Gunnlaugur Kristjánsson fæddist á Akureyri 14. janúar 1956. Hann lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 2. september 2015.

Hann var sonur hjónanna Kristjáns Bjarnasonar, f. 27.8. 1911, d. 5.2. 1992, bónda að Sigtúnum í Eyjafjarðarsveit, og Mekkínar Guðnadóttur, f. 4.5. 1920. Systkini Gunnlaugs eru Bjarni Benedikt, f. 31.7. 1944, Gunnar Árni, f. 18.8. 1947, Jón Guðni, f. 28.11. 1949, og Sigrún, f. 31.8. 1954. Fyrri kona Gunnlaugs var Huld Ingimarsdóttir, f. 7.4. 1956, og eiga þau soninn Loga, f. 16.10. 1975. Þau skildu 1998. Kona Loga er Elísabet Guðjónsdóttir, f. 25.5. 1973. Börn þeirra eru 1) Daði, f. 9.3. 2008, og 2) Sölvi, f. 25.4. 2015. Þá átti Gunnlaugur soninn Halldór, f. 20.5. 1981, d. 23.10. 2012. Móðir hans er Rósa Emilía Óladóttir, f. 2.8. 1962. Börn Halldórs eru 1) Ágúst Freyr, f. 10.3. 1999, 2) Elín Helga, f. 3.10. 2005, 3) Sölvi Thor, f. 6.6. 2006, og 4) Emilía Ósk, f. 25.2. 2007.

Gunnlaugur kvæntist árið 2005 eftirlifandi eiginkonu sinni, Helgu Sigrúnu Harðardóttur, f. 12.12. 1969. Hún á dótturina Írisi Helgudóttur, f. 19.2. 1986. Sambýlismaður hennar er Ómar Freyr Sigurbjörnsson, f. 22.3. 1982. Börn þeirra eru 1) Helga Vala, f. 1.5. 2006, 2) Dagur, f. 10.8. 2013, og 3) Lóa Björk, f. 31.12. 2014.

Gunnlaugur ólst upp á heimili foreldra sinna að Sigtúnum við almenn sveitastörf. Hann lauk stúdentsprófi frá MA 1976 og prófi í byggingatæknifræði frá Tækniskóla Íslands 1981. Hann starfaði hjá Ármannsfelli hf. og Aseta á árunum 1982-1987 og var tæknilegur framkvæmdstjóri hjá Álftárósi ehf. frá 1987-1999. Árið 1999 hóf hann störf sem framkvæmdastjóri þróunarsviðs ÍAV og gegndi því starfi til ársins 2007. Gunnlaugur kom með margvíslegum hætti að skipulagsþróun og uppbyggingu ýmissa merkra fasteigna á starfsferli sínum, einkum á höfuðborgarsvæðinu. Hæst ber þar tónlistarhúsið Hörpu, en sem framkvæmdastjóri þróunarsviðs ÍAV dró hann vagninn inni í Portus Group þar sem hann leiddi hóp fagaðila sem í sameiningu unnu samkeppni um húsið og lögðu grunninn að Hörpu. Gunnlaugur hönnunarstýrði því verki til ársins 2007. Gunnlaugur gegndi starfi forstjóra Björgunar frá árinu 2007 til dauðadags. Þá var hann einnig forstjóri eignarhaldsfélagsins Hornsteins og stjórnarformaður BM Vallár og Sementsverksmiðjunnar síðustu árin.

Útför Gunnlaugs verður gerð frá Hallgrímskirkju í dag, 11. september 2015, og hefst athöfnin kl. 13.

Elsku Gulli.

Með þér voru jól alla daga.

Þín,

Helga Sigrún.

Með sorg í hjata kveðjum við okar frábæra tengdason. Elsku Gulli, takk fyrir allt.

Ég vaknaði snemma og frjálsari en fyr,

og fagnandi vorinu stökk ég á dyr,

og unað og gleði ég alls staðar sá,

og aldrei var fegra að lifa en þá,

því geislarnir dönsuðu um sveitir og sæ,

það var söngur í lofti, ilmur í blæ.

Það var morgunn í maí.

Þá fann ég hvað jörðin er fögur og mild.

Þá fann ég, að sólin er moldinni skyld,

fannst guð hafa letrað sín lög og sinn dóm

með logadi geislum á strá og blóm.

Allt bergði af loftsins bikandi skál.

Allt blessaði lífið af hjata og sál.

jafnvel moldin fékk mál.

Allt vitnaði um skaparans veldi og dýrð.

Öll veröldin fagnaði – endurskírð,

og helgaði vorinu ljóð sitt og lag

og lofsöng hinn blessaða hátíðisdag,

og geislarnir dönsuðu um sveitir og sæ.

Það var söngur í lofti, ilmur í blæ.

Það var morgunn í maí.

(Davíð Stefánsson.)

