Magnús Ásmundsson fæddist á Eiðum 17. júní 1927. Hann lést á Hjúkrunarheimilinu Skógarbæ 31. ágúst 2015.

Foreldrar Magnúsar voru Steinunn Magnúsdóttir frá Gilsbakka og Ásmundur Guðmundsson biskup.

Systkini Magnúsar eru Andrés, f. 1916, d. 2006, Þóra, f. 1918, d. 2011, Sigríður, f. 1919, d. 2005, Áslaug, f. 1921, Guðmundur, f. 1924, d. 1965, og Tryggvi, f. 1938.

Magnús kvæntist Katrínu Jónsdóttur, f. 6. júlí 1932. Hún er dóttir hjónanna Guðrúnar Sigurhönnu Pétursdóttur, f. 1897, d. 1985, og Jóns Guðmundssonar, f. 1905, d. 1991.

Magnús átti sex börn; 1) Eyrún Magnúsdóttir, f. 18. júní 1953, ættleidd. 2) Sæmundur Magnússon, f. 14. janúar 1956, móðir Eirný Sæmundsdóttir, f. 1928, d. 2012. Börn Magnúsar og Katrínar eru: 3) Andrés, f. 15. nóvember 1956, kvæntur Áslaugu Gunnarsdóttur, f. 23. október 1964; börn; Anna Tara Andrésdóttir, f. 1987, móðir Ingibjörg Karlsdóttir, f. 6. apríl 1958, Gunnar, f. 1989, Katrín Helga, f. 1992, og Eyrún, f. 1996; 4) Jón, f. 23.3. 1959, börn; Magnús, f. 1983, móðir Kristín Helgadóttir, f. 25. janúar 1961 (skildu). Núverandi eiginkona Magnea Guðrún Bergþórsdóttir, f. 24. október 1960, börn þeirra Bergþór Steinn, f. 1990, unnusta Þorbjörg Viðarsdóttir, f. 1991, og Hjörtur Snær, f. 1996. 5) Ásmundur, f. 7. janúar 1963, kvæntur Ásdísi Þrá Höskuldsdóttur, f. 29. ágúst 1959; börn; Guðný Helga Herbertsdóttir, f. 1978 (fósturdóttir), í sambúð frá 2009 með Pétri Rúnari Péturssyni, f. 1972, börn; Jón Alex Pétursson, f. 1999, Ásmundur Goði Einarsson, f. 2002, Óskar Pétursson, f. 2008, og Emma Katrín Pétursdóttir, f. 2013; Katrín Ásmundsdóttir, f. 1992. 6) Steinunn Sigríður, f. 20. janúar 1975, maki Jesper Madsen, f. 19.2. 1976; börn Magnús Fannar, f. 2005, og Jóhanna Katrín, f. 2007.

Magnús lauk stúdentsprófi frá MR 1946 og læknanámi frá HÍ vorið 1955. Hann starfaði fyrstu árin á Íslandi en hélt til Svíþjóðar 1958, lauk þar sérnámi í lyflækningum og starfaði til 1964 er hann hóf störf við Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri. 1983 réðst hann til sjúkrahússins í Neskaupstað og gegndi þar embætti þar til hann lét af störfum. Eftir það tók hann að þýða úr sænsku og liggja m.a. eftir hann átta þýddar bækur.

Útför Magnúsar fer fram frá Seljakirkju í dag, 11. september 2015, kl. 13.

Ekki man ég nokkurn tímann eftir því að hafa verið spurður hvort ég væri sonur Magnúsar Ásmundssonar eða Magnúsar í Álfabyggðinni. Ávallt var ég spurður hvort ég væri sonur Magnúsar læknis, enda var læknisstarfið algerlega samofið persónuleika föður míns. Það kom sér oftast vel að vera sonur Magnúsar læknis, til dæmis þegar ég og vinur minn fórum á elliheimilið Hlíð að heimsæja ömmu hans. Þar fundum við það út, aðeins fimm ára gamlir, að það var gott að koma því að í samtölum við vistfólk að sonur Magnúsar læknis væri með í för. Þá opnuðust konfektkassar og Mackintosh-dollur um alla ganga og við hvattir til að fá okkur tvo og upp í þrjá mola hvor. Það gat líka stundum verið erfitt að vera sonur Magnúsar læknis, til dæmis þegar vinir mínir komu í heimsókn á unglingsárunum voru þeir tafarlaust spurðir hvort þeir reyktu og ef þeir voru svo óheppnir að svara játandi fylgdi að lágmarki fimmtán mínútna fyrirlestur um skaðsemi reykinga ásamt eindreginni hvatningu um að láta þegar af þeim ósóma. Já, læknastarfið var alltaf í forgangi og var það því ekkert gleðiefni að þurfa að láta af störfum þó að kominn væri á miðjan áttræðisaldur. Er það kannski til marks um hve ríkur þáttur læknastarfið var af persónuleikanum, þegar starfsfólk eða aðstandendur komu að máli við pabba undir það allra síðasta, þegar hugurinn var orðinn dálítið óskýr, þá svaraði hann gjarnan með læknisfræðilegum spurningum eins og „hvað er blóðþrýstingurinn hár hjá þér núna?“ eða „hvernig hefur þú sofið undanfarið?“ Já, samur við sig, alltaf í vinnunni, hann Magnús læknir.

