Sögulegt Húsið sem kaffihúsið er í er eitt það elsta í miðbæ Akureyrar.
Sögulegt Húsið sem kaffihúsið er í er eitt það elsta í miðbæ Akureyrar. — Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson
Brynja Björg Halldórsdóttir brynja@mbl.is Steinsnar frá Ráðhústorgi, rétt ofan við sjónlínu, er Kaffi Ilmur. Húsið var byggt árið 1917 og var íbúðarhús í um 95 ár, þar til Ingibjörg Baldursdóttir breytti því í kaffi- og veitingahús, ásamt tveimur öðrum.

Brynja Björg Halldórsdóttir

brynja@mbl.is

Steinsnar frá Ráðhústorgi, rétt ofan við sjónlínu, er Kaffi Ilmur. Húsið var byggt árið 1917 og var íbúðarhús í um 95 ár, þar til Ingibjörg Baldursdóttir breytti því í kaffi- og veitingahús, ásamt tveimur öðrum. Afi hennar og amma byggðu húsið og Ingibjörg ákvað að leyfa flestöllum munum að njóta sín í upprunalegri mynd.

Hún segist hafa orðið vör við töluverða fjölgun ferðamanna frá árinu 2012 þegar Kaffi Ilmur var opnað, bæði Íslendinga og erlendra ferðamanna. „Við höfum fengið mjög góðar viðtökur og viðskipti hafa farið vaxandi ár frá ári,“ segir hún og bætir við að vöruúrval hafi aukist hratt frá opnun. Matur er nú framreiddur á Ilmi frá morgni til kvölds.

Allt heillegt í húsinu notað

Húsið ber þess greinilega merki að vera gamalt enda lagði Ingibjörg mikið upp úr því að breyta sem minnstu þegar hún gerði það upp árin 2010 og 2011. „Við notuðum allt sem var heillegt, hvort sem það var panill, stofugólfdúkur, hurðir eða hlóðapottur,“ segir hún og bætir við að gluggarnir hafi verið gerðir upp í upprunalegri mynd. ,,Afi var söðlasmiður en söðlasmiðjan var þar sem afgreiðslan er núna. Húsið var síðan þríbýlt íbúðarhús til ársins 2011. Þá var það í niðurníðslu.“

Rottuskytta og rússavodki

Sagan umlykur húsið, en Ingibjörg þekkir bæði sögu hússins og miðbæjar Akureyrar mjög vel. Hún segir blaðamanni til dæmis frá Steina ömmubróður, sem sat í eldhúsglugganum á efri hæð hússins með riffil og skaut rottur á jörðu niðri og langömmu sem var kistulögð á efri hæðinni. „Glugginn var tekinn úr og hún látin síga niður því hjátrúin sagði að andinn yrði frjáls við að fara út um glugga í hinsta sinn,“ segir Ingibjörg og segir sögu um ferðir bæjarbúa út í rússneska togara á bannárunum til að sækja áfengi. „Ég fann til að mynda helling af tómum áfengisflöskum þegar ég fór að gera upp húsið. Ég geymdi þær allar.“

Á veggjunum á neðri hæðinni eru myndir í eigu Minjasafns Akureyrar en efri hæðina prýða myndir úr fjölskyldu Ingibjargar.

Fær sögur á móti frá gestum

Hún segir ferðamennina sem koma á Kaffi Ilm hafa mikinn áhuga á sögum. Stundum fær hún jafnvel sögur á móti frá heimalandi gesta sinna. „Þess vegna velti ég því oft fyrir mér hvort tiltekinn hópur fólks venji komur sínar hingað. Satt að segja held ég að hingað sæki sögu- og menningaráhugafólk og af öllum þjóðernum.“