Steingrímur J. Sigfússon hefur ekki mikla trú á minni almennings

Steingrímur J. Sigfússon, fyrrverandi fjármálaráðherra, ræddi fjárlagafrumvarpið á þingi í gær og útskýrði fyrir þeim sem á hlýddu að sá árangur sem þar sæist væri honum að þakka. Efnahagsbatinn skýrðist af því að í tíð vinstri stjórnarinnar „voru í gangi markvissar aðgerðir til þess að styrkja tekjugrunn ríkisins samhliða því að dregið var úr útgjöldum eins og kostur var“.

Það sem hann sá athugavert við fjárlögin var að núverandi ríkisstjórn hefði „sleppt út umtalsverðum tekjum“ því að annars væri staðan enn betri.

Markvissar aðgerðir Steingríms og félaga til að styrkja tekjugrunn ríkisins, eins og hann kýs að kalla linnulausar skattahækkanir vinstri stjórnarinnar, urðu ekki til að stuðla að efnahagsbata. Þvert á móti hægðu þær verulega á batanum og lengdu niðursveifluna langt umfram það sem þörf var á. Þetta má til að mynda sjá á hagspám um hagvöxt og svo þeim hagvexti sem raun varð á.

Það að vinstri stjórninni tókst ekki að valda enn meira tjóni stafar ekki síst af því að þjóðin fékk að halda krónunni, þrátt fyrir tilraunir vinstri stjórnarinnar til að þvinga landið inn í ESB og evruna, og að þjóðin gat hrist af sér Icesave-skuldaklafann sem Steingrímur og félagar reyndu ítrekað að hengja á hana.

Ráðherrar vinstri stjórnarinnar eru ákaflega bjartsýnir ef þeir telja að almenningur sé það gleyminn að málflutningur á borð við þann sem Steingrímur bauð upp á í gær þyki trúverðugur.