Ásmundur Magnússon.

Í dag kveðjum við mikinn heiðursmann sem ég var svo heppin að eignast sem tengdapabba og börnin mín sem afa.

Tengdaforeldra mína hittum við sjaldan fyrstu búskaparárin þar sem þau bjuggu fyrir austan en við fyrir sunnan. Mér er þó minnisstætt einhverju sinni þegar við komum í Neskaupstað og Katrín, kona Magnúsar, var ekki heima. Þá bar hann óraunhæft traust til eldamennskukunnáttu minnar og hélt ég kynni að matreiða læri. Ég var mjög stolt af álitinu þótt ég kynni bara að brasa fisk og hrísgrjónagraut.

Í annað skipti fylgdi Magnús sjúklingi óvænt í bæinn – hringdi síðan og boðaði komu sína. Nú voru góð ráð dýr. Íbúðin í rúst, ég rúmliggjandi með umgangspest og sonur hans skildi ekki að það væri við hæfi að taka aðeins til. Ég var viss um að eftir þetta gæti hann aldrei litið mig réttu auga. En áhyggjur mínar voru óþarfar. Hann hreinlega sá ekki draslið, hafði ekki auga fyrir svona hlutum. En hann hafði auga fyrir ýmsu öðru. Hann sá gjarnan spaugilegu hliðarnar á tilverunni og gerði óspart grín að sjálfum sér. Olli frændi hans kunni ófár sögur um Magnús sem barn og sagði þær börnum sínum. Magnús hafði gaman af að segja þær. Ein er á þá leið að þegar Magnús var orðinn fullorðinn og heimsótti Olla kom dóttir hans til dyra. Magnús kynnti sig og spurði barnið hvort það þekkti sig ekki. Þá lifnaði yfir telpunni og hún svaraði: – Ég þekki þig ekki en ég veit að þú ert alveg agalega vitlaus.

Magnús var forkur til vinnu og hafði óbilandi starfsþrek, var lengst af á þrískiptum vöktum og vann öll sumarfríin í Svíþjóð. Það var mjög ánægjulegt að finna að hvarvetna naut hann virðingar, bæði hjá samstarfsfólki og sjúklingum. Hann hafði orð á sér í Neskaupstað fyrir að vera einarður áfengislæknir. Fólk sem í mesta sakleysi sínu leitaði læknis vegna hálssærinda eða til að endurnýja blóðþrýstingslyfin var áður en það vissi af komið í flug á leiðinni á Vog. Jafnvel eftir að hann var orðinn hrumur mjög á hjúkrunarheimili sagði hann í alvörutón við starfsfólkið að það þyrfti að fara að taka á áfengisvanda sínum.

Þegar ég varð kollegi Magnúsar þá var alltaf mjög gott að leita til hans með faglegar vangaveltur og vandamál og það var hreint ótrúlegt hversu vel heima hann var í grunnþekkingu læknisfræðinnar alla tíð.

Magnús var mjög bókhneigður og hafði gaman af ljóðum og kunni ógrynnin öll af vísum. Þegar hann lagði loks læknisstörfin á hilluna, kominn á miðjan áttræðisaldur, þá sneri hann sér af mikilli eljusemi að þýðingum. Hann fékk verðlaun árið 2007 fyrir best þýddu barnabókina „Dansar Elías?“. Það gladdi hann en þó ekkert í líkingu við það þegar Gyrðir Elíasson sendi honum persónulega kveðju og viðurkenningu fyrir þýðingu Magnúsar á „Stund þín á jörðu“ eftir Moberg. Þá var hann stoltur.

