Fundað Fjölmennur aðalfundur fór fram í salarkynnum Grand Hótels í gær en rúmlega 200 manns mættu þar.
Fundað Fjölmennur aðalfundur fór fram í salarkynnum Grand Hótels í gær en rúmlega 200 manns mættu þar. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Skúli Halldórsson sh@mbl.is Ný stjórn var kjörin í húsnæðissamvinnufélaginu Búmönnum í gær, þegar rúmlega 200 félagsmenn komu saman á aðalfundi félagsins á Grand Hótel.

Skúli Halldórsson

sh@mbl.is

Ný stjórn var kjörin í húsnæðissamvinnufélaginu Búmönnum í gær, þegar rúmlega 200 félagsmenn komu saman á aðalfundi félagsins á Grand Hótel. Gunnar Kristinsson, matvæla- og stjórnsýslufræðingur, var þá kjörinn formaður félagsins.

Í samtali við Morgunblaðið segir hann að viðræður séu yfirstandandi á milli félagsins og Íbúðalánasjóðs.

„Nú koma nýir menn inn í þær viðræður sem aðrar og við munum koma saman eftir helgi til að leggja línurnar fyrir framhaldið,“ segir Gunnar. Búmenn fengu heimild til greiðslustöðvunar 15. maí síðastliðinn og fyrir skömmu fékkst greiðslustöðvunin framlengd til 4. desember.

„Við ætlum að reyna að nýta þann tíma til að vinna úr þeim hugmyndum sem fram eru komnar, en allt miðar þetta að því að finna lausnir á vanda Búmanna,“ segir hann.

Fjárhagsvandi Búmanna er talsverður en sú ógn sem helst steðjar að félaginu felst í innlausnarskyldu þess á íbúðum þegar búseturéttarhafar vilja skila þeim af sér að lokinni búsetu.

Nauðasamningar taka við

„Félagið er engan veginn í stakk búið til að uppfylla þessar skyldur sem það stendur gagnvart. Þann vanda þarf að leysa,“ segir Gunnar.

Aðstoðarmaður félagsins í greiðslustöðvuninni er Helgi Jóhannesson, hæstaréttarlögmaður á lögmannsstofunni LEX.

„Nú verður væntanlega farið í nauðasamningaferli. Ef nýja stjórnin heldur áfram áætlunum þeirrar gömlu þá liggur næst við að fá lokasvar frá Íbúðalánasjóði varðandi nokkur atriði áður en gengið er til nauðasamninga,“ segir Helgi.

Nauðasamningarnir snúi að því að fella niður innlausnarskyldu félagsins á íbúðarrétti félagsmanna, svo að þeir geti selt réttinn á frjálsum markaði.

Vanhugsaðar byggingar

Í kjölfar bankahrunsins árið 2008 fór staða Búmanna að versna verulega. Gunnar segir að rót vanda Búmanna megi þó rekja til áranna þar á undan.

„Auðvitað hafði hrunið sitt að segja. Þegar þar að kom höfðu menn hins vegar byggt íbúðir á svæðum þar sem engin þarfagreining hafði verið gerð. Ef að slík greining hefði farið fram þá hefði það komið í ljós að þessar framkvæmdir hefðu aldrei verið fjármagnaðar af hálfu Íbúðalánasjóðs.“