Magnea Garðarsdóttir fæddist á Öngulsstöðum í Eyjafjarðarsveit 17. september 1928. Hún lést á Sjúkrahúsi Akureyrar 1. september 2015.

Foreldrar hennar voru Kristrún Guðlaug Sigurðardóttir, f. 18.5. 1905, d. 21.9. 1985, og Garðar Sigurgeirsson, f. 6.9. 1899, d. 21.7. 1980. Þau bjuggu á Staðarhóli í Eyjafjarðarsveit. Systkini Magneu eru Sigurður, f. 31.5. 1930, Sigurgeir, f. 21.2. 1933, og Helga, f. 21.4. 1946.

Magnea giftist 17.9. 1949 Hallgrími Aðalsteinssyni, f. 24.6. 1918, d. 12.10. 2004. Foreldrar Hallgríms voru Pálína Hallgrímsdóttir, f. 23.7. 1891, d. 3.4. 1925, og Aðalsteinn Magnússon, f. 10.9. 1892, d. 17.11. 1953. Börn Magneu og Hallgríms eru: 1) Aðalsteinn, f. 12.4. 1955, maki Ásdís Einarsdóttir, f. 20.7. 1958, börn þeirra eru: a) Einar Örn, maki Sesselja I. Barðdal, b) Hallgrímur, c) Magnús, í sambúð með Valgerði Guðrúnu Valdimarsdóttur. 2) Kristrún, f. 14.8. 1956, maki Sigurgísli Sveinbjörnsson, f. 7.8. 1955, börn þeirra eru: a) Anna María, í sambúð með Þresti Guðmundsyni, b) Lína Björg, í sambúð með Þorvaldi Þorgeirssyni. 3) Garðar, f. 2.3. 1958, maki Þórunn Inga Gunnarsdóttir, f. 24.2. 1959, börn þeirra eru: a) Magnea, maki Guðmundur Óli Tryggvason, b) Viðar, maki Heiðdís Dögg Sigurbjörnsdóttir, c) Ebba Karen, í sambúð með Bjarna Jakobi Gunnarssyni. 4) Pálína Guðrún, f. 14.12. 1959, maki Hergeir Einarsson, f. 27.11. 1960, börn þeirra eru: a) Hilmar Örn, b) Herdís. Langömmubörnin eru orðin 14.

Eftir hefðbundna skólagöngu var Magnea tvö ár í Húsmæðraskólanum á Laugarlandi. Árið 1954 stofnuðu Magnea og Hallgrímur nýbýli sem þau nefndu Garður. Byggðu þau upp fyrirmyndarbú og allan þeirra búskap var gestkvæmt í Garði. Þar nutu ættingar og vinir gestrisni þeirra um lengri eða skemmri tíma. Þau bjuggu í Garði allt til ársins 1981 er þau settust að á Akureyri. Þá tóku synir þeirra og tengdadætur við búskapnum í sveitinni.

Á Akureyri vann Magnea á saumastofu í nokkur ár og síðustu ár starfsævinnar á Kristnesspítala. Hún var félagi í kvenfélaginu Öldunni í Eyjafjarðarsveit, en starfið þar veitti henni mikla ánægju. Magnea var einnig mjög virk í félagi aldraðra í Eyjafjarðarsveit. Þar hitti hún vikulega sína gömlu sveitunga og mörg af hennar listaverkum urðu til. Magnea var mikil hannyrðakona og eftir hana liggur fjöldi listaverka sem afkomendur hennar hafa fengið að njóta. Hún hafði mikla ánægju af að fara í leikhús, á tónleika og að ferðast með vinum og vandamönnum, jafnt innanlands sem utan.

Útför Magneu fer fram frá Munkaþverárkirkju í dag, 11. september 2015, og hefst athöfnin kl. 13.30.

Elsku mamma.

Nú er komið að kveðjustund og margs er að minnast. Ég man þig sitja við saumavélina á kvöldin þegar við fórum að sofa og að morgni varstu búin að galdra fram fínustu kjóla og jakkaföt á okkur systkinin.

Mér er það minnisstætt þegar þú klæddir mig í klofháa lopasokka utan yfir stígvélin að vetri til svo snjórinn færi ekki ofan í þau.

Alltaf tókuð þið pabbi vel á móti öllum gestum, eins og til dæmis þegar frænkurnar Pála og Gunna mættu, þá var nú aldeilis gaman.

Ég man þegar ég fór í fyrsta flugið mitt, þú fórst með mig til augnlæknis í Reykjavík, þá áttum við góðar stundir saman bara við tvær.

Eftir að þið fluttuð til Akureyrar þá er mér minnisstætt blómahafið á svölunum, allt var svo flott og fínt þar eins og annars staðar. Þakka þér fyrir umhyggju þína fyrir mér og mínum sem og öðrum, alltaf að spyrjast fyrir um líðan allra. Þú fylgdist vel með hvað allir tóku sér fyrir hendur. Ég á eftir að sakna bíltúranna okkar í sveitina og að koma til þín og faðma þig. Nú ertu komin í faðm pabba, sem þú varst farin að þrá svo. Hafðu þökk fyrir allt og allt, þín dóttir,

Kristrún.