Anna Sigurðardóttir

og Hörður Karlsson.

Að kveldi sólríks dags, 2. september, barst sorgarfrétt. Það var eins og sólin missti yl sinn og birtu. Stórt skarð var höggvið í myndarlega systkinahópinn frá Sigtúnum í Eyjafjarðarsveit. Yngsti bróðirinn, Gulli mágur, var fallinn frá eftir harða baráttu við illvígan sjúkdóm. Dugnaður, vinnusemi, glettni og húmor einkenndu Gulla og voru honum falin mörg ábyrgðarstörf. Ákafur fræddi hann mig um Hörpu og samstarf við arkitekta og Ólaf Elíasson listamann. Ég hugsaði til þín er ég fór á fyrstu tónleikana þar. Ég varð uppnuminn og sannfærðist um þýðingu Hörpu fyrir framtíð tónlistar á Íslandi. Þinn skerfur var ómetanlegur. Þökk fyrir að bjóða mér í veiði með skemmtilegum hóp í Laxá í Laxárdal fyrir nokkrum árum. Veiðiástríða þín var afar smitandi. Þú ætlaðir þér í veiði í sumar þrátt fyrir veikindin og þar hafði andlegur styrkur sigur. Með hjálp tókst þér að væta vöðlur og kasta fyrir fisk í einni af bestu ám landsins, frábærlega gert. Glettnin í augunum og brosið á góðum samverustundum verða minnisstæð alla tíð. Ég mun minnast skemmtilegra sagna um ykkur „litlu krakkana“ sem þú og Sigrún voruð kölluð af mömmu ykkar og bræðrum fram eftir öllum aldri. Í veikindunum sýndirðu ótrúlegt baráttuþrek og vilja. Hugsun og rökhyggja var skýr í blaðaviðtali tveim vikum fyrir andlátið varðandi Björgun sem þú varst forstjóri fyrir. En þér varð ekki bjargað. Húmorinn var til staðar hjá þér til hinsta dags, kæri mágur, þótt styrkurinn minnkaði mjög ört. Það sýndi sig í síðustu heimsókn okkar á líknardeildina. Allt í einu réttirðu höndina beint upp í loftið og ég skildi ekki hvað var í gangi, fyrr en þú sagðir: „Maður þarf ekki annað en rétta upp höndina þá er konan mín komin og uppfyllir allar óskir. Ég vildi að ég hefði uppgötvað þetta fyrr.“ Þú gerðir þér örugglega grein fyrir af hve mikilli fórnfýsi Helga Sigrún hafði annast þig í sjúkdómsferlinu. Annars sagðirðu ekki margt, og þrekið var lítið en þú fylgdist með samtölum okkar og mér er sérstaklega minnisstæð kveðjustundin. Þið kvöddust svo innilega systkinin að ég átti bágt með tilfinningar mínar. Það þurfti ekki mörg orð. Þín verður afar sárt saknað af mörgum vinum, Gulli minn, en sárastur er missir fyrir Helgu Sigrúnu, Loga og fjölskyldu. Guð gefi þeim, systkinum þínum og móður styrk í sorgarferlinu.

Skugga lengir, skinið dvínar,

skekur kuldi sálartetur.

Ei má gleyma að aftur hlýnar.

Aftur birtir, þá má betur

skynja kærleikskraft og ást.

Óravíddir alheims geyma

ár og vötn og fagrar strendur.

Þar á vinur vorsins heima

með veiðistöng og fimar hendur.

Von þín „bróðir“ aldrei brást.

(Haraldur Hauksson)

Haraldur Hauksson.

Það voru mjög slæm tíðindi þegar Gulli sagði mér í upphafi þessa árs að hann hefði greinst með illvígan sjúkdóm. Hann tók sér tímabundið frí frá störfum en ætlaði sér þó sannarlega að snúa aftur sem þó varð því miður ekki raunin á, hann barðist til síðasta dags fullviss um að hann myndi hafa betur. Þó hann væri ekki í daglegu starfi síðustu mánuðina sinnti hann ýmsum sérverkefnum fyrir Björgun, BM-Vallá og Sementsverksmiðjuna sem stjórnarformaður og með margháttaðri ráðgjöf. Eitt verkefni var honum mjög hugleikið, en það var flutningur Björgunar á nýtt athafnasvæði. Því verkefni hefur því miður ekki tekist að ljúka, en er núna samt í góðum farvegi með aðkomu Faxaflóahafna, en hann átti alla tíð mjög gott samstarf við forsvarsmenn þess fyrirtækis.

Ég kynntist Gulla fyrir tæpum tíu árum, eða þegar hann var ráðinn sem forstjóri Björgunar og var það upphafið að góðu samstarfi sem þróaðist í mjög góða vináttu. Gulli var frábær stjórnandi, hann hafði gott mannlegt innsæi, töluglöggur, sanngjarn og framtíðarsýn hans var frábær.

