Breskir hermenn á Dalvík urðu sérstakir vinir Valdimars og Kjartans bróður hans, enda skotgrafir Bretanna aðeins steinsnar frá heimili fjölskyldunnar.

Breskir hermenn á Dalvík urðu sérstakir vinir Valdimars og Kjartans bróður hans, enda skotgrafir Bretanna aðeins steinsnar frá heimili fjölskyldunnar. Valdimar rifjar upp atvik frá páskunum 1941 eða 41: „Bretarnir settu upp æfingar frammi í Ufsadal og þangað kom mjög mikið lið sem tjaldaði á túninu hjá pabba. Svo illa vildi til að himnafaðirinn sendi alveg svakalega stórhríð á þá og tveir þeirra höfðu það ekki af. Urðu úti í stórhríðinni. Mér er enn minnisstætt þegar komið var með líkin og þeim hent upp á bíl. Ég hef aldrei heyrt sagt frá þessu en horfði á það gerast.“

Hann segir vopnabúnað Bretanna ekki eins merkilegan og talið var. Á sínum tíma var töluvert talað um fallbyssuna þeirra. „Það var net yfir henni, við þorðum ekki þangað strax, strákarnir, en gerðum það á endanum. Þá kom í ljós að þetta var tréstaur; bara plat,“ segir Valdimar.