Ég er innilega þakklát fyrir að hafa kynnst Magnúsi og verið þátttakandi í lífi hans. Það er ánægjulegt að sjá að börnin og barnabörnin hafa mörg tekið hann til fyrirmyndar, hvert á sinn hátt.

Áslaug Gunnarsdóttir.

Stuttu eftir að ég og Ási sonur hans fórum að stinga saman nefjum heimsóttum við Magnús og Katrínu í Neskaupstað þar sem hann starfaði sem læknir um árabil. Þarna voru okkar fyrstu kynni og ekki vildi betur til en að ég fékk slæman höfuðverk og bað um verkjalyf. Ég hélt að það væri auðsótt mál á heimili lyflæknisins en raunin var sú að engar töflur voru til í húsinu. Magnús trúði ekki á að inntöku lyfja nema brýna nauðsyn bæri til og ráðlagði oft hvíld, hollt mataræði og innhverfa íhugun þegar eitthvað bjátaði á. Þarna áttaði ég mig á því að Magnús var enginn venjulegur maður, hann fór sínar eigin leiðir, var heiðarlegur og samkvæmur sjálfum sér. Hann hvíldi líka vel í sjálfum sér sem lýsti sér einna best í því að hann gat sofnað hvar og hvenær sem var, jafnvel í veislum.

Það eru fáir sem eiga líf sitt tengdaföður sínum að launa en það á ég. Þegar ég veiktist alvarlega fyrir nokkrum árum var það fyrir harðfylgi hans að ég fékk rétta meðferð sem kom í veg fyrir varanlegan skaða. Magnús heimsótti mig daglega á spítalann og fylgdist vel með að bataferlið væri á réttri leið. Fyrir það get ég aldrei fullþakkað.

Tíminn hefur verið mér hugleikinn síðustu daga. Það er ef til vill eðlilegt þegar maður stendur á slíkum tímamótum að framtíðin verður með breyttu sniði, án samferðafólks sem hefur verið órjúfanlegur partur af lífinu. Magnús nýtti tíma sinn vel. Naut sín bæði í leik og starfi og átti fallegt líf með elskulegu Katrínu. Ég þakka Magnúsi af alhug fyrir þann tíma sem ég var samferða honum og mun gera mitt besta í að nýta tímann sem best rétt eins og hann gerði.

Ásdís Þrá Höskuldsdóttir.

Nú þegar lífsgöngu Magnúsar er lokið er margs að minnast og margt að þakka fyrir.

Ég man fyrst eftir Magnúsi í matsal sjúkrahússins á Akureyri. Þá var hann læknir á lyfjadeildinni, en ég starfsstúlka í eldhúsinu. Þá grunaði mig ekki að þessi geðþekki og lítilláti maður yrði áratug síðar tengdafaðir minn.

Ég kynntist Magnúsi svo árið 1986 þegar við Jón fórum að vera saman. Þá bjuggu þau Magnús og Katrín í Neskaupstað. Það var gott að koma austur til þeirra og fá þau í heimsókn til okkar í Keflavík og síðar til Akureyrar. Þegar Magnús hætti að starfa sem læknir þá fluttu þau hjónin suður í Kópavog. Ekki undi hann sér allskostar í afslöppun og garðdútli en fór þá þýða bækur úr sænsku af miklum móð.

Samband mitt við tengdaforeldrana hefur alltaf verið mjög gott og vináttan mikil. Það var gott að leita ráða hjá Magnúsi. Hvort heldur sem þurfti ráðgjöf í fjármálum eða læknisþjónustu úr fjarlægð fyrir synina í gegnum síma. Svo ég tali nú ekki um þegar bílakaup voru á döfinni. Hann var mikill bílaáhugamaður og hafði ákveðnar skoðanir á því hvaða bílategund ætti að kaupa. Var þá Toyota efst á blaði. Við fórum lengi vel eftir því, en fyrir nokkrum árum keyptum við okkur Skoda. Magnús var ekki alveg sáttur við þau kaup en það breyttist eftir nokkra bíltúra og ferð með okkur norður í land.

