Valencia Jón Arnór Stefánsson á fullri ferð í leiknum við Tyrki í Berlín í gærkvöld. Hann er á leið til Valencia eftir að hafa spilað með Málaga.
Valencia Jón Arnór Stefánsson á fullri ferð í leiknum við Tyrki í Berlín í gærkvöld. Hann er á leið til Valencia eftir að hafa spilað með Málaga. — Ljósmynd/Skúli B. Sigurðsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Berlín Kristján Jónsson kris@mbl.is Logi Gunnarsson, stórskytta úr Njarðvík, tók skot á stóra sviðinu í Berlín í gærkvöldi sem hann æfði sjálfsagt milljón sinnum sem krakki. Þriggja stiga skot á síðustu sekúndum til að knýja fram framlengingu.

Í Berlín

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Logi Gunnarsson, stórskytta úr Njarðvík, tók skot á stóra sviðinu í Berlín í gærkvöldi sem hann æfði sjálfsagt milljón sinnum sem krakki. Þriggja stiga skot á síðustu sekúndum til að knýja fram framlengingu. Skotið fór beint ofan í og liðlega þúsund Íslendingar í höllinni ærðust af fögnuði.

„Þetta er eitt af stærstu skotunum á ferlinum. Ég tróð mér inn á. Ég get það því ég er leikjahæstur og elstur. Ég var á bekknum þegar sjö sekúndur voru eftir. Ég kallaði þá á þjálfarann og sagði að við þyrftum eins margar skyttur inn á og mögulegt væri. Hann sagði já og henti mér inn á. Ég held að skotið hafi verið auðvelt fyrir mig vegna þess að ég var heitur í leiknum og hafði mikið sjálfstraust en körfubolti snýst mikið um sjálfstraust. Ég fann um leið og ég fékk boltann að þetta var eðlilegt skot fyrir mig. Ég skýt mikið og geri það á hverjum einasta degi. Ég trúi því að þetta skot hafi verið verðlaun fyrir mig út á öll þau skot sem ég hef tekið í gegnum tíðina,“ sagði Logi við Morgunblaðið en hann er orðinn sjötti leikjahæsti maður Íslands með 121 landsleik og fór í gær upp fyrir Jón Sigurðsson. Logi varð 34 ára meðan á mótinu stóð og mun áfram gefa kost á sér í landsliðið. „Á meðan ég er hraustur og heilbrigður þá vil ég halda áfram. Eftir þessa upplifun í Berlín þá langar mig að komast aftur á EM eftir tvö ár,“ sagði Logi sem jafnaði 91:91 en Tyrkland hafði betur eftir framlengingu 111:102.