Oft hefur verið sýnt fram á gildi íþrótta og mikilvægi afreksfólks í íþróttum sem fyrirmyndir og gleðigjafar.

Oft hefur verið sýnt fram á gildi íþrótta og mikilvægi afreksfólks í íþróttum sem fyrirmyndir og gleðigjafar.

Fræg er sagan af stuðningsmönnum enska knattspyrnuliðsins Newcastle, sem fylltu ekki aðeins pallana á leikjum liðsins heldur fjölmenntu á St James' Park í hvert sinn sem búningarnir voru þvegnir og hengdir út á snúru. Í kreppu og atvinnuleysi gátu þeir látið sig dreyma og vonast eftir betri tíð.

Að sama skapi þyrptust Íslendingar á Melavöllinn, þegar hann var og hét, til þess að fylgjast með afreksfólkinu eins og Clausenbræðrum, Gunnari Huseby og Torfa Bryngeirssyni og sagt er að þegar Ísland vann Svíþjóð 4:3 í frægum knattspyrnulandsleik á vellinum 1951 hafi fagnaðarhrópin heyrst upp á Akranes!

Markviss uppbygging íþróttamannvirkja, skipulögð fræðsla leiðbeinenda, kennara og þjálfara og þjálfun íþróttamanna við bestu aðstæður hefur skilað Íslendingum afreksfólki í mörgum greinum eins og til dæmis í sundi, frjálsum, júdó og fimleikum. Stöðugasti árangurinn hefur verið í handboltanum og frammistaða karlalandsliðanna í körfubolta og fótbolta að undanförnu hefur vakið athygli langt út fyrir landsteinana.

Karlalandsliðið í fótbolta hefur átt sviðið undanfarin misseri og árangur þess, að vinna sér sæti í úrslitakeppni Evrópumótsins næsta sumar, er einn glæsilegasti árangur Íslendinga til þessa, með fullri virðingu fyrir öðrum glæstum sigrum. Þetta er liðið sem hefur sameinað þjóðina, aukið bjartsýni hennar og ánægju. Þjálfararnir Heimir Hallgrímsson og Lars Lagerbäck eru í guðatölu og stjórn og annað starfsfólk KSÍ undir forystu Geirs Þorsteinssonar á heldur ekkert nema hrós skilið. Knattspyrnuhreyfingin stendur uppi sem sigurvegari og þjóðin fagnar og gleðst sem aldrei fyrr.