Við spjölluðum oft saman í síma. Magnús vildi fylgjast með hvernig gengi í námi og leik hjá sonarsonunum á Akureyri og í vinnunni hjá okkur Jóni. Hann skammaði okkur, og þá sérstaklega Jón, fyrir að vinna of mikið. Þá minnti ég hann á það sem ég hafði heyrt að þegar hann var ungur læknir í Svíþjóð og á Akureyri hafi hann oft gist á sjúkrahúsinu eftir langan og strangan vinnudag til þess að vera til taks ef á þurfti að halda. „Já, var það þannig?“ sagði hann „ég man það nú ekki alveg.“

Magnúsi var mjög umhugað um sjúklingana sína og skipti þeirra líðan alltaf mjög miklu máli fyrir hann. Fyrir fjórum árum slasaðist Magnús og hrakaði í kjölfarið og þurfti nú sjálfur á heilbrigðiskerfinu að halda. Stundum hef ég hugsað með mér að nú á tímum aðhalds og lokana í kerfinu hafi stundum vantað uppá það, að hann hafi fengið þá góðu þjónustu sem hann vildi veita sjúklingum sínum, þó fáliðað starfsfólkið geri vissulega sitt besta og sé elskulegt og nærgætið.

Oft keyrði ég þau hjónin í verslunarleiðangra í Reykjavík. Ferðirnar í herrafataverslun Guðsteins eru mér sérlega minnisstæðar. Þá var eins gott að gefa sér góðan tíma. Katrín var búin að sannfæra Magnús um að nú þyrfti hann aldeilis af fara að endurnýja í fastaskápnum, en Magnús var mjög nýtinn og fór ekki óþarfa ferðir í fataverslanir. Þau hjón voru ekki alltaf sammála um hvað ætti að kaupa, en á endanum var Magnús alltaf ánægður með kaupin, enda bestu fötin og verðið hjá Guðsteini að Magnúsar sögn.

Það verður tómlegt að koma í Árskóga núna eftir að Magnús er farinn, en minningin um mætan mann og yndislegan tengdaföður lifir.

Hafðu þökk fyrir allt og hvíl í friði.

Guðrún Bergþórsdóttir.

Ég man fyrst eftir bróður mínum sem menntaskólanema. Hann þótti heldur slakur námsmaður, sem var rétt en þó undarlegt. Ekki vantaði námsgáfurnar, þær komu síðar í ljós.Fyrstu árin eftir stúdentspróf voru honum erfið. Hann veiktist af astma og lítið varð úr námi. 1948 hélt hann til Svíþjóðar og lauk 1. og 2. hluta læknisfræði við Karolinska vorið 1953. Þá kom hann heim til að ljúka námi við læknadeild Háskóla Íslands sem talið var stíft 2 ára nám. Fyrri veturinn fór þó aðallega í að stunda gleðskap og rifja upp gamla vináttu. Ég held hann hafi varla opnað bók þann vetur. Ekki var þó óreglu um að kenna, enda var eitt sinn haft eftir Áslaugu systur okkar: „Það má margt um þig segja Magnús bróðir, en þú ert ekki sérlega drykkfelldur!“ Þennan vetur kynntist hann Einari Jóhannessyni og þeir ákváðu að taka námið föstum tökum og lesa saman seinni veturinn. Ég man þó að móður okkar var ekki rótt. Fyrsta prófið var munnlegt. Einar kom heim á Laufásveg á undan Magnúsi og móðir okkar spurði hvernig hefði gengið. „Vel,“ svaraði Einar. „Hann fékk ágætiseinkunn.“ Þá snöggreiddist mamma og sagði að svona hefðu menn ekki í flimtingum. Það tók nokkurn tíma að sannfæra hana og þá breyttist reiðin í fögnuð. Þegar Magnús lauk prófi með góðri 1. einkunn datt út úr Áslaugu systur: „Ég held það sé stórlega orðum aukið að læknanám sé svo erfitt.“ Að loknu framhaldsnámi í lyflækningum í Svíþjóð varð hann læknir við sjúkrahúsið á Akureyri og 1983 varð hann yfirlæknir á sjúkrahúsinu í Neskaupstað og gegndi því starfi til sjötugs. En verklaus var hann friðlaus. Hann réð sig aðstoðarlækni á Vífilsstaði og síðar vann hann á Hrafnistu. Tvísköttun í skattkerfi varð til þess að hann vann nánast launalaust en hann var alsæll að hafa vinnu. Síðar gerðist hann þýðandi og þýddi m.a. 2 bindi af vesturfarabókum Vilhelm Mobergs. Það fyrsta hafði Jón Helgason ritstjóri þýtt og var ekki auðvelt að feta í fótspor hans. Þýðing Magnúsar var öðru vísi, en engu síðri. Það gladdi hann að fá verðlaun Reykjavíkurborgar fyrir þýðingu á barnabók. Vegna ólíkrar búsetu kynntumst við ekki vel fyrr en á seinni hluta ævinnar. Ég komst þó fljótt að því að hann væri góður læknir. Að ráðum Magnúsar réði ég mig stúdent hjá Ólafi Sigurðssyni yfirlækni á Akureyri, þeim höfuðsnillingi. Ólafi lá afarvel orð til Magnúsar, en það voru þó gamlar konur sem sannfærðu mig best. Ég minnist þess að ein sagði við mig: „Ert þú bróðir hans Magnúsar? Það er yndislegur maður og mikill læknir.“ Síðan leit hún á mig og sagði: „Þið eruð annars ekkert líkir.“ Ég vonaði að hún ætti aðallega við útlitið, en mátti þó heyra efasemdaraddir! Magnús hafði þá eiginleika sem skipta mestu máli fyrir lækna: Hann var vel að sér í fræðunum, afar samviskusamur, hafði góða dómgreind, átti auðvelt með að ná til fólks og gat tekið ákvarðanir fljótt. Og hann var góður maður, en án þess verður enginn góður læknir. Magnús hafði mikið dálæti á þessu erindi Matthíasar:

