Orðstír Catherine Eyjólfsson og Erik Skyum-Nielsen með viðurkenningarnar á Bessastöðum.
Orðstír Catherine Eyjólfsson og Erik Skyum-Nielsen með viðurkenningarnar á Bessastöðum. — Morgunblaðið/Styrmir Kári
Silja Björk Huldudóttir silja@mbl.is Catherine Eyjólfsson og Erik Skyum-Nielsen veittu við hátíðlega athöfn í gær viðtöku nýrri heiðursviðurkenningu sem nefnist Orðstír og ætluð er þýðendum íslenskra bókmennta á erlend mál.

Silja Björk Huldudóttir

silja@mbl.is

Catherine Eyjólfsson og Erik Skyum-Nielsen veittu við hátíðlega athöfn í gær viðtöku nýrri heiðursviðurkenningu sem nefnist Orðstír og ætluð er þýðendum íslenskra bókmennta á erlend mál. „Þessi viðurkenning er mér mikið gleðiefni og heiður. Mér þykir vænt um að sjónum sé beint að þýðendum og starfi þeirra, því þeir eru ansi oft býsna ósýnilegir,“ segir Catherine.

Spurð hvers vegna hún hafi snúið sér að þýðingum á sínum tíma segist Catherine alltaf hafa haft mjög gaman af bókum. „Ég hef frá blautu barnsbeini lesið mjög mikið. Þegar ég komst á eftirlaun hafði ég meiri tíma til að lesa auk þess sem mér fannst að ég þekkti íslenskt mál nógu vel til þess að ég gæti farið að þýða. Einnig ríkti hjá mér löngun til að deila með samlöndum mínum heima í Frakklandi þessum frábæru skáldverkum sem ég hafði kynnst hér,“ segir Catherine, sem hefur frá árinu 1996 þýtt yfir 40 íslensk verk, þar á meðal um 15 skáldsögur auk ljóða og styttri verka.

Þýðir bara bækur sem hrífa

Fyrsta bókin sem Catherine þýddi var Svanurinn eftir Guðberg Bergsson, sem út kom hjá Gallimard-útgáfunni árið 1996. „Ég var mjög hrifin af bókinni. Þar sem þetta var fyrsta bókin sem ég þýddi var ég svolítið óörugg, en fékk góða hvatningu frá Gallimard-útgáfunni sem reyndist mér mjög vel,“ segir Catherine og tekur fram að hún þýði einvörðungu bækur sem hún hrífist af. „Það eru auðvitað mikil forréttindi að geta einskorðað sig við bækur sem maður hrífst af,“ segir Catherine og bendir á að hún hafni verkefnum ef sér lítist ekki nógu vel á bókina sem hún er beðin fyrir.

Spurð hvort einhver bók hafi verið eftirminnilegri í þýðingu en aðrar svarar Catherine: „Mér þykir mjög vænt um allar þær bækur sem ég hef þýtt og get ómögulega gert upp á milli þeirra,“ og tekur fram að Svar við bréfi Helgu eftir Bergsvein Birgisson sé sér enn mjög ofarlega í huga, enda síðasta bókin sem hún þýddi. „Ég var mjög hrifin af þeirri bók. Hún er mjög íslensk og fólst mikil áskorun í því að reyna að þýða hana.“

Catherine finnst gaman þegar bækur sem hún hefur þýtt falla í góðan jarðveg í Frakklandi. „Mér þótti einstaklega gaman að Afleggjarinn eftir Auði Övu Ólafsdóttur skyldi slá í gegn í Frakklandi,“ segir Catherine. Spurð hvort hún finni fyrir auknum áhuga meðal landa sinna á íslenskum bókum svarar Catherine því játandi. „Ég held það sé Eric Boury, vini mínum og kollega, að þakka að dyr hafa opnast fyrir íslenskar nútímabókmenntir í Frakklandi. Eric er svo afkastamikill og vinnur afar vel,“ segir Catherine, en Boury hefur m.a. þýtt bækur Arnaldar Indriðasonar og Jóns Kalmans Stefánssonar.

