Rannsókn Prófessorarnir Peter Schmidt og John Hawks skoða bein.
Rannsókn Prófessorarnir Peter Schmidt og John Hawks skoða bein. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kjartan Kjartansson kjartan@mbl.is Fjöldi steingerðra beina áður óþekktrar ættkvíslar manna fundust djúpt í iðrum hella nærri Jóhannesarborg í Suður-Afríku. Alls fundust bein úr fimmtán einstaklingum tegundarinnar, sem hefur hlotið nafnið Homo naredi .

Kjartan Kjartansson

kjartan@mbl.is

Fjöldi steingerðra beina áður óþekktrar ættkvíslar manna fundust djúpt í iðrum hella nærri Jóhannesarborg í Suður-Afríku. Alls fundust bein úr fimmtán einstaklingum tegundarinnar, sem hefur hlotið nafnið Homo naredi . Fundurinn er sá stærsti sinnar tegundar í Afríku.

Ekki liggur enn fyrir hversu gömul beinin eru en Lee Berger, sem stjórnar rannsókninni, telur að naredi gæti hafa verið á meðal fyrstu tegunda manna og hafi lifað í Afríku fyrir allt að þremur milljónum ára.

Beinin sem fundust voru af einstaklingum af báðum kynjum og öllum aldri. Homo naredi er ólík öllum öðrum tegundum manna sem hafa fundist í Afríku. Tegundin er með örlítinn heila, á stærð við górilluheila, og mjaðmagrind hans og herðar eru frumstæðar.

Mikilvæg uppgötvun

Chris Stringer, prófessor við þjóðminjasafnið í London (National History Museum), segir um mikilvæga uppgötvun að ræða.

„Það sem við sjáum eru sífellt fleiri tegundir sem benda til þess að náttúran hafi verið að prófa sig áfram með hvernig hún ætti að þróa menn og þannig varð til fjöldi mismunandi tegunda sem líkjast mönnum á svipuðum tíma á mismunandi svæðum Afríku. Aðeins ein ættkvísl lifði hins vegar á endanum af og varð að okkur,“ segir Stringer.

Telja sig hafa fundið grafhýsi

Það var ekki einfalt mál að finna steingervingana og ein forvitnilegasta spurningin um þá er hvernig beinin komust niður í hellana. Hópur fornleifafræðinga þurfti að smeygja sér niður í þröng neðanjarðargöng sem liggja úr Helli hinnar rísandi stjörnu. Smávaxnar konur voru valdar úr hópnum vegna þess hversu þröng göngin voru. Þær skriðu í gegnum myrkrið með luktir á höfðinu í tuttugu mínútur þangað til þær fundu hólf þar sem hundruð beina var að finna.

Vísindamennirnir telja sig hafa fundið grafhýsi. Homo naredi -fólkið virðist hafa borið hina látnu djúpt inn í hellana og komið þeim fyrir í hólfinu. Sé sú kenning á rökum reist bendir það til þess að naredi hafi verið fær um að tileinka sér helgisiði og mögulega táknræna hugsun. Fram að þessu hefur verið talið að þeir hæfileikar hafi ekki orðið til í mönnum fyrr en á síðustu 200.000 árunum.