Dæm svo mildan dauða,

Drottinn þínu barni,

eins og léttu laufi,

lyfti blær frá hjarni,

eins og lítill lækur

ljúki sínu hjali,

þar sem lygn í leyni

liggur marinn svali.

Þetta var andlátsbæn hans, sem rættist. Blessuð sé minning hans.

Tryggvi Ásmundsson.

„Draumar eru gratís“. Þetta er besta veganesti sem Magnús gaf mér. Enginn draumur er svo stór að það taki því ekki að óska sér hans og ekkert markmið er of háleitt. Það er hvort eð er gratís að láta sig dreyma og oft er það besta í lífinu einmitt gratís.

Ég var tíu ára þegar ég kom inn í líf Magnúsar og Katrínar. Ási sonur þeirra varð fósturpabbi minn og þau um leið bónus afi og amma. Mér var tekið opnum örmum og af mikilli elsku. Það er enda leitun að vandaðri manneskjum.

Magnús var sérlundað ljúfmenni. Biskupssonur sem trúði öðru fremur á vísindin. Lyflæknir sem trúði líka á mátt hugans við að lækna mein. Hann talaði esperanto, drakk vatnsblandað gos, þýddi bækur og byggði sér kofa sem sumarbústað. Magnús var líka fordómalaus og hafði þar af leiðandi afskaplega þægilega nærveru. Áhugasvið hans lá víða og oft gat hann komið manni skemmtilega á óvart. Það er mér t.a.m. minnisstætt þegar ég var send sem fréttamaður í héraðsdóm að fylgjast með lítt áhugaverðu skattamáli. Þegar ég kom þangað sat Magnús á fremsta bekk, áhugasamari en allir í dómssal.

Magnús kvaddi í örmum fjölskyldunnar. Ég get ekki hugsað mér fallegri kveðjustund. Það er, jú, hið eina sanna ríkidæmi – að elska og vera elskaður.

Ég mun halda áfram að dreyma gratís í anda Magnúsar og hugsa til hans með þakklæti fyrir samveru okkar og elsku hans.

Guðný Helga Herbertsdóttir.

Þegar ég hugsa um afa sé ég fyrir mér eldhúsborðið á Reynigrundinni, útvarpið stillt á Rás1 og við erum að spila ólsen ólsen í hundraðasta sinn. Þó afi hafi verið gamall kom stundum á hann barnslegt prakkaraglott í spilum og ef maður passaði sig ekki gat maður allt eins átt von á því að hann svindlaði allsvakalega. Afi fór oft í gönguferðir þó hann væri orðinn hrumur og blindur og það sem meira var, hann fór oft í strætó. Vinkonur mínar voru farnar að rekast oft á hann í strætó og tala alltaf um hann sem afa í strætó.

