Erna Bjarnadóttir
Erna Bjarnadóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Helgi Bjarnason helgi@mbl.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

„Niðurstöðurnar eru það afgerandi að ég tel að áhættumatið hefði haft verulegt gildi í viðræðunum, ef það hefði verið lagt fram,“ segir Halldór Runólfsson, sem tók þátt í viðræðum um matvæli og heilbrigðismál, vegna framleiðslu matvæla, í aðildarviðræðunum við Evrópusambandið. Hann var þá yfirdýralæknir.

Halldór segir að reglur ESB um frjálsan flutning lifandi dýra á milli landa hafi verið eitt aðal-ágreiningsefnið í viðræðunum. Búið var að rýna reglur beggja landanna og opna þennan kafla viðræðuáætlunarinnar.

Vildu varanlega undanþágu

Íslenska viðræðunefndin hélt fram þeirri afstöðu að Íslendingar gætu aldrei tekið upp reglur ESB vegna góðrar sjúkdómastöðu í búfjárstofnum hér á landi og vegna þess hversu viðkvæmir þeir væru gagnvart sjúkdómum vegna aldalangrar einangrunar. Gerð var krafa um að landið fengið varanlegar undanþágur frá viðkomandi reglum Evrópusambandsins. Halldór segir að fulltrúar ESB hafi óskað eftir sönnun þess að það væri nauðsynlegt.

Þess vegna óskaði utanríkisráðuneytið eftir gerð þess áhættumats sem kynnt var í fyrradag. Það sýndi fram á að mikil hætta væri á að ýmsir sjúkdómar bærust strax í íslenska búfjárstofna með innflutningi og að þeir gætu valdið miklum usla í landbúnaði hér.

Halldór segir að skýrslan um áhættumatið uppfylli öll skilyrði sem fulltrúar ESB settu fyrir slíkri vinnu. Hins vegar var hún aldrei lögð fyrir Evrópusambandið vegna þess að búið var að setja viðræðurnar á ís þegar hún var fullgerð. Þess vegna segir Halldór ekki hægt að fullyrða um viðbrögð ESB við niðurstöðum hennar, hvort fallist hefði verið á varanlega undanþágu frá reglunum eða hvort spilast hefði úr því máli á annan hátt.

Vopn í samningum

Erna Bjarnadóttir fylgdist grannt með viðræðunum sem hagfræðingur Bændasamtaka Íslands og aðstoðarframkvæmdastjóri. Hún segir ljóst að áhættumatið hefði fært íslensku samningamönnunum vopn í hendur. Það væri þó enganveginn víst að ESB hefði samþykkt að bann okkar við innflutningi væri eina leiðin til að halda áhættunni af því að sjúkdómar bærust til landsins innan ásættanlegra marka.

Nefnir hún hugmyndir sem fram hafi komið um að nóg væri að loka á innflutning frá svæðum þar sem viðkomandi sjúkdómar grasseruðu. Það teldu Bændasamtökin ekki nóg þar sem sjúkdómar sem ekki hefðu mikil áhrif í Evrópu gætu orðið að faraldri hér. Nefnir Erna nýlegar hrossapestir sem dæmi um það.