Það var fyrst og fremst honum að þakka hvernig sá hópur myndaðist sem er eigandi að þeim fyrirtækjum sem fyrr eru nefnd, því hann hafði traustið sem þurfti til að koma þessum hópi ólíkra einstaklinga og fyrirtækja saman.

Þegar við hófum samstarf vissi ég ekki að hann var alinn upp á næsta bæ við bæinn sem konan mín er frá, í Eyjafjarðarsveit.

Gulli hefur í gegnum tíðina komið að mörgum stórverkefnum og má þar sérstaklega nefna þróunarvinnu við uppbyggingu Hörpu.

Hans verður sárt saknað hjá okkur samstarfsmönnum og eigendum hjá Björgun og tengdum félögum. Elsku Helga, Mekkín, Logi, systkini og fjölskyldur, megi góður guð vera með ykkur á þessum erfiðu stundum, hugur okkar Þóru er hjá ykkur.

Þorsteinn Vilhelmsson.

Gunnlaugi Kristjánssyni kynntist ég fyrir um 15 árum síðan og átti með honum kærar og minnistæðar stundir í góðra vina hópi. Gulli var húmoristi, lífskúnstner sem ávallt bar höfuðið hátt, yfirvegaður, íbygginn, keppnismaður fram í fingurgóma og alltaf var stutt í húmorinn hjá honum. Gulli var vinur í raun og höfðingi heim að sækja. Ef farið var í heimsókn til Helgu og Gulla brást ekki að borðið svignaði af kræsingum samkvæmt uppskriftum sem Gulli töfraði fram. Gulli var mikill veiðimaður og undi sér best við árbakkann í faðmi náttúrunnar.

Vinahópurinn hefur fylgst með Gulla og Helgu heyja baráttu við krabbamein sem oft var óvægin og hörð. Að lokum felldi krabbinn Gulla langt fyrir aldur fram. Gulli barðist eins og ljón við meinið, óttalaus og gaf hann aldrei færi á því eina mínútu að ræða uppgjöf. Mætti ég ráða myndi ég vilja hafa Gulla með mér í orrustu til þess að berjast við hlið mér til hinstu stundar. Þannig held ég að best sé að kveðja þennan heim áður en lagt er af stað í ferðalagið til hafs og himingeima. Gulli gaf aldrei færi á uppgjöf eða ótta og er því ókrýndur sigurvegari þessarar orrustu.

Þó er eins og yfir svífi

enn og hljóti að minna á þig

þættirnir úr þínu lífi,

þeir, sem kærast glöddu mig.

Alla þína kæru kosti

kveð ég nú við dauðans hlið,

man, er lífsins leikur brosti

ljúfast okkur báðum við.

(Steinn Steinarr)

Ég geng í hring

í kringum allt sem er.

Og innan þessa hrings

er veröld þín.

Minn skuggi féll um stund

á gluggans gler.

Ég geng í hring

í kringum allt sem er.

Og utan þessa hrings

er veröld mín.

(Steinn Steinarr)

Nú ert þú, Gulli minn, staddur utan veraldarinnar sem þú áður þekktir. Vertu sæll, kæri vinur. Ég kveð þig nú með þessum fátæklegu orðum.

Magnús Ingi Erlingsson.

Það var endalaust sólskin þetta sumar. Eyjafjörðurinn skartaði sínu fegursta, iðjagræn tún og stórbrotin fjallsýn. Nokkrar unglingsstúlkur ofan af Akureyri höfðu fengið boð um að sækja innansveitarball í Sólgarði, einu af félagsheimili sveitarinnar. Þetta var sumarið sem við vorum 14 ára og við tæplega með aldur til að sækja sveitaböll, en þarna hittumst við í fyrsta sinn. Hann stríddi okkur vinkonunum dálítið, sagðist heita Tryggvi og hvarf svo út í sumarnóttina. Það liðu tvö ár og þá hittumst við um haust nýnemar í MA og þarna var hann kominn. Reyndist ekki heita Tryggvi, heldur Gunnlaugur, sagðist reyndar heita Gunnlaugur Tryggvi og leiðrétti það ekki fyrr en mörgum árum síðar, grallarinn sá. Hann hafði verið í skóla í Reykholti og þá þegar þekktur fyrir lúmskan húmor og skarpa greind. Í MA varð til þéttur og góður vinahópur sem við bæði tilheyrðum og eru enn mínir bestu vinir. Já, Gulli var einn af mínum bestu vinum. Og hvílík heppni að kynnast honum. Við töluðumst ekki endilega við í hverri viku og stundum skildi okkur að höf og lönd, en þegar við spjölluðum eða hittumst var eins og tíminn hefði staðið í stað.