Afi var ofboðslega stuðningsríkur og hvatti mig alltaf áfram í því sem ég tók mér fyrir hendur. Hann hafði gaman af því að kenna mér vísur og furðaði sig á því hvernig tíu ára barn gæti lært öll erindin í þjóðsöngnum án þess að skilja bofs í honum. Einu sinni skrifaði ég ritgerð um ömmu fyrir skólann sem afi var sérstaklega ánægður með. Daginn eftir bankaði hann uppá og með gjöf handa mér. Það var einlægasta hvatning sem ég hef nokkurn tímann fengið. Gjöfin var stór pakki af hvítum A4 blöðum, til þess að ég gæti haldið áfram að skrifa. Betri afa er ekki hægt að hugsa sér. Hann lifir áfram í minningu allra þeirra sem fengu að kynnast honum.

Katrín Helga Andrésdóttir.

Fyrstu minningarnar sem við eigum um afa Magnús eru um gömlu grænu heyrnarhlífarnar sem til voru á Neskaupstað. Þessar heyrnarhlífar notaði afi til þess að geta fengið frið frá hávaða og skarkala hversdagsins. Hann tók sér gjarnan kríu í húsbóndastólnum með heyrnarhlífarnar á höfðinu. Hann hafði unun af því að hlusta á ýmsan fróðleik en var útsjónarsamur við að koma sér undan hávaða. Sem dæmi má nefna þá naut hann þess að hlusta á spurningarnar í Gettu betur enda vissi hann svörin við þeim langflestum en var snöggur að ýta á „mute“ takkann á fjarstýringunni þegar fagnaðarópin hófust. Takkarnir á fjarstýringunni voru langt því frá þeir einu sem afi handlék um ævina því hann hafði í sér barnslega þörf til að fikta í öllum græjum og tökkum. Þessi eiginleiki átti líklega stóran þátt í því að honum tókst á gamalsaldri að verða ágætlega fær á tölvu.

Hann hafði mikinn áhuga á bókmenntum og tungumálum, m.a. esperanto, sem varð til þess að þegar annasamri starfsævi lauk tók hann til við að þýða bækur af mikilli hugsjón, mest úr sænsku. Hann lagði mikinn metnað og vinnu í þýðingarnar. Það var því sérlega ánægjulegt þegar honum hlotnaðist sá heiður að hreppa verðlaun bókmenntaráðs Reykjavíkur fyrir þýðingu á sænsku barnabókinni Dansar Elías? Hann hélt þýðingunum áfram eins lengi og sjónin leyfði og í raun talsvert lengur en það.

Afi var mikill bílaáhugamaður. Fyrir nokkrum árum buðum við honum í bíltúr á Selfoss og fórum þá á stóra fornbílasýningu. Þá var afi næstum alveg blindur, sá aðeins stórar útlínur útundan sér. Samt gat hann sagt til um tegund og árgerð langflestra bíla sem við gengum framhjá og við gátum staðfest með því að lesa á lítil skilti hjá bílunum.

Ef við reyndum að lýsa afa í einu orði þá væri það skynsamur. Síðan við munum eftir honum hefur hann verið afar hófsamur á vín.

Það var helst að hann dreypti á vatnsblönduðum pilsner ef hann kaus að fá sér í tána. Það sama gilti um gosdrykki , þeir voru blandaðir að minnsta kosti til helminga með vatni og sleikipinnum, eða spítubrjóstsykri, eins og hann kallaði þá, taldi hann réttast að sturta niður í klósettið. Skynsemin einkenndi ekki síður starf hans sem læknis. Hann var vel meðvitaður um gagnsemi hreyfingar sem og skaðsemi óþarfa lyfjanotkunar. Því ráðlagði hann sjúklingum sínum gjarnan þegar það átti við að fara „út að ganga í klukkutíma á dag“. Í stað þess að skrifa út lyf sem hann vissi vel að gætu haft slæmar aukaverkanir og kæmu ef til vill að litlu gagni. Þetta var löngu fyrir tíma hreyfiseðla.

Eflaust voru einhverjir ósáttir við að fá ekki einhverja pillu sem lausn við sínum vanda. Það kom þó ekki að sök því allir sem til hans leituðu skynjuðu einlægan vilja hans til þess að sjúklingar hans fengju bata.

Þessa sömu umhyggju fyrir fjölskyldu og vinum skynjuðum við sterkt í öllum okkar samskiptum við afa í gegnum árin.

Bergþór og Hjörtur

Jónssynir.

HINSTA KVEÐJA
„Allt það besta í lífinu er hvort sem er gratis. Eins og sólin ... og ástin.“
Takk fyrir daginn, elsku afi. Góða nótt, sjáumst síðar.
Anna Tara Andrésdóttir
og Katrín Ásmundsdóttir.