Bringa Næsti höfði norðan Gaukshöfða kallast Bringa og gamli 100 króna seðillinn sýndi fjallsafn Gnúpverja undir henni eins og margir eflaust muna.
Bringa Næsti höfði norðan Gaukshöfða kallast Bringa og gamli 100 króna seðillinn sýndi fjallsafn Gnúpverja undir henni eins og margir eflaust muna. — Ljósmynd/Ólafur Jónsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fyrstu fjárréttir á Suðurlandi í ár fara fram í dag þegar réttað verður í Skaftholtsréttum í Gnúpverjahreppi og Hrunaréttum í Hrunamannahreppi. Lengstu göngur taka marga daga. „Við höfum fengið góðveður, þokur og rok.

Fyrstu fjárréttir á Suðurlandi í ár fara fram í dag þegar réttað verður í Skaftholtsréttum í Gnúpverjahreppi og Hrunaréttum í Hrunamannahreppi. Lengstu göngur taka marga daga.

„Við höfum fengið góðveður, þokur og rok. Það hefur gengið á ýmsu,“ segir Steinar Halldórsson, fjallkóngur Hrunamanna, en þegar Morgunblaðið náði sambandi við hann viðraði einkar vel til reksturs. Og þó ekki. „Féð vill ekki heim af fjallinu núna. Það er svo gott veður,“ segir Steinar kíminn í bragði áður en hann kveður.

Ólafur Jónsson, trússari fyrir Gnúpverja, segir yfirstandandi ferð vera þá 97. á sínum ferli. „Ég hef farið þrjár ferðir á hausti í nokkuð mörg ár núna,“ segir Ólafur. Hann segist telja að féð komi vel undan sumri í ár.

Réttastæði Skaftholtsrétta er talið vera eitt það elsta á Íslandi, frá 12. öld, og eru réttin listilega hlaðin úr Þjórsárhraungrýti.

Um 2.500 fjár eru í því safni sem nú er réttað í Skaftholtsréttum, en því hefur farið fjölgandi nú allra síðustu ár, samkvæmt upplýsingum frá Skeiða- og Gnúpverjahreppi.