Bandaríkin Miklar líkur eru á því að Dagný Brynjarsdóttir leiki í bandarísku atvinnudeildinni á næsta ári en hún spilar núna með Selfyssingum.
Bandaríkin Miklar líkur eru á því að Dagný Brynjarsdóttir leiki í bandarísku atvinnudeildinni á næsta ári en hún spilar núna með Selfyssingum. — Morgunblaðið/Eva Björk
Fótbolti Sindri Sverrisson sindris@mbl.is Tilboðum og fyrirspurnum hefur nánast rignt yfir Dagnýju Brynjarsdóttur, landsliðskonu í knattspyrnu nú þegar styttist í að hún yfirgefi Selfoss og semji við atvinnumannalið.

Fótbolti

Sindri Sverrisson

sindris@mbl.is

Tilboðum og fyrirspurnum hefur nánast rignt yfir Dagnýju Brynjarsdóttur, landsliðskonu í knattspyrnu nú þegar styttist í að hún yfirgefi Selfoss og semji við atvinnumannalið. Dagný hefur átt stórkostlegt ár; var besti leikmaður bandarísku háskólameistaranna í Florida State síðasta vetur, þýskur meistari með Bayern München í vor, og hefur verið einn albesti leikmaður Pepsideildarinnar hér heima í sumar auk þess að fara með Selfossi í bikarúrslitaleikinn.

Eftir að ljóst varð að hún vildi snúa aftur til Bandaríkjanna, og leika í fyrsta sinn í bandarísku atvinnumannadeildinni, hafa fjögur af níu félögum í deildinni haft samband við hana, sem undirstrikar hversu stórt nafn Dagný hefur skapað sér í alþjóðlegum fótbolta:

„Ég er búin að segja nei við eitt félagið, þannig að valið stendur á milli hinna þriggja, og ég veit ekkert í hvert þeirra ég mun fara,“ sagði Dagný. „Það er misjafnt hversu langt viðræður eru komnar. Eitt félagið bættist í hópinn núna í vikunni til dæmis. Ég er búin að fá einn samning í hendurnar, annað félag er að fara að senda samning, og svo var það þriðja bara að hafa samband,“ bætti hún við. Hún segir valið ansi snúið, en býst við að ákveða sig í þessum mánuði.

Langar í öll liðin!

„Mig langar bara í öll liðin! Ég er lítið búin að tala við þjálfarana í liðunum en geri það núna og reyni að sjá hvað mér líst best á. Svo er þetta auðvitað spurning um hvaða hlutverk mér er ætlað, hvaða leikstíll er notaður, og líka um hvernig samningar nákvæmlega bjóðast. En það er kvóti á það hve margir erlendir leikmenn mega vera hjá hverju liði, ég held að það verði fjórir núna, og ég held að ekkert þessara félaga sé að ná í útlending sem er ekki ætlað að spila á fullu,“ sagði Dagný.

Hún hefur einnig fengið fjölda fyrirspurna frá Evrópu og meðal annars hafnað Liverpool, sem og félögum í Svíþjóð og Noregi:

„Ég hef sagt þeim félögum í Evrópu sem hafa haft samband, að ég sé að fara að spila í Bandaríkjunum. Ef ég kem seinna til Evrópu þá veit ég af þessum félögum, en það er alla vega ekki á næsta ári,“ sagði Dagný. Eftirspurnin eftir kröftum hennar kemur landsliðsþjálfaranum Frey Alexanderssyni ekki á óvart.

„Dagný er mjög eftirsótt og það er engin tilviljun. Hún er algjörlega frábær leikmaður og síðasta ár hjá henni hefur verið ótrúlegt. Hún verður að halda áfram að vaxa og það verður að koma í ljós hvort bandaríska deildin er góð til þess. Dagný vill spila í Bandaríkjunum og þá á hún að fylgja draumnum og prófa það,“ sagði Freyr við Morgunblaðið. Dagný var að sjálfsögðu valin fyrir komandi landsleiki við Slóvakíu og Hvíta-Rússland, 17. og 22. september. Hún er 24 ára gömul en hefur þegar leikið 53 A-landsleiki og skorað 11 mörk. Ísland leikur svo tvo leiki til viðbótar undir lok október áður en Dagný getur tekið sér stutt frí. Til að vera í sem bestu standi í landsleikjunum mun hún æfa með Kristianstad í Svíþjóð á milli tarna, hjá Elísabetu Gunnarsdóttur.