Borgarnes Hvanneyringar og sveitarstjórn standa í deilum.
Borgarnes Hvanneyringar og sveitarstjórn standa í deilum. — Morgunblaðið/Guðrún Vala
Ingvar Smári Birgisson isb@mbl.is Heitar umræður spunnust á fundi sveitarstjórnar Borgarbyggðar í gær þegar breyting á tilhögun grunnskólakennslu á Hvanneyri var rædd. Niðurstaða fundarins var að breyta ekki fyrri ákvörðun.

Ingvar Smári Birgisson

isb@mbl.is

Heitar umræður spunnust á fundi sveitarstjórnar Borgarbyggðar í gær þegar breyting á tilhögun grunnskólakennslu á Hvanneyri var rædd. Niðurstaða fundarins var að breyta ekki fyrri ákvörðun.

Á íbúafundi á Hvanneyri nýlega var lýst yfir vantrausti á meirihlutann í Borgarbyggð vegna áætlana um að færa grunnskólakennslu að hluta til á Kleppjárnsreyki eða til Borgarness. Vantraustsyfirlýsingin var rædd á sveitarstjórnarfundinum en meirihlutinn hyggst ekki stíga til hliðar í kjölfar ályktunarinnar. Björn Bjarki Þorsteinsson, oddviti meirihlutans í Borgarbyggð, segir að þorrinn af 180 fundarmönnum á íbúafundinum hafi setið hjá við samþykkt yfirlýsingarinnar.

Önnur yfirlýsing var samþykkt á íbúafundinum, án mótatkvæða, og sneri hún að því að sveitarstjórn myndi endurskoða ákvörðun sína um að færa grunnskóladeildina frá Hvanneyri. Björn segir að sveitarstjórnin muni ekki hvika frá ákvörðun sinni.

Grunnskólahald ekki lagt af

Tillaga meirihlutans er að nám í 3. og 4. bekk í grunnskólanum á Hvanneyri verði fært á Kleppjárnsreyki eða Borgarnes í hagræðingarskyni, en fram til þessa hafa 1.-4. bekkur verið við grunnskólann á Hvanneyri. Eldri nemendur hafa sótt nám á Kleppjárnsreykjum.

„Við erum ekki að leggja af grunnskólahald á Hvanneyri. Það er greinilegt að ákveðnir aðilar ganga hart fram í því að það sé ekki tilefni til samtals um okkar lausn á málum, en ég vona svo sannarlega að okkur takist að ná fram samtali um þessi mál. Það er ákveðinn hópur fólks á Hvanneyri sem hefur laumað því að okkur að hann sé opinn til samtals.“

Til bóta fyrir nemendur

Fyrir liggur að breytingarnar muni spara Borgarbyggð 35-40 milljónir króna á ári. Björn Bjarki telur þó einnig að breytingarnar séu til bóta fyrir nemendur á Hvanneyri.

„Þá eru börnin komin í stærri bekkjardeildir, minni líkur eru á samkennslu fyrir marga aldurshópa og sömuleiðis fá þau líka kennslu í íþróttum og sundi, en sú aðstaða er því miður ekki til staðar á Hvanneyri. Til viðbótar eru þetta smáir árgangar og við teljum það hag þeirra að komast í stærri einingar. “

Ragnar Frank Kristjánsson, íbúi á Hvanneyri og fulltrúi Vinstri grænna í sveitarstjórn, lagði fram bókun á fundinum þar sem lagst var gegn því að skólahald á Hvanneyri yrði skert.