Hjörleifur Hallgríms
Hjörleifur Hallgríms
Eftir Hjörleifur Hallgríms: "Samt á að hrúga flóttafólki inn í landið, helst í þúsundum talið, með tilheyrandi miklum kostnaði eða um 5 milljónum á mann yfir árið."

Alltaf er til nóg af peningum í þessu landi til flestra annarra hluta en að standa við lög þegar kemur að ellilífeyrisþegum eins og sannaðist þegar Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra gaf út þá yfirlýsingu að hækkun til þeirra yrði aðeins 8,9% og það ekki frá 1. maí sl. eins og aðrir láglaunahópar fengu og ellilífeyrisþegar eiga að fylgja, heldur frá nk. áramótum og þar með er stolið af okkur 30 þús. kr. hækkuninni, sem varð 1. maí og þar að auki verðum við af hækkuninni í sjö mánuði. Svo er enginn kominn til með að segja að staðið verði við hækkunina um áramót eins og fjármálaráðherra er búinn að boða án þess að skammast sín því annað eins hefur nú gerst að klipið verði af ellilífeyrisþegum vegna þessa eða hins þó sá hópur megi síst við skerðingu launa. Það er nöturlegt til þess að vita að þetta er að gerast á meðan flestir vinnandi hópar í landinu eru að fá upp í tugi prósenta á sín laun og þykir ekki nóg.

Þá hefur Mæðrastyrksnefnd gefið út að allt að 500 manns þiggi matargjafir hjá þeim einu sinni í viku og eitthvað af þeim fjölda eru ellilífeyrisþegar þó svo að fólk af þeirri kynslóð láti sig frekar hafa það til að aðrir geti notið. Ég verð í þessum pistli mínum að minnast á heldur ömurlega sögu, sem kunningi minn sagði mér fyrir nokkru en hún er allsvakaleg. Dóttir hans var að fara að gifta sig fyrr á árinu suður á landi og faðirinn komst ekki í brúðkaupið sökum þess að hann átti ekki fyrir fargjaldinu að norðan og því síður fyrir brúðkaupsgjöf. Eiga ellilífeyrisþegar að búa við slíkt, ég spyr?

Fjöldinn af þessu fólki býr við aðstæður, sem engum er bjóðandi, á ekki fyrir mat, á ekki fyrir lyfjum, á ekki fyrir jóla- eða afmælisgjöfum handa barnabörnunum, hvað þá öðru til að gleðja því hún er rík í gömlu fólki, gjafmildin, og að leyfa sér einhverja dægrastyttingu eins og leikhús, kórsöng og aðra skemmtun er tómt mál að tala um.

Þónokkrir hafa komið að máli við mig og spurt hvernig mér detti í hug að Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hafi nokkra innsýn í vandræði gamla fólksins, maður, sem sagt er að hans fjölskyldubönd séu rík af peningum, bréfum og öðrum eignum, dettur nokkrum manni í hug að slíkt fólk geti sett sig inn í aðstæður ellilífeyrisþega með strípaðar innan við 200 þús. kr. á mánuði. Slíkt fólk veit ekki hvað er að búa öldruðum áhyggjulaust ævikvöld.

Því var fróðlegt að hlusta á Jón Kristin Snæhólm á stöðinni ÍNN fyrir nokkru þegar að þessi mál bar á góma. Kvað hann upp úr með að segja „við ætlumst til að Sjálfstæðisflokkurinn komi þessu í lag“. Þvílík hræsni.

Flóttamannaruglið

Á sama tíma og hluti af íslensku þjóðinni býr við sult og seyru ætlar allt að fara á límingunum vegna flóttafólks frá Sýrlandi svo að yfirboðin eru ógurleg og dæmi um að alþingiskonur megi vart vatni halda og fleiri í þjóðfélaginu svo, sem fjölmiðlafólk, sem ætlar hreint af göflunum að ganga og virðist komið í kapp við að birta sem ógeðslegustu myndirnar frá stríðshrjáðum löndum, en eru stríðin þar okkur að kenna? Svo hafa misvitlausir aðilar farið að benda á Heimaeyjargosið, en þá hröktust nokkur þúsund manns upp á land og var hjálpað á ýmsa vegu en þetta voru landar okkar, sem að stórum hluta fóru aftur til síns heima þegar að hreinsun var lokið. Það vill svo til að ég bjó í Vestmannaeyjum með mína fjölskyldu og hafði átt þar heima í 15 ár og líkað vel og fullyrði því að Vestmannaeyingar eru engir aumingjar og vanir að bjarga sé sjálfir svo Heimaeyjargosið á ekkert skylt við Sýrland. Ég upplifði líka Surtseyjargosið úti í Eyjum. Svo virðist sem kapphlaup sé brostið á um hve mörgum þúsundum af flóttafólki við eigum að taka á móti og borgarstjórakjáninn er kominn í kapphlaupið og talar ekki minna en í hundruðum. En enginn minnist á að á meðan stór hluti þjóðarinnar þjáist af matarskorti og öðrum nauðsynjum kostar um 5 milljónir á ári að halda einum flóttamanni uppi. Ef þetta er ekki múgsefjun af verstu tegund þá veit ég ekki hvað. Meira að segja gekk svanasöngur Guðmundar Steingrímssonar í uppgjöf í eigin flokki út á það að tíunda til flokksbrotsins að ekki væri þeirra eina mál að færa til klukkuna heldur líka að taka á móti nógu mörgu flóttafólki. Lengi má manninn reyna og varð mér hugsað til höfðingjans föður hans. Þá er dæmi um unga foreldra með nokkur ungbörn í kjallaraíbúð, sem allt að því eru tilbúin að bjóða flóttafólki upp í rúm til sín, slíkt er göfuglyndið. Já, nú hefur miskunnsama Samverjanum verið skákað.

Að lokum þetta. Ég hef mikla og óskoraða samúð með flóttafólki, þá sérstaklega frá stríðshrjáðum löndum, en búum fyrst okkar eigin fólki mannsæmandi lífskjör og síðan getum við leikið miskunnsama Samverjann og hjálpað flóttafólki fyrir utan það, sem kemur inn í landið jafnvel í tugum talið á hverju ári. Hér er allt annað fólk á ferðinni en fólkið sem kom frá gömlu Júgóslavíu og hefur staðið sig vel. Ekki má gleyma mænusóttinni, sem nú herjar austur í löndum.

Höfundur er eldri borgari á Akureyri.

Höf.: Hjörleifur Hallgríms