Við áttum mörg sameiginleg áhugamál eins og til dæmis mat og matargerð. Við gátum talað endalaust um þetta áhugamál okkar en skemmtilegast var að elda og borða saman. Þær eru ófáar matarveislurnar sem við höfum setið saman og þar bera hvað hæst gamlárskvöldin sem gleymast aldrei, né snilld Gulla við pottana. Hann fylgdi ekki uppskriftum heldur prufaði sig áfram og við sem vorum þiggjendum erum ævinlega þakklát fyrir þessar tilraunir. Svo voru það ferðalögin sem heilluðu, framandi heimar og freistandi matur. Þarna áttum við líka samleið í eiginlegri og óeiginlegri merkingu. Ítalía kom þar sterkt inn og þar áttum við ógleymanlegar stundir. Við fórum á skíði og í veiði. Já, veiðin, Gulli heillaðist af fluguveiði fyrir mörgum árum norður í Laxárdal og var ástríðufullur og sérlega góður veiðimaður. Við fórum stundum saman í bíl norður og þá var margt spjallað. Sumir kunna að segja að Gulli hafi ekki verið sérstaklega góður bílstjóri en ég get ekki tekið undir það. Það er, jú, ekki á allra færi að vera undir stýri, borða pylsu, senda SMS, vera bara rétt yfir löglegum hraða og það allt á sama tíma, já og kannski kveikja í sígó svona í leiðinni. Það þarf snilling í svona verkefni.

Gulli unni landinu sínu, var náttúrubarnið frá Sigtúnum í Eyjafirði með ríka réttlætiskennd og trúði á jöfnuð og sanngirni. Hann var áhugamaður um skipulag og arkitektúr og var smekkmaður fram í fingurgóma.

Það var í febrúar sl. að hann færði mér fréttina um krabbann sem hafði tekið sér bólfestu í honum og nú er hann allur, aðeins sex mánuðum síðan. Mikill harmur er að okkur kveðinn. Við söknum hans endalaust, hans fallegu nærveru og leiftrandi kímni. Þetta er allt svo óraunverulegt, við ætluðum að verða gömul saman, halda áfram að veiða og ferðast, en nú ferðast þú um stund án mín en við hittumst síðar. Samúðarkveðjur til allra sem elskuðu Gulla.

Þín vinkona,

Anna Guðný.

Um leið og ég votta nærstöddum ættingjum og vinum samúð mína, langar mig að minnast góðs vinar.

Í vikunni fann ég sjálfan mig á sama stað og svo oft áður. Ég var að hugsa eitthvað um hönnun og byggingatækni og datt í hug að Gulli væri maðurinn til að ræða þetta við. Þetta gerðist oft og ég geri líka ráð fyrir því að það gerist ítrekað í framtíðinni, þar sem þessi stuttu „sækja í þekkingarsarp hins“ samtöl okkar voru oft ástæða bara til þess að tala saman.

Mér þótti vænt um það síðustu mánuði, að vinur minn vildi hafa mig hjá sér, en hann sendi stundum til mín skilaboð um „service“. Þau voru þó ekki annað en beiðni um að mæta í gönguferð og spjall. Í lokin var þó stundum fyllt upp í samræður okkar með þögn. Ekki minn styrkur, en ég lærði á þessum heimsóknum hversu þögnin, í góðum félagsskap, getur verið yndisleg.

Við Gulli áttum með okkur góðan vinskap, sem óx með tímanum, í fyllstu merkingu þess orðs, þar sem úr varð hópur vina sem kenndi sig við Vínbarinn. Ástæðan var einföld, við vorum fólk á besta aldri, sem kunnum vel að meta miðborgarbraginn, góðan mat og vín, en ekki síst félagsskap álíka þenkjandi fólks. Í hópnum voru fleiri stelpur, og Gulli fann því það ágætis nafn á hópinn – „Dúllurnar“. Okkur strákunum fannst þetta stundum eilítið erfitt viðurnefni, en hvað er betra en að vera fúlskeggjaður á slæmum hárdegi og samt Dúlla?

Fólk fer oft ólíkar leiðir í lífinu, en merki vináttu er að jafnvel eftir langan tíma á ólíkum slóðum þarf ekki mikið til að kalla hvorn annan til. Stutt skilaboð frá öðrum okkar var allt sem þurfti og þá var sest niður og spjallað, eins og við værum rétt búnir að hittast. Gulli var alltaf traustur og skemmtilegur félagi. Í anda vinar míns, ætla ég ekki að tala um veikindi hans. Þau voru honum stíf og erfið, en hann hafði baráttuanda í huga alla tíð. Honum þótti vænt um hvað eiginkonan stóð honum þétt og nærri. Hlutverk hennar var erfitt, en leyst af sóma. Eins og aðrir menn á miðjum aldri, var hann ánægður með litlu hlutina sem hann veitti sér, eins og nýja bílinn sinn og veiðina í sumar. Hann pantaði sér einmitt veiði og ferðalag, um leið og hann vissi af veikindum sínum. En, það er kannski málið, Gulli var á miðjum aldri og kunni að njóta lífsins. Það hryggir mig óendanlega, að hann geti ekki notið þess lengur, svo sannarlega hafði hann unnið fyrir því. Ég mun skála fyrir vini mínum og frænda lengi, eins lengi og ég mun muna hann, sem án efa verður þangað til ég hitti hann aftur. Elsku Gulli, þú varst mér kær vinur og minningin um þig verður það alltaf. Takk – Þinn vinur,

Ívar.

