Forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, Jean-Claude Juncker, lýsti því yfir í stefnuræðu sinni í Evrópuþinginu fyrr í vikunni að fyrir næstu áramót yrðu lagðar fram tillögur um að komið yrði á sameiginlegri landamæra- og strandgæzlu innan...

Forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, Jean-Claude Juncker, lýsti því yfir í stefnuræðu sinni í Evrópuþinginu fyrr í vikunni að fyrir næstu áramót yrðu lagðar fram tillögur um að komið yrði á sameiginlegri landamæra- og strandgæzlu innan sambandsins undir stjórn þess og ennfremur sameiginlegri stefnu í innflytjendamálum. Þar vísaði hann ekki aðeins til ríkja Evrópusambandsins heldur einnig þeirra ríkja sem aðild eiga að Schengen-samstarfinu svonefndu en standa utan sambandsins; Íslands, Noregs, Sviss og Liechtenstein.

Þetta eru ekki nýjar hugmyndir en Evrópusambandið hefur lagt sífellt meiri áherzlu á að þær verði að veruleika. Schengen-samstarfið gengur sem kunnugt er út á að hefðbundnu landamæraeftirliti er hætt á milli aðildarríkjanna en gæzlan á ytri mörkum svæðisins þess í stað styrkt í sessi. Hér á landi er hefðbundnu landamæraeftirliti sinnt gagnvart löndum utan Schengen-svæðisins eins og Bandaríkjunum, Kanada, Færeyjum, Rússlandi sem og til að mynda Evrópusambandsríkjunum Bretlandi og Írlandi sem staðið hafa utan samstarfsins.

Verði þessar hugmyndir að veruleika, sem að öllum líkindum er aðeins tímaspursmál, þýddi það að landamæraeftirlit hér á landi yrði ekki lengur á forræði íslenzkra stjórnvalda heldur undir beinni yfirstjórn sambandsins. Fyrr en síðar eigum við Íslendingar að öllum líkindum eftir að standa frammi fyrir því vali að segja okkur frá Schengen-samstarfinu og sjá aftur að fullu um eigin landamæragæzlu í stað þess að fela hana meðal annars ríkjum Evrópusambandsins í Suður- og Austur-Evrópu eða sætta okkur við að yfirstjórnin í þeim efnum færist alfarið til sambandsins án þess að hafa nokkuð framvegis um þau mál að segja.

Einn helzti gallinn við Schengen-samstarfið er að það hegðar sér í grunninn með sama hætti og Evrópusambandið sjálft á því afmarkaða sviði sem það nær til. Þannig er þróun þess sífellt í átt til aukins samruna og miðstýringar. Það sama á við um EES-samninginn. Það nýjasta í því sambandi eru fréttir um að framkvæmdastjórn sambandsins vilji skylda ríki Schengen-svæðisins til þess að veita ákveðnum fjölda hælisleitenda sem komizt hefur inn fyrir ytri mörk þess að undanförnu hæli að viðlögðum ákveðnum refsiaðgerðum neiti þau að taka þátt. Nokkuð sem samstarfið hefur aldrei snúizt um.

Flestir virðast á því að við Íslendingar eigum að taka við fleiri flóttamönnum en stjórnvöld höfðu áður gert ráð fyrir þó skiptar skoðanir séu um nákvæmlega hversu marga. Hins vegar er vitanlega fullveldismál hvernig staðið er að slíkri ákvarðanatöku. Hvort ákvarðanir í þeim efnum eru teknar af íslenzkum stjórnvöldum eða í þessu tilfelli Evrópusambandinu. Svo ekki sé talað um ef hótunum um refsiaðgerðir er einnig fyrir að fara.

hjortur@mbl.is

Hjörtur J. Guðmundsson

Höf.: Hjörtur J. Guðmundsson