Gísli Thoroddsen fæddist í Reykjavík 6. desember 1949. Hann lést á Líknardeild Landspítalans í Kópavogi, 2. september 2015.

Foreldrar Gísla voru þau Oddur Birgir Thoroddsen, skipstjóri, f. 10. október 1911, d. 2. janúar 1969, og Hrefna Gísladóttir Thoroddsen, húsfreyja og félagsmálafrömuður, f. 4. júní 1918, d. 13. maí 2000. Árið 1972 kvæntist Gísli Bryndísi Þorbjörgu Hannah, f. 28. maí 1950. Foreldrar hennar voru þau Sigurbjörg Guðmundsdóttir Hannah, f. 11. ágúst 1922, d. 18. júlí 1996, og Georg Eggert Hannah, úrsmíðameistari, f. 5. apríl 1916, d. 21. júní 1986. Bræður Gísla eru Börkur Thoroddsen, tannlæknir, f. 30 janúar 1942, og Ragnar Stefán Thoroddsen, húsgagnameistari, f. 17. desember 1943. Gísli og Bryndís eignuðust þrjú börn: 1) Arnar Eggert Thoroddsen, f. 18. febrúar 1974, kvæntur Móheiði Hlíf Geirlaugsdóttur, f. 17. mars 1976. Dætur þeirra eru Ísold Thoroddsen, f. 2. janúar 2005 og Karólína Thoroddsen, f. 19. desember 2006. 2) Curver Thoroddsen, f. 1. febrúar 1976, sonur hans og Ragnheiðar Gestsdóttur, f. 19. ágúst 1975, er Hrafnkell Tími Thoroddsen, f. 9. maí 2008. 3) Eva Engilráð Thoroddsen, f. 27. ágúst 1981, gift Friðriki Hjörleifssyni, f. 30. júní 1979. Börn þeirra eru Sunna Thoroddsen Friðriksdóttir, f. 26. október 2004, og Reginn Thoroddsen Friðriksson, f. 27. janúar 2007.

Gísli ólst upp á Ásvallagötunni í Vesturbæ Reykjavíkur. Hann lauk námi í matreiðslu árið 1971 á veitingahúsinu Brauðbæ og sótti sér síðan starfsreynslu til Danmerkur í tvö ár, vann m.a á Balkonen í Tívolí, Sheraton, Grand Hótel og Hótel Codan. Er heim kom varð hann fljótlega yfirmatreiðslumaður á Brauðbæ sem seinna varð Hótel Óðinsvé. Árið 1991 hóf hann veitingarekstur í Perlunni ásamt öðrum og sinnti þeim starfa fram á vor á þessu ári, eða á meðan heilsan leyfði. Á áttunda og níunda áratugnum fór hann utan í matreiðslukeppnir og vann til fjölda verðlauna og átti síðar eftir að þjálfa nemalandslið Íslands. Hann útskrifaði og leiðbeindi hundruðum matreiðslunema og var sveinsprófsdómari á árunum 1984-1996.

Gísli sinnti matreiðslustörfum í opinberum veislum fyrir frú Vigdísi Finnbogadóttur forseta í tólf ár og sem slíkur eldaði hann ofan í fjölda þjóðhöfðingja um allan heim. Hann var meðlimur í Club des Chefs des Chefs (Alþjóðleg samtök matreiðslumanna þjóðhöfðingja), í Klúbbi matreiðslumeistara og í Félagi matreiðslumanna og sinnti hann ýmsum félags- og ábyrgðarstörfum á þeim vettvangi. Hann fór sem gestakokkur hjá Cunard-skipafélaginu í ferð árið 1996 og kynnti sér matreiðsluhætti í skólum og á hótelum í Grænlandi í þremur ferðum þangað. Uppskriftir eftir Gísla hafa þá birst í Gestgjafanum. Gísli var skáti á yngri árum og studdi við starf þeirra alla tíð. Hann var mikill áhugamaður um bridge og skák og sinnti þeim áhugamálum í gegnum klúbba sem hann og æskufélagar hans stofnuðu til á tvítugsaldri.

Útför Gísla fer fram frá Fríkirkjunni í Reykjavík í dag, 11. september 2105, kl. 13.

Þegar ég fletti Morgunblaðinu daginn eftir að faðir minn lést og horfði á andlátsfréttina – frétt sem ég skrifaði sjálfur – fór um mig óraunveruleikatilfinning. Það var eins og ég væri að horfa framan í sjálfan mig. Og fyrir ofan myndina stóð „Andlát“ en ekki „Gefur út matreiðslubók“. Það að pabbi sé farinn er eitthvað sem ég er enn að melta.