Á stundum gerist það að við hittum fólk með glit í auga, sem verður til þess að maður dregst að svipbrigði þess og síðan nærveru og vinskap. Ég var svo gæfusamur að hitta á þetta augnaglit vinar míns – kannski seint miðað við allt of stuttan æviferil hans, en allt á sinn tíma. Fleiri vini ég fangað hef í færri köstum en Gulla. En þegar hann tók, þá var það hann sem fangaði mig fyrir lífstíð.

Hann stóð með okkur feðgum og vinum sínum allar stundir í vináttu, veiði, félagskap og skemmtun. Hann nærði okkur á líkama og sál. Í ófá skiptin tók hann sonum mínum sem sínum, kenndi þeim og fórnaði sér fyrir þá af heilum hug. Í þessu er honum best lýst, nema ef bæta mætti við kímni sem aldrei fékk fölnað fyrr en með honum sjálfum.

Fegurð hans kom fram í aðdáun vina hans og vandamanna á því sem hann stóð fyrir. Fegurð hans kom fram í því hvernig hann reyndist ávallt vinur og fyrirmynd annarra manna í framkomu sinni og einstöku lítillæti. Það var gjöfult að fá að vera vinur slíks manns.

Jörundur Guðmundsson.

Látinn er langt fyrir aldur fram vinur okkar og fyrrverandi samstarfsmaður hjá Álftárósi, Gunnlaugur Kristjánsson.

Gulla kynntumst við er hann hóf störf hjá Álftárósi árið 1986. Hann starfaði þar sem verkefnisstjóri yfir þeim verkefnum sem Álftárós vann að, s.s. Heild ll, Sláturfélag Suðurlands, Höfðabakkabrú, kerskáli Ísal og mörg fleiri krefjandi verkefni. Hann var frábær vinnufélagi og úrræðagóður.

Gulli átti sér mörg áhugamál, s.s. brids, fluguveiðar og matreiðslu. Hans frábæru matreiðslu fengum við oft að njóta þegar við vorum við veiðar og fór hann þá á kostum við grillið og eldavélina, við sáum um að þrífa eldhúsið.

Við kveðjum góðan dreng með söknuði og vitum að hann kastar „hitsi“ í lygnu vatni á betri stað. Ástvinum hans sendum við okkar dýpstu samúðarkveðjur og huggum okkur við fallegar minningar. Blessuð sé minning Gunnlaugs Kristjánssonar.

Fyrir hönd fyrrverandi eigenda og starfsmanna Álftáróss,

Örn Kjærnested og

Oddur H. Oddsson.

Það er með mikilli sorg og söknuði sem við kveðjum Gunnlaug Kristjánsson langt fyrir aldur fram. Við höfðum fylgst með baráttu Gunnlaugs við erfið veikindi. Því kom andlátsfregnin ekki á óvart þótt við vonuðum allt til loka að hann myndi ná bata. Gunnlaugur var lykilmaður fyrir okkur hjá Heidelberg Cement Northern Europe við endurskipulagningu á starfsemi fyrirtækisins á Íslandi. Aðkoma hans skipti sköpum fyrir stofnun Eignarhaldsfélagsins Hornsteins. Að koma starfseminni á réttan kjöl á ný fól í sér mörg afar krefjandi verkefni. Þekking Gunnlaugs og skilningur á íslenskum verktaka- og byggingariðnaði ásamt áræðni hans hjálpaði til við að koma fyrirtækjunum á réttan kjöl og skapa grundvöll undir lífvænlegan og sjálfbæran rekstur. Það er okkur gleðiefni að Gunnlaugur náði að sjá reksturinn breytast til batnaðar og við vitum að það gladdi hann líka og fyllti stolti. Þegar á móti blæs koma mannkostir best í ljós; Gunnlaugur gafst aldrei upp, jafnvel þegar viðskiptaumhverfið var í algjörri lægð. Gunnlaugur var sterkur persónuleiki, hógvær og traustur. Hans verður saknað. Megi hann hvíla í friði.

Fyrir hönd stjórnar Hornsteins.

Gunnar Syvertsen formaður stjórnar og framkvæmdastjóri HCNE, Peter Linderoth stjórnarmaður.

