Rafnhildur Katrín Árnadóttir fæddist á Fáskrúðsfirði 18. nóvember 1924. Hún lést 3. september 2015.

Foreldrar hennar voru Jónína Sigurðardóttir, f. 9.12. 1886, d. 8.3. 1957, og Árni Gíslason, f. 26.8. 1893, d. 4.11. 1965, bændur í Brimnesgerði við Fáskrúðsfjörð og þar ólst Rafnhildur upp við venjuleg sveitastörf.

Hún var þriðja í röð fjögurra systkina, þau hétu Gunnlaugur, Aðalheiður og Gísli, sem öll eru látin.

Rafnhildur fór ung að heiman og vann fyrir sér m.a. í fiskvinnslu í Vestmannaeyjum og við framreiðslustörf í Reykjavík. Þar kynntist hún ungum leigu- og langferðabílstjóra, Guðmundi Árna Guðjónssyni, f. 9.8. 1921, d. 3.7. 2007, sem varð hennar lífsförunautur.

Guðmundur var Akurnesingur, kenndur við húsið Berg. Með Guðmundi fluttist Rafnhildur á Akranes og gengu þau í hjónaband annan í jólum 1947. Þau fluttu inn í nýbyggt íbúðarhús sem Guðmundur og Guðjón faðir hans byggðu að Sunnubraut 17 og bjuggu þar allan sinn búskap.

Rafnhildur og Guðmundur eignuðust fimm börn. Þau eru: Helga, f. 2.12. 1947, maki Ingi Steinar Gunnlaugsson og eiga þau tvo syni og sex barnabörn. Kristinn, f. 21.4. 1949, maki Petrea Ingibjörg Jónsdóttir og eiga þau þrjú börn og átta barnabörn. Guðjón, f. 6.1. 1952, maki Elín Jóhannsdóttir og eiga þau þrjú börn og sexbarnabörn. Jónína, f. 25.3. 1953, maki Ásgeir Kristjánsson og eiga þau fjögur börn og átta barnabörn. Þórir, f. 14.6. 1959, ókvæntur og barnlaus.

Á Akranesi vann Rafnhildur oftast við fiskvinnslu í Fiskiveri og Heimaskaga og víðar en síðustu starfsárin vann hún á Sjúkrahúsi Akraness.

Rafnhildur og Guðmundur voru náttúruunnendur. Ræktun og gróður voru sameiginleg áhugamál.

Árið 1988 fengu þau hjón afnot af átta hekturum lands í Klapparholti fyrir innan Akranes þar sem þau plöntuðu mörg þúsund plöntum af ýmsum tegundum. Þennan unaðsreit önnuðust þau í 18 ár. Þá skiluðu þau Akranesbæ svæðinu með tugþúsundum trjáplantna og er þar nú gullfallegt útivistarsvæði og sælureitur. Þau tileinkuðu foreldrum sínum þetta starf og markmiðið var að skila samfélagi sínu og komandi kynslóðum áþreifanlegum verðmætum.

Útför Rafnhildar Katrínar fer fram frá Akraneskirkju í dag, 11. september 2015, kl. 13.

Ég kveð í dag góða vinkonu mína, sem jafnframt var tengdamóðir mín í góð 45 ár. Rafnhildur Katrín Árnadóttir fæddist á Fáskrúðsfirði 18. nóvember 1924. Hún var þriðja í röð fjögurra systkina, þau hétu Gunnlaugur, Aðalheiður og Gísli og er þau öll látin. Foreldrar hennar voru Árni Gíslason og Jónína Sigurðardóttir, þau bjuggu í Brimnesgerði við Fáskrúðsfjörð.

Rafnhildur vann við ýmis störf áður en hún giftist, bjó m.a. í Vestmannaeyjum og Reykjavík.

Samhliða húsmóðurstarfinu vann Rafnhildur í frystihúsi Heimaskaga og Fiskivers. Síðustu starfsárin vann hún á Sjúkrahúsi Akraness.

Hún giftist Guðmundi Árna Guðjónssyni, 26. desember 1947. Þau bjuggu á Sunnubraut 17 allan sinn búskap.

Heimili þeirra var alltaf opið vinum barna og barnabarna. Skipti ekki máli hvort spilaður var fótbolti í garðinum eða hljómsveitaræfing á neðri hæðinni, hún hafði endalausa þolinmæði.