Elsku mamma.

Nú þegar komið er að kveðjustund leita minningarnar fram í hugann. Minningar, sem eru svo fallegar og dýrmætt að varðveita. Mamma mín, þú skipaðir svo stóran sess í lífi mínu. Þú hvattir mig áfram í öllu sem ég tók mér fyrir hendur og studdir mig og fjölskyldu mína. Minningar mínar frá æskuárunum í Garði eru yndislegar. Þar byggðuð þið pabbi upp sannkallaðan sælureit.

Vinnudagurinn þinn við útiverkin og heimilishaldið var oft langur. Í þá daga var ekki hlaupið út í búð til að kaupa tilbúnar vörur. Nei, allt var heimatilbúið og ófáar flíkurnar voru saumaðar á okkur systkinin. Gestkvæmt var hjá ykkur og oft einhver aukabörn í sumardvöl að njóta sveitasælunnar. Þá var líf og fjör í sveitinni.

Þegar aldurinn fór að færast yfir fluttuð þið pabbi til Akureyrar en synirnir tóku við búskapnum. Þar komuð þið ykkur vel fyrir í fallegri íbúð sem þú bjóst í allt til æviloka. Á heimilinu mátti sjá þess merki að þar bjó mikill fagurkeri.

Þú varst listfeng og allt sem viðkom hannyrðum og föndri lék í höndunum á þér. Það var yndislegt að dvelja hjá þér í öll þau skipti sem ég kom norður. Þú varst líka dugleg að heimsækja okkur suður, nú síðast í júlí síðastliðnum. Alltaf varst þú mætt til að hjálpa ef eitthvað stóð til, flutningur, skírn, útskrift eða afmæli.

Þú fylgdist af áhuga með hvað börnin og barnabörnin voru að aðhafast. Svo var einnig með barnabarnabörnin sem komu í heiminn eitt af öðru, það síðasta tveimur dögum fyrir andlát þitt. Þú sýndir okkur ómælda umhyggju, kærleika og ást. Við Hergeir og börnin mín, Hilmar Örn og Herdís, fengum svo sannarlega að njóta þess þegar við komum í heimsókn til þín.

Það verður erfitt að halda áfram. Engar símhringingar munu berast frá þér, en varla leið sá dagur að við töluðumst ekki við í síma. Þú kvaddir okkur óvænt en aðeins tveimur dögum fyrr fögnuðum við saman stórafmæli elsta barnabarns þíns. Hafðu þökk fyrir öll heilræðin, hvatninguna, umhyggjuna og kærleikann. Minning þín lifir í hjörtum okkar.

Þín dóttir,

Pálína.

Elsku besta amma.

Það fyrsta sem kemur upp í huga okkar er: „Ömmur eru englar í dulargervi.“ Tilhugsunin um að ganga inn í Skarðshlíðina án þess að fá að knúsa þig er erfið. Móttökurnar voru alltaf yndislegar, faðmurinn, brosið og hlýjan. Allar kræsingarnar sem bornar voru á borð og síðast en ekki síst spjallið um allt milli himins og jarðar. Það var ómetanlegt að hafa haft þig við hlið okkar í uppvextinum, þú fagnaðir öllum okkar áföngum, stórum sem smáum og verðum við ævinlega þakklát því að hafa haft þig í lífi okkar.

Nú erum við orðin fullorðin, komin með okkar fjölskyldur og búum á mismunandi stöðum í heiminum. Við munum ávallt minnast þín, segja börnum okkar og barnabörnum frá brosi þínu og hlýju. Sýna þeim fallegu handavinnuna þína og leyfa þeim að smakka alvöru súkkulaði með rjóma, alveg eins og þú gerðir. Við hugsum til jólanna, því um hverja jólahátíð kom fjölskyldan saman í hátíðlegt jólaboð til þín sem skilur eftir ómetanlegar minningar.

Missirinn er mikill en við huggum okkur við það að nú ert þú hjá Halla afa.

Hvíldu í friði elsku amma. Ástarkveðjur,

Magnea, Viðar og

Ebba Karen.

Elsku amma Madda mín, núna er komið að kveðjustund.

Takk fyrir öll þau augnablik sem við höfum upplifað saman. Nú lifa þau áfram sem minningar sem ég mun aldrei gleyma.

Ófáu heimsóknirnar í Skarðshlíð og bakkelsi með kvöldkaffinu. Þú hvattir mig ávallt áfram og kenndir mér að borða fisk. Þú gafst mér oft góð heilræði og gafst svo bestu fótanuddin.

Elsku amma Madda mín hvílir nú í friði.

Hilmar Örn Hergeirsson.