Það er með hryggð í hjarta sem við setjumst niður og skrifum þessi minningarorð um vin okkar og samstarfsmann, Gunnlaug Kristjánsson. Þótt honum hafi ekki auðnast að starfa lengi með okkur hjá BM Vallá náði hann að skilja eftir sig djúp spor. Kom með nýja hugsun um hvernig gera ætti hlutina og nýja nálgun á hvað skipti máli. En ekki síst fylgdi honum góður andi sem smitaði út til allra því Gulli hafði sérstaklega góða nærveru.

Hann fékk í fangið mörg erfið verkefni. Tók við fyrirtækjum sem stóðu sum frammi fyrir að því er virtist óleysanlegum vanda. En þar voru örugglega fáir betri en hann með sína afburðasamskiptahæfni og sveigjanleika. Gulli gekk að þessum verkefnum eins og öðrum af auðmýkt, jákvæðni og vinnusemi. Var upptekinn af því að ná árangri en hafði lítinn áhuga á að berja sér á brjóst. Það eru því undarleg örlög og ósanngjörn að þegar farið er að birta skuli hann kallaður burt.

Ferðalögin með Gulla eru minnisstæð. Hann var sérstaklega skemmtilegur ferðafélagi, hafði farið víða og var góður sögumaður og með mikla og beitta kímnigáfu. Við sjáum hann fyrir okkur nokkuð ábúðamikinn á fjöllum að grafa í malarhauga, að virða fyrir sér mannvirki eftir Frank Gehry í Prag, sem hann þekkti auðvitað, og sitjandi á flugvöllum með símann að leysa einhverjar krísur. Þetta voru þó aldrei neinar skemmtiferðir heldur vinnuferðir með stífu prógrammi. Samt var oft gert eitthvað skemmtilegt. Keyrt t.d. langar vegalengdir til að fá sér rúgbrauð sem er ógleymanlegt því síðustu samskiptin voru m.a. vangaveltur um hvaða staður væri uppspretta og móðir alls rúgbrauðs með reyktum silungi. Sem er náttúrlega eitthvað sem skiptir alla sómakæra menn miklu, eins og hann orðaði það.

Gunnlaugur Kristjánsson var farsæll í sínu starfi en það sem mest er um vert, var einnig góður drengur sem lét alls staðar gott af sér leiða, naut virðingar og lifði með reisn. Hans er sárt saknað hjá BM Vallá. Við vottum fjölskyldu og ástvinum hans okkar dýpstu samúð. Guð blessi minningu Gunnlaugs Kristjánssonar.

Einar Einarsson,

Gunnar Þór Ólafsson og

Pétur Hans Pétursson.

Í dag kveðjum við í hinsta sinn vin okkar og yfirmann, Gunnlaug Kristjánsson, sem lést eftir harða sjúkdómsbaráttu. Lífið er ekki alltaf sanngjarnt og sannaðist vel við fráfall Gunnlaugs því hann elskaði lífið í öllum þess myndum og barðist hetjulega til hinstu stundar og gaf aldrei upp vonina.

Hann kom með miklum hraða inn í líf okkar í maí 2007 sem forstjóri Björgunar ehf. Það var gaman að fylgjast með hversu fljótur hann var að kynnast starfsfólkinu og hinum margvíslegu verkefnum fyrirtækisins. Hann var röskur til allra verka og fylgdi þeim til loka. Það eru mörg verk og stór sem hann áorkaði og liggja eftir hann öðrum til góða síðar meir.

Það fer seint úr huga okkar að bestu umræðurnar um málefni fyrirtækisins og samfélagsins í heild fóru fram á verkstæðisgólfinu. Hann kom þar alltaf inn og sagðir „hvað er að frétta strákar“. Þar var tekinn staðan á málefnum dagsins og kom oft í framhaldinu af þeim umræðum „þetta er þá ákveðið“. Skrifstofan hans var alltaf opin fyrir öllum. Er okkur minnisstætt þegar nýr starfsmaður gekk inn á fund sem hann sat og vildi ræða við hann um ákveðið verkefni og til að sinna starfsmanninum var það fyrsta sem hann sagðir við fundarmenn „er ekki kaffi og smókur?“

Ekki má gleyma dugnaði og samskiptahæfileikum hans þegar sameiginlegt eignarhald á Björgun, BM Vallá og Sementsverksmiðjunni varð til undir merkjum Eignarhaldsfélagsins Hornsteins. Það var mikil vinna að koma þessu öllu saman og oft reyndi það mikið á hann, en áhuginn var mikill og ótrúlegt hver afraksturinn var, bæði hvað varðar starfsmenn og verkefni, en þar komu best í ljós kostir hans sem einkenndust af góðu lundarfari réttsýni, víðsýni og festu.

Hann fór með miklum hraða úr lífi okkar eins og hann kom, það er illskiljanlegt og erfitt að sætta sig við þegar einstaklingur, sem hefur skipað stóran sess í lífi okkar, fellur frá í blóma lífsins en á hinn bóginn er huggun harmi gegn að hann þjáist ekki lengur.

