[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Að Varmá Ívar Benediktsson iben@mbl.

Að Varmá

Ívar Benediktsson

iben@mbl.is

„Það var liðsheildin sem skóp sigurinn,“ sagði Árni Bragi Eyjólfsson, leikmaður Aftureldingar, sem fór á kostum og skoraði 10 mörk þegar Afturelding lagði nýliða Gróttu, 24:21, í N1-höllinni að Varmá í gærkvöldi í Olís-deildinni í handknattleik.

Árni Bragi og samherjar voru með yfirhöndina í leiknum frá upphafi til enda. Gróttumenn náðu aldrei að jafna metin eða ógna sigri heimamanna svo nokkru næmi.

Árni Bragi, sem alla jafna leikur í hægra horninu, lék lengst af í skyttustöðunni hægra megin og réðu Gróttumenn ekkert við hann. Árni Bragi bar uppi sóknarleik Aftureldingar ásamt hinum sterka og stæðilega Pétri Júníussyni línumanni sem einnig fór hamförum í vörninni. Þá var Pálmar Pétursson góður í marki Aftureldingar, ekki síst í fyrri hálfleik meðan hin litt árennilega vörn Aftureldingar lék afar vel og er greinilegt að varnarleikurinn verður aðal Aftureldingar á nýbyrjuðu keppnistímabili.

Gróttumenn virtust yfirspenntir framan af fyrri hálfleik og náðu sér litt á strik. Fyrsta stundarfjórðunginn eða svo voru leikmenn ragir í sóknarleiknum og skrefi á eftir í varnarleiknum auk þess sem markvarslan var engin.

Á þessum tíma náði Aftureldingarliðið því forskoti sem það hélt lengst af leiknum, frá þremur og upp í sex mörk. Staðan í hálfleik var 12:8, Aftureldingu í vil.

Gróttumenn sóttu í sig veðrið í síðari hálfleik en það dugði ekki til. Munurinn var of mikill til þess að Aftureldingarliðið, sem óneitanlega hefur meiri reynslu þrátt fyrir ungan aldur margra leikmanna, gaf ekkert lítið eftir.

Látum að okkur kveða

„Ég hef ekki áhyggjur af framhaldinu hjá okkur en ég vil samt að menn hafi meiri trú á sér þótt aðrir hafi það ekki. Getan er svo sannarlega fyrir hendi í liði okkar. Við eigum eftir að láta að okkur kveða í deildinni,“ sagði Gunnar Andrésson, þjálfari Gróttu. Óhætt er að taka undir með honum. Leikmenn Gróttu léku á köflum vel í síðari hálfleik en meiri trú og kannski örlitla heppni vantaði upp á til að liðinu tækist að hleypa meiri spennu í leikinn.

Varnarleikurinn var betri í síðari hálfleik auk þess sem Stefán Huldar Stefánsson stóð sig vel í markinu eftir að hann leysti Lárus Gunnarsson af.

Grótta á eftir að gera liðum skráveifu á keppnistímabilinu. Á því leikur enginn vafi.

Afturelding – Grótta 24:21

N1-höllin Varmá, úrvalsdeild karla, Olís-deildin, fimmtudag 10. sept. 2015.

Gangur leiksins : 1:0, 3:1, 7:2, 9:4, 10:6, 12:8 , 15:10, 16:11, 17:13, 19:16, 22:17, 24:21 .

Mörk Aftureldingar : Árni Bragi Eyjólfsson 10/3, Pétur Júníusson 5, Guðni Kristinsson 3, Jóhann Jóhannsson 2, Böðvar Páll Ásgeirsson 2, Ágúst Birgisson 1, Gestur Ólafur Ingvarsson 1.

Varin skot : Pálmar Pétursson 14.

Utan vallar : 6 mínútur.

Mörk Gróttu : Finnur Ingi Stefánsson 7/3, Viggó Kristjánsson 5/1, Daði Laxdal Gautason 3, Guðni Ingvarsson 3, Aron Dagur Pálsson 1, Aron Valur Jóhannsson 1, Júlíus Þórir Stefánsson 1.

Varin skot : Stefán Huldar Stefánsson 14, Lárus Gunnarsson 1.

Utan vallar : 10 mínútur.

Dómarar : Arnar Sigurjónsson og Svavar Pétursson.

Áhorfendur : 455.