Fjölhæfur Hinrik Danaprins er annálaður matgæðingur.
Fjölhæfur Hinrik Danaprins er annálaður matgæðingur. — Kongehuset.dk/Mikkel Tjellesen
Í þættinum Konunglegar kræsingar sem sýndur er á RÚV á þriðjudagskvöldum er skyggnst inn í eldhús í höllum dönsku konungsfjölskyldunnar. Hinrik Danaprins, eiginmaður Margrétar drottningar, er þar í aðalhlutverki enda annálaður matgæðingur.

Í þættinum Konunglegar kræsingar sem sýndur er á RÚV á þriðjudagskvöldum er skyggnst inn í eldhús í höllum dönsku konungsfjölskyldunnar. Hinrik Danaprins, eiginmaður Margrétar drottningar, er þar í aðalhlutverki enda annálaður matgæðingur.

Þátturinn var ekki sýndur núna á þriðjudaginn vegna stefnuræðu forsætisráðherra, en í þættinum í síðustu viku var sögusviðið sumarhöll prinsins í Frakklandi. „Hér erum við á venjulegu einkaheimili,“ sagði prinsinn um höllina, þar sem þjónar og stofustúlkur eru á hverju strái.

Í þættinum voru gestakokkar, dönsku Price-bræðurnir sem einnig hafa gert matreiðsluþætti sem sýndir hafa verið á RÚV. Þeir elduðu kvöldverð fyrir drottninguna og prinsinn og fóru með prinsinum á matarmarkað í nálægu þorpi. „Ég er í sambandi við fólkið á staðnum,“ sagði prinsinn og til marks um það kyssti hann þorpsbúa í bak og fyrir.

Þættirnir eru sannkallaður hvalreki á fjörur aðdáenda Hinriks, en undirrituð er ein af þeim. Svo geta þeir sem borða reglulega ostrur, fasana eða kanínur eldaðar upp úr frönsku rauðvíni lært sitthvað af prinsinum.

Anna Lilja Þórisdóttir

Höf.: Anna Lilja Þórisdóttir