Renata Erlendsdóttir (fædd Renate Monika Seidl) fæddist í Leipzig í Þýskalandi 25. júlí 1941. Hún lést 2. september 2015 á heimili sínu.

Að lokinni síðari heimsstyrjöld fluttu foreldrar hennar til Plauen, lítils bæjar í suðurhluta A-Þýskalands, þar sem Renata ólst upp hjá foreldrum sínum ásamt yngri bróður, Klaus.

Að loknu stúdentsprófi innritaðist Renata í Dolmetscherinstitut der Karl Marx Universität í Leipzig. Hún útskrifaðist sem diplom-túlkur og skjalaþýðandi í rússnesku og ensku árið 1964. Sama ár hóf hún störf í Berlín hjá alþjóðadeild fyrirtækisins VVB Bauelimente und Vakuumtechnik og fékkst m.a við þýðingar og túlkastörf á viðskiptaráðstefnum á vettvangi Comecon. Þar starfaði hún til ársins 1969, þegar hún hóf störf sem sjálfstætt starfandi túlkur og skjalaþýðandi. Með vinnu hjá ofangreindu fyrirtæki hóf hún einnig nám í spænsku í Humboldt-háskóla.

Renata kynntist eiginmanni sínum, Erni Erlendssyni, sem þá var við nám í Berlin, árið 1964. Þau giftu sig í Ráðhúsinu í Köpernik þann 25. september 1970. Í byrjun árs 1971 flutti svo Renata með manni sínum til Íslands.

Renata stundaði nám í íslensku fyrir útlendinga við Háskóla Íslands og náði svo góðu valdi á íslenskri tungu að erfitt var að heyra að hún væri ekki Íslendingur. Um margra ára skeið starfaði hún í útflutningsfyrirtæki þeirra hjóna, Triton ehf., ásamt því að sinna þýðingarstörfum, þar til árið 1990 er hún helgaði sig alfarið eigin fagi og fékkst fram til síðasta dags við túlkun, dómtúlkun og þýðingar. Á seinni tímum fékkst hún sérstaklega við störf fyrir Útlendingastofnun, sem og ýmis lögreglu- og dómsmál.

Örn og Renata eiga tvo syni, Orm Jarl og Rolf Hákon. Ormur er framkvæmdastjóri Triton og eiginkona hans, Amanda Garner, framkvæmdastjóri Hylang Language Center í Madríd, eiga saman börnin Noru Katrínu, sjö ára, og Leon Alexander, fjögurra ára. Þau eru búsett á Spáni. Fyrir átti Ormur dótturina Írisi Hrund, 22 ára, sem er við nám í ferðamálafræði við Háskóla Íslands. Rolf Hákon er framkvæmdastjóri niðursuðuverksmiðjunnar Akraborgar á Akranesi. Sambýliskona hans er Eva Sif Jóhannsdóttir, sérkennslustjóri á leikskólanum Furugrund, og saman eiga þau soninn Ými Örn, eins árs.

Útför Renötu fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 11. september 2015, kl. 15.

Borin er til grafar í dag, föstudaginn 11. september, kær vinkona og samstarfsmaður, Renata Erlendsson.

Minningar mínar um Renötu ná aftur til unglingsáranna þegar þau hjón, Örn Erlendsson og Renata, bjuggu í sama húsi og foreldrar mínir að Espigerði í Reykjavík. Ég kynntist Renötu ekki fyrr en nokkrum árum síðar í gegnum starf okkar en minnist hennar frá fyrstu tíð vegna þess hve „elegant“ hún var, glettni í augum, rauðkastaníubrúnt hrokkið hár og freknur í fíngerðu andliti.

Þegar leiðir okkar lágu svo saman í starfi urðum við strax vinir – náðum vel saman. Vinátta Renötu er mér mikils virði. Hún var sérlega gestrisin, reyndar svo að ekkert var gestum hennar og vinum nógu gott. Þau hjón bjuggu sér glæsilegt heimili að Kleifarási í Reykjavík og þangað var gott að koma. Yfirbragð heimilisins og búnaður ber með sér að þar búa heimsborgarar, enda ferðalög Renötu og Arnar á fjarlægar slóðir orðin mörg.

Renötu verður ekki síst minnst fyrir fagmennsku í starfi en hún var löggiltur dómtúlkur og skjalaþýðandi og starfaði á móðurmáli sínu, þýsku, sem og á rússnesku og ensku. Íslenskukunnátta hennar var mikil þótt sjálf gerði hún frekar lítið úr því. Renata starfaði lengi sem skýrslutökutúlkur fyrir lögreglu og í dómi og leysti verkefnin óaðfinnanlega af hendi, reyndar svo að eftir var tekið. Hún var jafnframt ráðstefnutúlkur og naut ég þess að vinna með henni.

Við brottför góðs vinar hellast minningarbrot gjarnan yfir mann eins og myndskeið. Ég sé Renötu og Örn á heimilinu, einnig að Barðastöðum rétt við brimölduna á Snæfellsnesi, Renötu með skemmtilegan, stundum skringilegan hatt á höfði, í starfi og leik. Ég mun sakna vinkonu minnar, Renötu Erlendsson.

Við Þorsteinn Ingi vottum Erni og öðrum aðstandendum innilega samúð okkar og biðjum þeim Guðs blessunar.

Ellen Ingvadóttir.