Hvernig eiga börnin að bæta heiminn ef þau vita ekki að hann er bilaður?

Að eiga kött er ekki það sama og það að eiga barn. Þessu gerir móðursjúki kattareigandinn ég sér ágætlega grein fyrir en líklega er það ekki að ástæðulausu að fólkið í kringum mig finnur reglulega hjá sér þörf til að benda mér á þessa staðreynd.

Stundum vildi ég samt óska þess að Snabbi væri barn, eða öllu heldur að hann hefði skilning á við svona átta ára krakka. Þá gæti ég treyst honum til þess að lenda ekki í slag á nóttunni, passa sig á bílunum og borða ekki bláan fisk. Þá gæti ég líka kennt honum „Góða mamma“ á píanó og við yrðum YouTube stjörnur en sú pæling er ótengd þessum pistli.

Eitt það besta við það að fylgjast með börnum vaxa úr grasi er að sjá skilning þeirra á heiminum aukast jafnt og þétt. Skilningur barna takmarkast þó framan af að miklu leyti af þeim upplýsingum sem foreldrar þeirra kjósa að láta þeim í té. Þrátt fyrir að ég sé bara aumur og barnlaus kattareigandi þori ég að fullyrða að það sem er ósagt látið hafi oft jafnmikið að segja í uppeldi barna og það sem þeim er sagt. Sérstaklega á dögum internetsins þar sem krakkar geta fundið upplýsingar á netinu um hvað sem er með einum smelli.

Réttar upplýsingar, rangar upplýsingar og allt þar á milli.

Ef við segjum börnunum ekki frá heiminum gerir internetið það.

Fólk sem fer í gegnum lífið umvafið æðardúnssængum foreldra sinna er ekki líklegt til að kunna að standa á fætur þegar það fellur þó það lendi kannski mjúklega.

Fólk sem sér mansal, fátækt, stríð og hörmungar í fréttum en hefur frá unga aldri heyrt að „svona gerist ekki á Íslandi“ er ekki líklegt til að geta sett sig í spor náungans þegar á reynir.

Við þurfum að segja börnunum okkar frá óútreiknanlegri grimmd heimsins og kenna þeim að berjast gegn henni. Kenna þeim að ekkert er sjálfgefið og að þess vegna, ef ekki af kærleikanum einum saman, sé mikilvægt að hjálpa öðrum í neyð og gera sitt ýtrasta til að koma í veg fyrir þjáningar annarra.

Röfl um ofverndaðar kynslóðir kann að virðast gömul tugga en vísan um uppfræðslu unga fólksins er sjaldan of oft kveðin. Hvernig eiga börnin að bæta heiminn ef þau vita ekki að hann er bilaður?

Anna Marsbil Clausen annamarsy@mbl.is

Höf.: Anna Marsbil Clausen annamarsy@mbl.is