Það er stórt skarð sem hann skilur eftir í huga okkar allra sem unnu með honum, mikill missir og sár söknuður.

Við biðjum góðan guð að styrkja eftirlifandi eiginkonu hans, móður, börnin, aðra ættingja og vini.

Jóhann Garðar Jóhannsson og Þórdís Unndórsdóttir.

Frábær samstarfsmaður til margra ára og drengur góður er fallinn frá, langt um aldur fram og er það mikill harmur. Við félagar hjá Byggingafélagi Gylfa og Gunnars kynntumst Gunnlaugi Kristjánssyni fyrst snemma á níunda áratugnum. Þá vakti hann strax athygli sem kröftugur ungur maður innan byggingariðnarins, fyrst hjá Ármannsfelli og Asetu, síðar hjá Álftarósi og ÍAV. Auðséð var strax að þar var nýr leiðtogi á ferð, verkin látin tala og hlutirnir afgreiddir fljótt og vel af krafti og dugnaði.

Við fórum síðar að vinna að byggingaáformum með Björgun ehf. að spennandi verkefnum tengdum landfyllingum og byggingu húsa í „bryggjuhverfum“. Við byggðum mörg hús í Bryggjuhverfinu við Grafarvog og síðar tók við hið fallega Sjálandshverfi. Gunnlaugur var ráðinn til starfa sem forstjóri Björgunar 2007 og samskiptin urðu enn meiri. Síðan þá var Gulli í Björgun, eins og hann var ætíð kallaður, ekki bara samstarfsaðili okkar, heldur líka vinur og félagi. Síðasta verkefni okkar saman var landfyllingin í Kársnesi en þar er nú að rísa glæsileg íbúðabyggð.

Hann kom okkur strax fyrir sjónir sem framsýnn og skarpur maður með sterka yfirsýn og stefnumótun. Ekki bara vinnusamur og hugmyndaríkur heldur líka einstaklingur sem gaman var að vinna með, sá alltaf spaugilegar hliðar á málum og fljótur að finna lausnir. Fundir með honum voru ekki bara tæknilegs eðlis og úrvinnsla verkefna heldur líka næring fyrir sálina. Gulli var gleðigjafi og gaf mikið af sér til samferðamannanna.

Aðaláhugamál Gulla í frítíma var veiðimennska og hann var ekki bara mikill og fær stangveiðimaður heldur líka frábær kokkur og mikill áhugamaður um góðan mat. Margs er að minnast úr frábærum veiðiferðum, þar sem gleðin var við völd. Minnistæðust er þó ferð okkar alla leið til Argentínu fyrir nokkrum árum til sjóbirtingsveiða. Þar fékk ég að kynnast honum enn frekar í hópi góðra félaga og í ferðinni kenndi hann okkur að vera „gourmet“eins og hann sagði; læra að meta argentínskan mat og ljúf vín. Hrein unun var að sitja með Gulla með gott í glasi eftir góða veiðidaga, þá kom húmoristinn og sögumaðurinn í honum fram.

Mikilsvert er að minnast á að sterkur kjarni innan iðnaðarmannadeildar Bygg hefur hlotið leiðsögn sem ungir menn hjá Gulla þegar hann var tæknilegur framkvæmdastjóri hjá Álftarósi og síðar ÍAV. Hann var frábær leiðbeinandi og á þeim árum hafði hann frumkvæði að og stýrði meðal annars endurbyggingu eldri iðnaðarlóða við Borgartún og Sigtún yfir í glæsilega íbúðabyggð. Þróun og hugmyndavinna var hans sterka hlið og er það mikill missir fyrir okkur sem eftir stöndum að mega ekki njóta leiðsagnar hans og framsækinna hugmynda áfram.

Gunnlaugur var mikill gæfumaður í einkalífi að eiga Helgu; sína frábæru og tryggu eiginkonu, hún stóð eins og klettur við hlið hans, nú síðast í erfiðum veikindum. Henni og fjölskyldunni allri sendum við okkar innilegustu samúðarkveðjur. Það er okkur sorg að kveðja góðan samverkamann og vin og enn frekar að geta ekki verið við útförina vegna löngu ákveðinnar ferðar til útlanda, sem ekki er hægt að víkja frá. Við og starfsfólk BYGG sendum hlýjar kveðjur heim til Íslands og minnumst Gunnlaugs Kristjánssonar með miklu þakklæti og virðingu. Blessuð sé minning hans.

Gunnar Þorláksson og

Gylfi Ómar Héðinsson.

Það er heiður að hafa kynnst Gunnlaugi Kristjánssyni og unnið undir hans stjórn. Gulli hafði þá persónueiginleika og hæfileika sem prýða sanna leiðtoga.

