Kringlukast Guðni Valur Guðnason er orðinn þriðji besti kringlukastari Íslands frá upphafi.
Kringlukast Guðni Valur Guðnason er orðinn þriðji besti kringlukastari Íslands frá upphafi. — Ljósmynd/FRÍ
Guðni Valur Guðnason, 19 ára ÍR-ingur, er orðinn þriðji besti kringlukastari Íslands frá upphafi. Hann bætti sig um hvorki meira né minna en 4 metra og 91 sentimetra í gær þegar hann þeytti kringlunni 63,50 metra á kastmóti FH í Kaplakrika.

Guðni Valur Guðnason, 19 ára ÍR-ingur, er orðinn þriðji besti kringlukastari Íslands frá upphafi. Hann bætti sig um hvorki meira né minna en 4 metra og 91 sentimetra í gær þegar hann þeytti kringlunni 63,50 metra á kastmóti FH í Kaplakrika.

Guðni, sem verður tvítugur eftir mánuð, hafði áður kastað 58,39 metra og gerði það í byrjun júlí, en hann hóf að æfa kringlukast fyrir rúmu ári síðan og hefur tekið geysilega hröðum framförum. Hann kastaði í fyrsta skipti yfir 50 metra í september 2014.

Guðni var í sjöunda sæti afrekaskrárinnar fyrir mótið í gærkvöld en fór uppfyrir fjóra þekkta kastara, Óskar Jakobsson (63,24), Eggert Bogason (63,18), Magnús Aron Hallgrímsson (63,09) og Óðin Björn Þorsteinsson (60,29) sem þar með sigu allir niður um eitt sæti á skránni.

Bara Vésteinn og Erlendur betri

Nú eru Íslandsmethafinn Vésteinn Hafsteinsson, sem kastaði 67,64 metra árið 1989, og Erlendur Valdimarsson, sem kastaði 64,32 metra árið 1974, einu Íslendingarnir sem hafa náð betri árangri í þessari grein. Árangur Guðna í gær er semsagt sá besti hjá Íslendingi síðan Vésteinn setti núgildandi Íslandsmet.

„Ég fann um leið og ég sleppti kringlunni að þetta yrði langt kast. Ég hef beðið eftir þessu kasti síðan ég bætti mig síðast. Ég vissi og fann að ég átti mikla bætingu inni,“ sagði Guðni við Morgunblaðið eftir mótið í gær. iben@mbl.is/vs@mbl.is