Spurð hvers vegna Ísland hafi orðið fyrir valinu til búsetu segir Catherine langa sögu liggja þar að baki. „Þetta byrjaði sem ástarsaga. Ég kynntist eiginmanni mínum heitnum, Emil Eyjólfssyni, sem var sendikennari við Sorbonne-háskóla í París þar sem ég var í námi. Við bjuggum saman í Frakklandi í 12 ár áður en við ákváðum að flytja til Íslands árið 1972,“ segir Catherine, sem um árabil kenndi frönsku, fyrst við MT og síðan MH, áður hún sneri sér að þýðingarstörfum. Innt eftir því hvert verði næsta þýðingarverkefni hjá sér segist Catherine hafa augastað á nýjustu bók Kristínar Ómarsdóttur, sem nefnist Flækingurinn . „Ég er mjög hrifin af þessari bók og langar að þýða hana en er enn ekki komin með útgefanda.“

Felur í sér endursköpun

„Þessi viðurkenning kom mér þægilega á óvart en þetta er ofsalega góð hvatning. Ég finn fyrir miklum áhuga á íslenskum bókmenntum í heimalandi mínu og mun halda áfram að þýða þar til yfir lýkur,“ segir Erik. Í ár er liðið 41 ár síðan hann fluttist til Íslands til að taka við stöðu sendikennari í dönsku við Háskóla Íslands, sem hann gegndi í fjögur ár. Aðspurður segist Erik hafa þýtt fyrstu bók sína haustið 1976. „Ástæða þess að ég fór að þýða var sú að Thor Vilhjálmsson, sem varð góður og náinn vinur minn, var tilnefndur til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs fyrir skáldsögu sína Fuglaskottís . Ég þýddi bókina á nokkrum mánuðum og hitti Thor reglulega á þeim tíma þar sem hann fór yfir þýðinguna mína og gaf mér góðar ábendingar. Samstarf okkar skilaði sér í betri þýðingu, en veitti mér líka ómetanlega innsýn í hvernig miklir listamenn vinna og hugsa,“ segir Erik, sem í framhaldinu tók sér það fyrir hendur að setja saman safnrit með þýðingum á prósa íslenskra samtímaskálda á borð við Thor, Jakobínu Sigurðardóttur og Véstein Lúðvíksson. „Sú bók kom út 1981. Á þeim tíma var ég einnig farinn að þýða ljóð Einars Más Guðmundssonar, sem skilaði sér í ljóðasafni undir titlinum Frankensteins kup ,“ segir Erik og bendir á að samstarf þeirra Einars Más hafi verið óslitið allar götur síðan, en nú á haustmánuðum kemur nýjasta skáldsaga hans, Hundadagar , út samtímis á íslensku og dönsku.

Spurður hvort einhver af þeim mörgu bókum sem hann hafi þýtt úr íslensku sé eftirminnilegri en önnur segir Erik ómögulegt að svara því. „Ég get ekki gert upp á milli bókanna. Mér finnst ég í öllum þýðingum mínum hafa haft möguleika á því að endurskrifa verk annars og komast nálægt sköpunarferlinu. Þýðing getur aldrei verið vélræn yfirfærsla frá einu tungumáli til annars,“ segir Erik og bendir á að Google translate sé gott dæmi um hve illa slík vélræn yfirfærsla geti farið.

„Þýðing felur ávallt í sér endursköpun þar sem merking jafnt sem form er flutt milli tungumála og yfir menningarleg, landfræðileg og sálræn landamæri. Slík færsla krefst mikils af þýðandanum, sem þarf jafnframt að vera fær um að setja sjálfan sig til hliðar. Eitt af því sem gerir þýðingarvinnuna jafn heillandi og raun ber vitni er að hún veitir manni frelsi undan sjálfum sér þegar maður gerist þjónn annarrar manneskju. Sjálfum finnst mér óendanlega heillandi að sökkva mér ofan í meðvituð og ómeðvituð áform rithöfundarins í sköpunarferli hans,“ segir Erik og tekur fram að sem standi sé hann heillaður af Undantekningunni eftir Auði Övu Ólafsdóttur, en bókin er væntanleg á dönsku í þýðingu Eriks nú á haustmánuðum. „Textar Auðar búa yfir yndislegri hlýju, yndisþokka, visku og hyggindum. Þegar maður hefur upplifað þá blöndu af angurværð, sársauka og visku sem verk hennar bjóða upp á fyllist maður eldmóði við að miðla því yfir á dönsku.“

Inntur eftir því hvað sé fram undan hjá sér nefnir Erik tvær bækur sem hann hlakki til að fara að þýða. „Fyrri bókin er Suðurglugginn eftir Gyrði Elíasson, sem er ein sorglegasta bókin sem ég hef nokkurn tímann lesið, en hún er mjög falleg,“ segir Erik, sem lokið hefur við að þýða Koparakur , Nokkur almenn orð um kulnun sólar og Hér vex enginn sítrónuviður . „Síðan hefur mig lengi dreymt um að þýða Tómas Jónsson metsölubók eftir Guðberg Bergsson, því að hún er lykilrit í samtímabókmenntum Íslendinga,“ segir Erik, en útgáfufyrirtækið Sisyfos mun gefa hana út.