfir 30 A4-síður og er sögð lengsta ritgerð í sögu skólans. Þar daðraði hún við leikhúsgyðjuna í uppsetningu á Atómstöðinni. Mest auðlegð afmælisbarnsins er að hafa alist upp fyrir ofan Hraun sem skilaði henni einkunninni 10 á stúdentsprófi fyrir íslenskuritgerð um fugla- og eggjatöku í Eyjum.

Árið 1977 lá leiðin til Lundarháskóla í þjóðhátta- og bókmenntafræði eftir að hafa kennt við Barnaskóla Vestmannaeyja þaðan sem hún eitt sinn útskrifaðist með verðlaun fyrir bestu ritgerð í íslensku á barnaprófi. Í Lundi kynntist hún Max Dager sem hún svo giftist og ættleiddu þau 1992 einkadótturina Ingibjörgu Iris Mai Svölu, frá Hanoi.

Áhuginn á þjóðháttafræði spratt úr sjálfboðaverkefni um fráfærur á Vestfjörðum sumarið 1976 en laut í lægra haldi fyrir bókmenntaheiminum og er Guðrún bókmennta- og menningarfræðingur frá Stokkhólmsháskóla. Auk þess nam hún hnattræna hagfræði við Lundarháskóla og opinbera stjórnsýslu með diplóma frá Háskóla Íslands 2011.

Erlendis urðu árin 27. Í sautján þeirra var hún í lykilábyrgðarstöðum á skrifstofu Norðurlandaráðs bæði í Stokkhólmi og í Kaupmannahöfn sem útgáfustjóri, þingritari og ráðgjafi menningarnefndar, Norðurlandanefndar, fjárlaganefndar og forsætisnefndar ráðsins. Hún hélt heim haustið 2004 sem skrifstofustjóri Þjóðmenningarhússins og Max varð forstjóri Norræna hússins. Hún er nú starfsmaður Þjóðminjasafns Íslands.

Í tilefni tímamótanna

Hver veit hvað framtíðin ber í skauti sér en ferðalög heilla enn sem fyrr. Jórdanía er á dagskrá með einni vinkvennanna frá Lundarárunum í vídeóklúbbnum. Aldrei að vita nema sjálfblekungurinn komist aftur í gagnið. Guðrúnu er meinilla við „brottfluttur Vestmannaeyingur“ það tekur nefnilega enginn maður það frá Ofanbyggjara að vera það sem hann var, er og verður.

Guðrún ætlar að fagna afmælisdegi sínum með foreldrum sínum sem eru ábúendur Þorlaugargerðis eystra í Vestmannaeyjum. Lautarferð með blóðbergste á brúsa, krækiberjum beint af lyngi, margrómaðri marengstertu og kvöldverður með foreldrum í Slippnum er þó á dagskránni í dag.

Fjölskylda

Eiginmaður: Max Dager, f. 12.6. 1956, CEO. Foreldrar hans eru Sven Dager, f. 27.04. 1914, d. 8.8. 2002, tannlæknir í Karlskrona, Svíþjóð og k.h. Harriet Dager, f. 15.5. 1917 d. 19.12. 1971 húsmóðir í Karlskrona.

Dóttir: Ingibjörg Iris Mai Svala Dager, f. 21.9. 1992, lögfræðingur og mastersnemi við lagaskóla Edinborgarháskóla.

Systkini: Friðrik Garðarsson f. 18.12. 1956, vélamaður í Vogum á Vatnsleysuströnd, Fríða Garðarsdóttir, f. 22.1. 1960, flugumferðarstjóri, bús. í Kópavogi, og Sigríður Garðarsdóttir f. 16.10. 1963, sjóntækniliði í Ósló.

Foreldrar: Garðar Arason, f. 2.5. 1935, verslunarmaður og bóndi í Þorlaugargerði eystra í Vestmannaeyjum og k.h. Ingibjörg Jónsdóttir, f. 14.3. 1934, húsfreyja og bóndi í Þorlaugargerði.