Það er ósköp haustlegt hér fyrir sunnan,“ skrifaði Pétur Stefánsson á Leirinn undir kvöldmat á þriðjudaginn: Horfinn er sumarsins ylur og yndi. Allt hefur fölnað blómanna skraut.

Það er ósköp haustlegt hér fyrir sunnan,“ skrifaði Pétur Stefánsson á Leirinn undir kvöldmat á þriðjudaginn:

Horfinn er sumarsins ylur og yndi.

Allt hefur fölnað blómanna skraut.

Haustið er komið með vætu og vindi

og vorfuglar allir flognir á braut.

Ólafur Stefánsson tók í sama streng:

Pétur er kominn að kveða inn

haustið,

karlinn er alla tíð samur og jafn.

Bát sínum gamla hann bjargar

í naustið

brýnir í vörinni marglúinn stafn.

Seinna um kvöldið barst kveðja frá Fíu á Sandi, sem hafði aðra sögu að segja:

Hingað kom sumarsins ylur og yndi

iðjagrænn skógur hlaut logagyllt

skraut.

Nú heyja menn túnin í hressandi

vindi

þó hér séu fuglar, að sjálfsögðu

á braut.

Árla næsta morgun lét sr. Skírnir Garðarsson frá sér heyra:

Við Ásvallagötu er yndi og friður,

þó eilífðar smáblómin titri á blá.

Hér glaðir menn una því gjörningur

viður

er góður, og hunangið drýpur

um strá.

Og bætti við: „Þetta er stemmningin.“

Brátt lét Sigurlín Hermannsdóttir til sín heyra:

Haustið kom með látum liðna nótt

það lamdi glugga, hurðir, veggi og þil.

Lauf af trjánum rifnar furðu fljótt

og fyllir götur, svona hér um bil.

Vindur grætur, vælir sárt og hvín

og virðist þjást af slæmri ástarsorg.

Þá hátt á loft mun takast trampólín

og tignarlega svífa yfir borg.

Skjótt skipast veður í lofti. Upp úr hádeginu á miðvikudag skrifaði Fía á Sandi:

Rifsberin smáu sem garðurinn gaf

af greinunum eru að fjúka.

Og hattarnir fuku, fjöllunum af

ferð þeirra, í sjónum mun ljúka.

Á Boðnarmiði er þetta vel kveðna afbrigði dróttkvæðs háttar eftir Rögnu Guðvarðardóttur og ber yfirskfriftina „Þjóðsaga (gömul og ný)“:

Fjalla í hól og helli

halda enn fast í valdið

grályndir þursar þráir

þrefa og steyta hnefa

bak við þá drottnar dreki

drýldinn í skapi fýldur

dvergar í bláu bergi

bræða gull sitt í næði.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is