— Morgunblaðið/Ólafur K. Magnússon
11. september 1755 Miklir jarðskjálftar urðu norðanlands. Flest hús á Húsavík féllu, svo og nokkrir bæir á Tjörnesi og víðar. Tveir bátar fórust þegar flóðbylgja skall á þeim. „Dranginn við Drangey hrapaði,“ sagði í Höskuldsstaðaannál.

11. september 1755

Miklir jarðskjálftar urðu norðanlands. Flest hús á Húsavík féllu, svo og nokkrir bæir á Tjörnesi og víðar. Tveir bátar fórust þegar flóðbylgja skall á þeim. „Dranginn við Drangey hrapaði,“ sagði í Höskuldsstaðaannál. Mun þar átt við Karlinn, sem var norðan við eyjuna, því að Kerlingin stendur enn. Jarðhræringarnar stóðu í hálfan mánuð og hefur verið áætlað að stærsti skjálftinn hafi verið 7 stig.

11. september 1884

Nítján skip rak á land í Hrísey í „landsynningsofviðri“ og rúmlega tuttugu önnur skemmdust meira eða minna. Þrír menn drukknuðu. Flest skipanna voru í eigu Norðmanna sem höfðu stundað síldveiðar á Eyjafirði.

11. september 1963

Byrjað var að steypa hvolfþakið á Laugardalshöll. Verkið tók þrjá sólarhringa og voru notuð 1.250 tonn af steypu. Þetta þótti stórvirki á sínum tíma.

11. september 1999

KR tryggði sér Íslandsmeistaratitil í knattspyrnu karla í fyrsta sinn í 31 ár. Daginn eftir varð félagið bikarmeistari í kvennaflokki. Félagið átti 100 ára afmæli á þessu ári.

Dagar Íslands | Jónas Ragnarsson