Samband okkar pabba gat verið erfitt og ég vissi aldrei almennilega af hverju. Við vorum eins og tveir bitar í púsluspili sem ekki er hægt að troða saman. Einkennileg spenna sem virtist bara vera þarna. Það er þó sennilega réttara að við vorum einfaldlega of líkir til að ná almennilega saman. Ég er ekki að segja neinar fréttir hérna, að mörgu leyti var þetta klassískt samband föður og elsta sonar og þetta var eitthvað sem við háðum okkar á milli. Að öðru leyti sinnti pabbi okkur öllum af ræktarskap, ól fyrir okkur önn, hjálpaði eins og hann gat, lék með okkur í Lego, horfði með okkur á Rambo og mætti á fótboltaleikina. Pabbi var góður drengur og hljóp undir bagga hjá manni á margvíslega vegu. En ég þurfti eitthvað meira; eitthvað sem mér fannst ég aldrei fá, eitthvað sem mér fannst hann ekki geta gefið. Þetta truflaði mig.

Þegar dró að ævilokum gerðust hlutir á milli okkar sem hafa sett þetta allt saman í nýtt ljós. Við hittumst oft á Líknardeildinni og ég fann að eitthvað var breytt. Mér leið vel og við áttum áður óþekktar, spennulausar stundir sem ég naut. Einn daginn vorum við í einrúmi og pabbi tók sig til – algerlega að eigin frumkvæði – og gerði upp allt það sem hafði íþyngt okkur í gegnum tíðina með nokkrum setningum. Hann gerði þetta af slíkri reisn, heiðarleika, einurð og ást að öll sú gremja sem ég enn ríghélt í gufaði upp á tveimur nanósekúndum. Sjálfur var ég, til allrar hamingju, kominn á þannig stað þroskalega að ég gat tekið fullkomlega á móti þessu. Púsluspilin smullu allt í einu saman. Og ég skildi hluti sem ég hafði aldrei skilið áður.

Ég sagði honum í framhaldinu að ég væri viðkvæmur og næmur. Þannig úr garði gerður að ég þyrfti mikið af ást og mikla athygli. „Ég veit það,“ sagði hann þá. „Ég bara kunni þetta ekki.“ Við vorum báðir tárvotir og hann hélt utan um báðar hendurnar mínar, horfði djúpt í augun á mér, andlitin snertust næstum því. „En þó að ég hafi ekki getað sýnt þetta þá er þetta allt þarna inni.“

Síðasta kvöldið sem hann lifði heimsóttum við hann öll, börnin og barnabörnin. Hann var enn með rænu og gaf allt sem hann átti í þessar síðustu stundir. Ég var einn með honum í smástund, teygði mig að honum og faðmaði fast, en faðmlögin hans voru þéttari og lengri þessa síðustu daga. Og hann hvíslaði þá í eyrað mitt þessi orð sem við þráum öll að heyra: „Ég elska þig.“

Sum setja upp falskt bros.

Sum alls ekki.

Og sum gátu aldrei sagt þér,

að ástin var svo rík og sönn.

(Eitzel, M. 1988.)

Ég elska þig. Þinn,

Arnar.

Okkur langar til að minnast Gísla frænda, yngsta bróður pabba okkar. Skemmtilegri mann var varla hægt að finna. Hann var alltaf með bros á vör og ljúfmennskan geislaði af honum. Hann var mikill húmoristi sem hafði alveg einstaka sýn á lífið. Við eigum öll mjög góðar minningar af því þegar við fórum í heimsókn til Bryndísar og Gísla í Fjarðarásinn og síðar á Sólvallagötuna. Það var alltaf svo góður andi í kringum þau og gott að vera í návist þeirra. Ekki spillti maturinn fyrir í heimsóknunum, en Gísli var náttúrulega frábær kokkur. Gísli gekk alltaf strax í málin og var alltaf boðinn og búinn til að hjálpa. Einu sinni var verið að undirbúa jólamatinn og var hann spurður ráða um hvar maður fengi hreindýr var svarið: „Ég renni við hjá ykkur með almennilegt kjöt, það er tómt drasl í búðunum“. Hálftíma síðar var Gísli mættur heim með dýrindishreindýrasteik. Þegar pabbi var að missa vitið við samsetningu á gasgrilli mætti Gísli og reddaði málunum, hann skírði dúkkur Hrefnu og Hörpu og gerði það svo listavel að við héldum að hann væri líka prestur, hann kenndi okkur líka að gera krans úr blómum og reddaði sumarvinnu ef þurfti. Gísli og Bryndís hafa verið dugleg að ferðast og meðal annars heimsótt Völu og Birgi þar sem þau bjuggu í Bandaríkjunum.

