Fræðsla og skemmtun Menningarhúsin í Kópavogi bjóða grunnskólabörnum í heimsókn í vetur til að efla menningarfræðslu ungmenna í bænum.
Fræðsla og skemmtun Menningarhúsin í Kópavogi bjóða grunnskólabörnum í heimsókn í vetur til að efla menningarfræðslu ungmenna í bænum. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Menningarhúsin í Kópavogi bjóða í vetur upp á metnaðarfulla dagskrá fyrir nemendur bæjarins á öllum stigum grunnskóla.

Menningarhúsin í Kópavogi bjóða í vetur upp á metnaðarfulla dagskrá fyrir nemendur bæjarins á öllum stigum grunnskóla. Þetta er umfangsmesta heimsóknarverkefni sem sett hefur verið saman í bænum og er samstarfsverkefni sex ólíkra stofnana, sem allar eiga það sameiginlegt að hafa ýmislegt forvitnilegt og fræðandi fram að færa. Dagskráin felur í sér heimsókn í tvö til þrjú menningarhús í sömu ferð svo úr verður fjölbreytt menningardagskrá.

Fjársjóðir og lifandi tónlist

Gerðarsafn tekur á móti sjöttu bekkingum í byrjun nóvember. Nemendur fá leiðsögn um höggmyndasýningar Baldurs Geirs Bragasonar og Habbýjar Óskar og fá jafnframt að reka inn nefið í djúpar listaverkageymslur safnsins og kanna falda fjársjóði. Nemendum stendur til boða að heimsækja eitt til tvö menningarhús til viðbótar í sömu ferð.

Salurinn tekur á móti fjórðu bekkingum í lok janúar. Börnin fá þar bæði skemmtun og fræðslu í einni og sömu dagskrá og upplifa jafnframt gleðina sem felst í því að koma í tónlistarhús bæjarins og hlusta á lifandi tónlistarflutning. Nemendum stendur til boða að heimsækja eitt til tvö menningarhús til viðbótar í sömu ferð.

Bókasafn Kópavogs tekur á móti níundu bekkingum í byrjun maí. Fjallað verður um eðli og tilgang bókasafna, nýjar bækur verða kynntar fyrir nemendum og allir fá ókeypis skírteini að heimsókn lokinni. Nemendum stendur til boða að heimsækja eitt til tvö menningarhús til viðbótar í sömu ferð.

Menningarhúsin í Kópavogi eru Bókasafn Kópavogs, Gerðarsafn, Salurinn, Náttúrufræðistofa Kópavogs, Tónlistarsafn Íslands og Héraðsskjalasafn Kópavogs.

Með þessu er verið að efla enn frekar menningarfræðslu barna og ungmenna í Kópavogi, en rík áhersla er lögð á slíka fræðslu í nýrri menningarstefnu bæjarins.