Í sæluvímunni yfir því að karlalandsliðið í fótbolta skyldi tryggja sér sæti á EM í fyrsta sinn hefur áformum um byggingu nýs knattspyrnuleikvangs víða verið gefið undir fótinn.
Í sæluvímunni yfir því að karlalandsliðið í fótbolta skyldi tryggja sér sæti á EM í fyrsta sinn hefur áformum um byggingu nýs knattspyrnuleikvangs víða verið gefið undir fótinn. Það hljómar reyndar svolítið óraunhæft þegar þjóðin bíður enn eftir nýju og viðunandi sjúkrahúsi, en raunhæft þegar fjárframlög til kirkjumála hækka um 400 millur.

En gott og vel. Ég ætla svo sem ekki að dæma um það hér hvert best sé að veita almannafé. Mig langaði bara að ræða aðeins um Laugardalsvöll, og hversu afleitur hann er að reynast þegar karlalandsliðið spilar þar leiki.

Í fyrsta lagi eru það auðvitað stúkurnar. Tvær stúkur langt frá vellinum, í stað þess að hafa stúku sem næði allan hringinn, alveg við völlinn. Þær rúma líka rétt tæplega 10 þúsund manns, en mun fleiri hefðu viljað sjá síðustu heimaleiki karlalandsliðsins. Svo er auðvitað bara hægt að spila á vellinum hálft árið.

Búningsklefarnir eru barn síns tíma. Núna mega 23 leikmenn vera á leikskýrslu hjá landsliðum karla, og svo eru þjálfarnir þrír, sjúkraþjálfari, læknir og liðsstjóri. Allir þurfa að komast fyrir í smárými, og stærri gestaþjóðirnar láta ekki bjóða sér þetta heldur nýta klefa í nærliggjandi líkamsræktarstöð.

Við blaðamenn lýsum svo leikjum með útsýni af þaki stærri stúkunnar. Þar er engin salernisaðstaða, og ætlast til þess að við sinnum kalli náttúrunnar á jarðhæð stúkunnar, sem við höfum sjaldnast tíma til að gera. Þakið er því geðslega útmigið.

Vandamálin hafa ekki verið eins hrópandi á landsleikjum kvenna. Leikmannahópar þar eru minni, áhorfendur færri og fjölmiðlamenn í betri málum. En ég held að allt fótboltafólk vilji nýjan og betri leikvang.