Eitt af því sem einkenndi hann var dugnaður og stefnufesta, hann var sífellt að verki og vann oft myrkranna á milli. Á síðustu árum hefur hann áorkað gríðarlega miklu, það vita þeir sem næst stóðu. Mörg þeirra verkefna kröfðust allra hans krafta þar sem reynsla, greind og framsýni réðu úrslitum. Hógvær og þolinmóður tók hann fólk með sér eins og sagt er, vann úr málum að fagmennsku og naut trausts og virðingar. Sem vinnufélagi var Gulli jafnan kátur, ávallt til í að sjá spaugilegu hliðarnar, enda húmoristi mikill. „Við skulum byrja þó það sé ekki hægt,“ sagði hann stundum og glotti við en sú setning á skírskotun til Hornafjarðar þar sem hann vann á sínum yngri árum undir stjórn hins kunna Guðmundar Jónssonar húsasmíðameistara. Þess tíma minntist Gulli jafnan með hlýju.

Gulli hafði frá mörgu að segja enda víðförull mjög. Á ferðalögum naut hann sín til fulls, þar skein í gegn þrá hins metnaðarfulla að sjá og kynnast aðstæðum annarra til að geta mögulega lært af þeim. Kærleika bar hann til sinna nánustu og leyfði okkur að heyra af skemmtilegum samskiptum þegar það átti við. Það var mikið áfall þegar ljóst var hversu illa var komið fyrir heilsu hans. Gulli tók slaginn til hinsta dags og gaf aldrei upp vonina. Þrátt fyrir veikindin fylgdist hann vel með til hins síðasta enda vinnutengd málefni jafnan efst á baugi. Samúð okkar og hugur á sorgarstund er nú hjá konu hans, Helgu Sigrúnu, og fósturdóttur, Loga syni hans, barnabörnum, aldraðri móður, systkinum og fjölskyldum þeirra. Með miklum söknuði og virðingu kveðjum við Gunnlaug Kristjánsson og þökkum honum samfylgdina. Minning um góðan dreng mun lifa.

Fyrir hönd samstarfsmanna hjá Eignarhaldsfélaginu Hornsteini.

Lárus Dagur Pálsson.

Það var okkur menntaskólavinunum í „Crazy Crowd“ mikið áfall, þegar það varð smám saman ljóst að veikindi þín, elsku Gulli, krabbameinið, var ólæknandi og nú hefur það hrifið þig burt frá okkur. Þau okkar sem höfðu tækifæri til að styðja þig í veikindaferlinu dást að því, hve fimlega með húmorinn að vopni, þú varðist því að krabbinn kroppaði í óbilandi bjartsýni þína.

Við vorum svo heppin að kynnast þér snemma á lífsleiðinni í Menntaskólanum á Akureyri. Þá var allt lífið framundan og við vorum ódauðleg, hvað svo sem eldra og lífsreyndara fólk prédikaði.

Hjartahlýja, trygglyndi og ekki síst húmorinn þinn var það sem laðaði okkur að þér. Efst í huga okkar er þakklæti fyrir það að hafa notið vináttu þinnar í um fjörutíu ár, við minnumst margra gleðistunda sem við áttum saman og mörg voru þau uppátækin sem við stóðum saman að. Minningarnar sem nú sveima í höfðum okkar gætu fyllt heila bók; rúnturinn á Taunusnum hans Gunnars bróður þíns, Sjallastuð og sveitaböllin, útilegurnar sem við fórum í, bridsinn, þú að berjast við að æfa Claptonlagið „Heart of gold“ á gítar og allur spuninn, gleðin og hláturinn sem við áttum saman.

Eftir stúdentsprófið dreifðumst við í allar áttir eins og eðlilegt er, en alltaf hittumst við þó annað slagið, hluti af hópnum eða öll saman á ákveðnum viðburðum. Þú varst alltaf mikill ástríðumaður. Ef þú ákvaðst að taka þátt í eða vinna eitthvert verk var það tekið alla leið. Þannig var það með starfið þitt, laxveiðarnar, bridsspilamennskuna og svo margt fleira .

Hvers vegna er leiknum lokið?

Ég leita en finn ekkert svar.

Ég finn hjá mér þörf til að þakka

Þetta sem eitt sinn var

(Starri frá Garði)

Megi æðri máttur veita ykkur styrk í sorginni, elsku Helga Sigrún, Logi og aðrir aðstandendur

Fyrir hönd menntaskólavinanna í Crazy Crowd,

Ragnhildur Jónsdóttir.

HINSTA KVEÐJA
Elsku Gulli okkar, mann setur hljóðan. Það er illskiljanlegt og erfitt að sætta sig við að hitta þig ekki aftur. Hlæja með þér, skála við þig, borða góða matinn þinn, spjalla og vera í návist þinni. Þvílík forréttindi að fá að kynnast þér.
Takk fyrir allar góðu samverustundirnar. Sendum okkar dýpstu samúðarkveðjur til fjölskyldunnar.
Þínar vinkonur,
Brynja og Edda.