Hún var mikil húsmóðir og þegar einhvern bar að garði leið ekki á löngu þar til búið var að baka stafla af pönnukökum og klöttum sem runnu ljúflega niður.

Hún var einstaklega skapgóð og hnyttin í svörum og einkenndi húmorinn hana alla tíð. Hún var umburðarlynd, víðsýn og fordómalaus. Tók fólki eins og það var, sá það jákvæða við allt og alla.

Hún var sérstaklega orðvör og hallmælti engu eða engum. Það dýpsta sem hún tók í árinni var að segja að eitthvað eða einhver væri „hallærislegur“.

Rafnhildi var margt til lista lagt. Hún var mikil handvinnukona og á fjölskyldan mikinn fjölda útsaumaðra listaverka og steinamynda sem hún bjó til.

Rafnhildur hafði mikla ánægju af garðyrkju og allri útiveru. Heimilisgarðurinn að Sunnubraut 17 var einstaklega fallegur og fékk mörg verðlaun fyrir fjölbreytni og snyrtimennsku. Þar mátti sjá margar framandi plöntur sem reynt var að koma til við erfiðar aðstæður, sumar lifðu af en aðrar ekki.

Árið 1988 fengu þau hjón afnot af átta hekturum lands í Klapparholti fyrir innan Akranes þar sem þau plöntuðu mörg þúsund plöntum af ýmsum tegundum og voru ekki rög við að prófa nýjar og framandi tegundir þar einnig.

Þennan unaðsreit önnuðust þau í 18 ár og afhentu þá Akanesbæ fyrir komandi kynslóðir og nú njóta margir útveru á þessum góða stað.

Nú síðustu æviárin bjó hún á Dvalarheimilinu Höfða. Þar naut hún umönnunar einstaklega góðs starfsfólks og er fjölskyldan þakklát fyrir þann vinskap og hlýju sem þau sýndu henni alla tíð.

Ég vil að leiðarlokum þakka fyrir góða vináttu og samferð í gegnum lífið. Við sem eftir erum eigum minningar um einstaka ættmóður.

Petrea Ingibjörg Jónsdóttir.

Ég kynntist Rafnhildi Árnadóttur og Guðmundi Guðjónssyni, eiginmanni hennar, ásamt fjölskyldu þeirra veturinn 1956-1957. Það var á fyrsta skólaári í barnaskóla Akraness, bekk sjö ára barna.

Lán mitt þá var að lenda í bekk með Kidda, syni þeirra, en með okkur tókust þá strax einstaklega kær og sterk vináttubönd sem staðið hafa síðan.

Við kynnin varð fljótlega augljós einlægni þeirra hjóna og einbeiting sameiginlegra krafta þeirra við að hlúa að fjölskyldu þeirra og skapa henni gott heimili.

Kærleikur á milli þeirra hjóna var sérstakur og einlæg samstaða í öllu varðandi fjölskylduna einstök. Kom þetta glöggt fram í öllu atgervi þeirra, hvort heldur það varðaði umgjörð heimilisins eða viðhorf og viðmót í öllu sem því við kom.

Heimili þeirra hjóna var ávallt opið kunningjum barna þeirra, Helgu, Kristni, Guðjóni, Jónínu og Þóri, bæði fyrir leik og velgjörning af ýmsu tagi. Þar var oft mikið um að vera og glatt á hjalla, í leikjum á yngri árum og föndri og tónlist á unglingsárunum.

Heimilið stóð mér þó alveg einstaklega opið frá fyrstu kynnum og vaxandi með árunum, samhliða breyttum aðstæðum á mínum heimilishögum. Á táningsárunum tóku þau hjónin mig inn á heimili sitt og barnanna fimm með millibilum til dvalar bæði til lengri og skemmri tíma.

Á þeim árum voru þau hjón mér að mörgu leyti sem foreldrar og börnin sem systkin. Einlægni þeirra, velvild og óeigingirni var einstök. Samvistir með þeim og börnunum á heimili þeirra voru mér mjög lærdómsríkar í uppeldi mínu og ómetanlegur stuðningur og hjálp í heilmörgu öðru tilliti, bæði þá og síðar í lífinu.

Ég er Rafnhildi og Guðmundi, og reyndar fjölskyldunni allri, afar þakklátur fyrir kynni okkar og allt hið góða sem það hafði í för með sér.

Kæra fjölskylda, ég votta ykkur innilega samúð.

Björn Stefán Hallsson.