Hættur Dirk Nowitzki kveður þýska áhorfendur eftir síðasta landsleik sinn á ferlinum sem var gegn Spánverjum í gær. Þjóðverjar eru úr leik á EM.
Hættur Dirk Nowitzki kveður þýska áhorfendur eftir síðasta landsleik sinn á ferlinum sem var gegn Spánverjum í gær. Þjóðverjar eru úr leik á EM. — AFP
Liðin sem enduðu í fjórum efstu sætunum á síðasta Evrópumóti í körfuknattleik, röðuðu sér öll í fyrsta eða annað sætið í sínum riðlum þegar undankeppninni lauk í Berlín, Montpellier, Zagreb og Ríga í gærkvöld.

Liðin sem enduðu í fjórum efstu sætunum á síðasta Evrópumóti í körfuknattleik, röðuðu sér öll í fyrsta eða annað sætið í sínum riðlum þegar undankeppninni lauk í Berlín, Montpellier, Zagreb og Ríga í gærkvöld.

Evrópumeistarar Frakka unnu A-riðilinn með fullu húsi stiga og mæta fyrir vikið í 16-liða úrslitum liði Tyrkja, sem endaði í fjórða sæti B-riðils og lagði Íslendinga naumlega í gærkvöld.

Litháar, sem fengu silfrið 2013, unnu D-riðilinn með því að sigra Tékka 85:81 í gærkvöld og þeir mæta þar með Georgíumönnum í 16-liða úrslitum sem fram fara í Lille í Frakklandi og hefjast á morgun.

Spánverjar sluppu fyrir horn

Spánverjar, bronshafarnir frá 2013 og Evrópumeistarar þar á undan, skriðu naumlega áfram úr riðli Íslands en þeir unnu afar tæpan sigur á gestgjöfunum í Berlín, Þjóðverjum, 77:76. Það reyndist þar með kveðjuleikur Dirk Nowitzki með þýska liðinu því það er þar með úr leik, en hefði með sigri sent Spánverjana heim og farið áfram.

Spánn náði samt öðru sæti riðilsins, vegna innbyrðis útkomu gegn Ítölum og Tyrkjum, og þeir mæta Pólverjum í 16-liða úrslitunum.

Króatar enduðu í fjórða sæti fyrir tveimur árum og þeir urðu í öðru sæti á sínum heimavelli í C-riðlinum. Króatar mæta Tékkum í 16-liða úrslitum.

Rétt eins og Frakkar fara Grikkir og Serbar taplausir upp úr riðlakeppninni. Grikkir mæta Belgum og Serbar mæta Finnum í 16-liða úrslitunum.

Átta lið eru úr leik. Ísland og Þýskaland hafa lokið keppni úr B-riðli og önnur lið sem halda heimleiðis eru Rússland, Bosnía, Makedónía, Holland, Eistland og Úkraína.

Það kemur í hlut Íslands að enda í 24. og neðsta sætinu á þessu Evrópumóti þegar liðunum er raðað upp í lokastöðu. Ísland var eina liðið sem ekki náði að vinna leik í riðlakeppninni. Hin sjö liðin sem eru úr leik unnu öll einn leik en töpuðu fjórum. vs@mbl.is