Gull Willy Weyhrauch og Bjarki Már Elísson með bikarinn.
Gull Willy Weyhrauch og Bjarki Már Elísson með bikarinn. — Ljósmynd/Füchse Berlín
Handknattleiksþjálfarinn Erlingur Richardsson og hornamaðurinn Bjarki Már Elísson hafa svo sannarlega fengið fljúgandi start með sínu nýja félagi, Füchse Berlín.

Handknattleiksþjálfarinn Erlingur Richardsson og hornamaðurinn Bjarki Már Elísson hafa svo sannarlega fengið fljúgandi start með sínu nýja félagi, Füchse Berlín. Þeir hrósuðu í gær sigri í heimsbikar félagsliða í Katar og lögðu þar Aron Pálmarsson og samherja hans í ungverska stórliðinu Veszprém, 28:27, í framlengdum úrslitaleik.

Auk þess að fá titilinn heimsmeistari félagsliða 2016 fékk Füchse ávísun upp á 400 þúsund evrur, eða tæpar 58 milljónir íslenskra króna, sem voru sigurlaunin í keppninni.

Bjarki Már, sem tryggði Füchse sigur á Evrópumeisturum Barcelona í undanúrslitunum, skoraði tvö mörk, bæði úr vítaköstum, og gerði þau með stuttu millibili í fyrri hálfleiknum. Aron gerði eitt mark, jafnaði metin í 24:24 þegar fjórar míútur voru eftir, og það voru líka lokatölur venjulegs leiktíma.

Kent Robin Tönnesen var hetja Füchse í framlengingunni þar sem hann skoraði þrjú af fjórum mörkum Berlínarrefanna. Hann var markahæstur með 6 mörk. Renato Sulic gerði 8 mörk fyrir Veszprém.

Füchse vann sér keppnisrétt á mótinu með því að verða EHF-meistari í vor, þá undir stjórn Dags Sigurðssonar. Füchse er fyrsta þýska liðið í fjögur ár sem vinnur keppnina en Barcelona hafði unnið tvö undanfarin ár.

Guðjón Valur Sigurðsson skoraði 3 mörk fyrir Barcelona sem vann auðveldan sigur á Sydney University frá Ástralíu, 30:20, í leiknum um bronsverðlaunin.