Allar þessar minningar eru ljóslifandi og munu alltaf ylja okkur. Þau hjónin voru mjög samrýnd og samband þeirra hjóna mjög fallegt. Þegar Gísli var orðinn mjög veikur og var að segja sögur, þá tók Bryndís við sögunni sem hann var að segja þegar hann var orðinn þreyttur í röddinni. Það fannst okkur svo fallegt og lýsandi fyrir þau. Hann sýndi ótrúlegt æðruleysi í veikindum sínum og lét þau ekki stoppa sig í að segja sögur og brandara.

Elsku Bryndís, það er aðdáunarvert að fylgjast með því hvað þú ert búin að standa þig vel í þessu erfiða ferli. Mikið var Gísli lánssamur að eiga þig að og að sama skapi þú að hafa átt hann að. Elsku Bryndís, Arnar, Curver og Eva, við sendum ykkur okkar innilegustu samúðarkveðjur. Minning um einstakan gleðigjafa lifir.

Birgir, Vala, Hrefna

og Harpa.

Látinn er Gísli Thoroddsen, samstarfsmaður og vinur okkar til margra ára. Fráfall hans var ótímabært og mikil sorg kveðin að fjölskyldu hans. Það er margs að minnast, margar góðar stundir við leik og störf á langri samferð og minning Gísla mun lifa með ástvinum hans og vinum. Eins og hendi sé veifað er leiksviðinu skipað upp á nýtt, nú með öðrum leikurum, samt sama leikritið og leikstjórinn en allt leiksviðið breytt.

Við minnumst hve gaman var að uppskera og starfa með Gísla, fá að upplifa fölskvalausa lífsgleði hans og margbreytileika. Gísli var yfirleitt maður dagsins, hann var mjög opinskár í skoðunum, innilegur og góðgjarn, enda vinamargur og vinsæll. Lífsskoðanir Gísla voru einfaldar, þar fór maður sem kallaði ekki allt ömmu sína,Gísli þorði nefnilega að vera heiðarlega einlægur. Hann var vel að sér um matreiðslu og hefði etv. mátt kalla hann „fag-idiot“ eða smámunasaman en Gísli vildi hafa rétt rétt. Þýskur hrísgrjónagrautur er jú alltaf Riz L´Allemande en ekki Ris a la mandle, sama hvað hver segir. Það stendur þannig í dönsku matreiðslu biblíunni.

Kynni okkar og samstarf hófust árið 1970, þá var haldið veglegt afmælisboð SVG í Þjóðleikhúskjallaranum, þar var Gísli starfandi sem matreiðslunemi að láni frá Hressingarskálanum. Þau kynni leiddu af sér óslitið vinnu- og vináttusamband í 45 ár. Fyrst í Brauðbæ og Hótel Óðinsvéum og þá í Perlunni, þar sem Gísli starfaði og var við stýrið ásamt Stefáni í slétt 25 ár, eða þar til yfir lauk. Á þessum 45 árum brölluðum við margt, það má eiginlega segja að ef okkur skorti verkfærin – þá var byrjað á því að búa þau til svo gengið til verks. Smáar veislur eða stórar ekkert mál – við félagarnir þrír gengum þroskabrautina saman og mættum því sem að hendi bar og leysa þurfti. Við urðum í tímans rás Perluvinir og gengumst við við því nafni.

Auðvitað verður aldrei komist hjá því að misvindar blási, en alltaf hélt skipið okkar réttum kúrs. Einhverju sinni þótti freistandi að selja mat „út úr húsi“ í Brauðbæ en Gísli var á annarri skoðun og orðaði það svo að það mætti jú gerast stundum – en ekki alltaf. Við fundum sameiginlega lausn á málinu og auglýstum eftirleiðis í Mogganum „sendum stundum heim“ – það gekk ágætlega eftir og vakti kátínu manna. Hafsjór er til af sögum um Gísla, einhver orðaði það hve erfitt væri að hætta að reykja, Gísl kom þar kankvís að og sagði það lítinn vanda; ég veit allt um það, búinn að hætta 29 sinnum og það var ekkert mál.

