Sígildur vangi Höggmynd af Elísabetu II. eftir myndhöggvarann Arnold Machin hefur verið notuð á viðurkennd bresk frímerki frá 1967.
Sígildur vangi Höggmynd af Elísabetu II. eftir myndhöggvarann Arnold Machin hefur verið notuð á viðurkennd bresk frímerki frá 1967. — AFP /Royal Mail
Bresk frímerki eru þau einu í heiminum sem ekki bera nafn landsins. Þess í stað hefur höfuð þjóðhöfðingjans prýtt öll bresk frímerki allt frá árinu 1840, en þá var mynd af Viktoríu drottningu, langa-lang-ömmu Elísabetar II. Englandsdrottningar.

Bresk frímerki eru þau einu í heiminum sem ekki bera nafn landsins.

Þess í stað hefur höfuð þjóðhöfðingjans prýtt öll bresk frímerki allt frá árinu 1840, en þá var mynd af Viktoríu drottningu, langa-lang-ömmu Elísabetar II. Englandsdrottningar.

Í fyrradag, 9. september, runnu upp þau tímamót að Elísabet II. sló langa-lang-ömmu sinni við og varð sá þjóðhöfðingi Bretlands sem lengst hefur ríkt. Af því tilefni sendi Konunglega breska póstþjónustan út fréttatilkynningu til fjölmiðla sem sýnir eitt af fimm frímerkjum sem koma út innan skamms til heiðurs drottningunni.

Komin til ára sinna

Frímerkið sýnir vangasvip Elísabetar II. eftir myndhöggvarann Arnold Machin, en sú mynd hefur verið notuð á viðurkennd frímerki allar götur frá árinu 1967. Purpurarauður litur kemur í stað rauða litarins á áður útgefnum frímerkjum og verður ríkjandi um eins árs skeið.

Árið 2010 sagðist þáverandi ráðherra póstmála vera viss um að mynd drottningar myndi prýða frímerki um ókomin ár. Taldi hann hið mesta glapræði að fjarlægja hana af frímerkjunum. Ekki voru allir sama sinnis, til dæmis birtist býsna óforskömmuð fyrirsögn í The Mail on Sunday, Off with her head, eða Af með höfuðið. Og var þá mörgum nóg boðið.