Tólfan Stuðningur frá stúkunni skiptir máli í kappleikjum.
Tólfan Stuðningur frá stúkunni skiptir máli í kappleikjum. — Morgunblaðið/Golli
Benedikt Bóas benedikt@mbl.is Gaman Ferðir hafa uppi áætlanir um að bjóða upp á ferð til Tyrklands á lokaleik Íslands í undankeppni Evrópumótsins í fótbolta sem fram fer þann 13. október. Í síðustu ferð, til Hollands, fóru 2.

Benedikt Bóas

benedikt@mbl.is

Gaman Ferðir hafa uppi áætlanir um að bjóða upp á ferð til Tyrklands á lokaleik Íslands í undankeppni Evrópumótsins í fótbolta sem fram fer þann 13. október. Í síðustu ferð, til Hollands, fóru 2.800 manns og fékk karlalandsliðið áður óþekktan stuðning á útivelli. Þrátt fyrir að karlalandsliðið sé búið að tryggja sér sæti í lokakeppninni í Frakklandi að ári er engan bilbug að finna á Gaman ferðum. Þór Bæring, einn af eigendum fyrirtækisins, segir að málin muni skýrast í næstu viku.

„Við erum að reyna að sjóða saman ferð til Tyrklands – það er á plani en niðurstaða fæst ekki fyrr en í næstu viku. Við erum að skoða málið með opnum huga. Það er alltaf áhugi á að fara til Tyrklands og við ætlum að reyna að setja saman ferð.“

Einhver áhugi er hjá Tólfunni, stuðningsmannasveit Íslands, að fara í ferðina en þó eru einhverjir sem fóru til Hollands að hugsa um að sleppa henni, vegna þess að Ísland er öruggt með sæti í lokakeppninni. Ætla að spara peninginn og fara með trukki og dýfu til Frakklands.

Enn allt að fæðast

Ekki eru mörg ár síðan að íslenska karlalandsliðið fékk örfáa til að styðja sig á útileikjum en slíkt er að breytast með öflugu starfi Tólfunnar. Fyrsta alvöru ferðin var farin í fyrra til Tékklands og Holland tók svo við.

„Þessar stuðningsmannaferðir eru í raun enn að fæðast. Við erum enn svo ný í þessari menningu. Við erum bara í sjálfboðavinnu að reyna að skipuleggja gott partý í útlöndum til að styðja strákana,“ segir Benjamín Hallbjörnsson varaformaður Tólfunnar.