Götótt vörn Flóttamenn fara í gegnum gat á gaddavírsgirðingu sem ungversk stjórnvöld hafa látið setja upp við landamærin að Serbíu til að stöðva flóttamannastrauminn. Girðingin er 3,5 metra há og á að vera 175 km löng.
Götótt vörn Flóttamenn fara í gegnum gat á gaddavírsgirðingu sem ungversk stjórnvöld hafa látið setja upp við landamærin að Serbíu til að stöðva flóttamannastrauminn. Girðingin er 3,5 metra há og á að vera 175 km löng. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bogi Þór Arason bogi@mbl.is Metfjöldi flóttamanna fór um Balkanskaga til Ungverjalands í gær og þurftu yfirvöld í Austurríki að stöðva lestasamgöngur yfir landamæri ríkjanna vegna flóttamannastraumsins.

Bogi Þór Arason

bogi@mbl.is

Metfjöldi flóttamanna fór um Balkanskaga til Ungverjalands í gær og þurftu yfirvöld í Austurríki að stöðva lestasamgöngur yfir landamæri ríkjanna vegna flóttamannastraumsins. Áður höfðu dönsk yfirvöld stöðvað lestasamgöngur milli Danmerkur og Þýskalands og lokað hraðbraut vegna fjölda flóttamanna sem vilja fá hæli í Svíþjóð. Lestaferðir hófust þó að nýju yfir landamæri Danmerkur og Þýskalands í gær og danskir lögreglumenn fengu fyrirmæli um að stöðva ekki flóttamenn sem vildu fara til Svíþjóðar.

Nokkur ríki í austanverðri Evrópu leggjast enn gegn tillögu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um sameiginlega stefnu ESB-ríkja í málefnum hælisleitenda og bindandi flóttamannakvóta. Robert Fico, forsætisráðherra Slóvakíu, sagði í gær að landið myndi ekki „láta undan“ kröfu Þjóðverja, sem hafa beitt sér fyrir slíkum flóttamannakvóta til að skylda 22 aðildarríkjanna til að taka við ákveðnum fjölda hælisleitenda. „Við höfnum bindandi flóttamannakvóta,“ sagði Fico. „Ég vil ekki vakna við það einn daginn að hingað séu komnir 50.000 manns sem ég veit ekki neitt um.“

„Aðeins fyrsta skrefið“

Sigmar Gabriel, varakanslari Þýskalands, sagði að tillaga framkvæmdastjórnarinnar um að skylda ríkin til að taka við alls 160.000 flóttamönnum dygði ekki til að leysa mesta flóttamannavanda í Evrópu frá síðari heimsstyrjöldinni. „Dreifing 160.000 flóttamanna um Evrópu er aðeins fyrsta skrefið, svo það sé orðað kurteislega,“ sagði varakanslarinn. „Þetta er aðeins dropi í hafið.“

Gabriel sagði að 450.000 hælisleitendur hefðu verið skráðir í Þýskalandi það sem af er árinu, þar af 105.000 í ágústmánuði einum og 37.000 fyrstu sjö daga september.

Andstæðingar tillögunnar um flóttamannakvótann hafa varað við því að hann geti orðið til þess að enn fleiri reyni að komast til Evrópu í von um betra líf eftir að hafa flúið stríð og fátækt í heimalöndunum. Evrópuþingið samþykkti tillögu framkvæmdastjórnarinnar með 432 atkvæðum gegn 142, en 57 þingmenn sátu hjá. Samþykkt þingsins er ekki bindandi og tillagan nær ekki fram að ganga nema aðildarríkin samþykki hana. Innanríkisráðherrar ESB-ríkjanna ræða málið á mánudaginn kemur en svo gæti farið að efna þyrfti til sérstaks leiðtogafundar til að leiða deiluna til lykta.

Reynt að jafna deiluna
» Utanríkisráðherrar Póllands, Slóvakíu, Tékklands og Ungverjalands ræða deiluna um flóttamannakvótann við starfsbræður sína frá Þýskalandi og Lúxemborg í Prag í dag.
» Pólverjar, Slóvakar, Tékkar og Ungverjar hafa verið andvígir bindandi flóttamannakvóta.