Gísli annaðist fjölmörg trúnaðarstörf á starfsferli sínum, m.a. á vegum ríkisins og embættis forseta Íslands varðandi móttökur erlendra þjóðhöfðingja. Þá var honum Hótel- og veitingaskólinn afar hugleikinn, hann starfaði þar í fjölda ára í prófnefnd og lét gott af sér leiða. Gísli var fremstur meðal jafningja í framvarðasveit íslenskra matreiðslumeistara, sem hófu faglega þáttinn í íslensku veitingahúsaflórunni til vegs og virðingar á heimsvísu. Afrek sem Ferðaþjónustan hefur lyft sameiginlega í atvinnusköpun landsmanna væri ekki til án þeirra sem vildu sífellt gera betur. Þannig var Gísli Thoroddsen að upplagi, bara að nefna það – ekkert mál. Þessa setningu hafði hann oft yfir og breytti sjálfur samkvæmt því.

Nú í seinni tíð talaði hann um hve gott væri að taka einn dag fyrir í einu og láta það duga. Hann var sannfærður um að þar lægi stór hluti lausnar lífsgátunnar. Ef maður breytir eins og maður predikar, þá verður allt auðveldara. Skömmu fyrir andlát Gísla ræddum við saman um lífsgátuna eilífu. Hann var léttur í lund og sáttur við flest, þannig er gott að kveðja.

Gísli giftist æskuástinni sinni, Bryndísi Þ. Hannah, Vesturbæjarmey, sem var þar fædd og uppalin eins og Gísli. Þau áttu þrjú börn, Arnar, Birgi og Evu Engilráð, barnabörnin eru orðin fimm og syrgir nú fjölskyldan eiginmann, föður og afa. Við, ásamt starfsfólki Perlunnar, sendum Bryndísi og fjölskyldunni hugheilar samúðarkveðjur okkar. Blessuð sé minningin um góðan dreng, Gísla Thoroddsen.

Bjarni og Sigrún,

Stefán og Elín.

„Fastar,“ sagði Gísli þegar við stóðum í lok heimsóknar á líknardeildina fyrir um mánuði og föðmuðumst. „Það er svo hollt að fá gott faðmlag,“ bætti hann við og ég faðmaði hann eins fast og ég gat. Það var ekki fyrr en ég gekk út í sólina að ég skildi að hann hafði verið að kveðja mig í síðasta skipti.

Ég kynntist Gísla fyrir um 45 árum. „Hann er alltaf í rauðum sokkum,“ sagði Bryndís vinkona mín þegar hún sagði mér frá stráknum sem hún var orðin hrifin af. Það kom Rauðsokkahreyfingunni ekkert við, heldur var þetta árangursríkt ráð til að koma í veg fyrir að bróðirinn nappaði sokkunum hans. Og hann var kokkur, eins og Bryndís hafði óskað sér að mannsefnið yrði, og eldaði fyrir hana henni rétti eins og á Sælkeranum, sem hún féll fyrir í þá daga, og enn girnilegri krásir. Hann var rómaður matreiðslumaður, síðast í Perlunni, sem þau hjónin áttu og ráku með fleirum. Vinirnir nutu líka, t.d. í ferðum í Brekkuskóg með börnin okkar lítil, í búningaboðunum frægu og í bústaðnum þeirra góða, Álfalundi.

Gísli sá um grínið, en það var með ólíkindum hvað hann kunni og mundi marga brandara og reytti þá óspart af sér. Glaðværð einkenndi hann alla tíð. Hann var m.a.s. glaður á líknardeildinni. Æðruleysið var allsráðandi og hann benti á að hann væri ekki þrítugur þegar dauðinn blasti við, heldur hafi hann fengið næstum sextíu og sex góð ár. Hann var að skipuleggja jarðarförina. Engum á að leiðast á meðan beðið verður eftir að athöfnin hefjist, né í henni sjálfri, heldur njóta þess að hlusta á Bítlalög, sem eru okkar kynslóð svo kær.

Bryndís og Gísli voru fyrst í vinahópnum til þess að ganga í hjónaband, sem minnir á skiptið þegar Gísli hætti að brosa. Brúðkaupið var 1. apríl og brúðurin ekki komin klukkan kortér yfir tilsettan tíma. Það fór líka um gestina. En Bryndís skilaði sér. Hún hafði gleymt brúðarvendinum og Gísli brosti á ný og brosti svo áfram með henni í á fimmta áratug.

Nær tveimur árum síðar urðu þau fyrst okkar til að eignast barn, en fyrst létu þau draum rætast og bjuggu í Kaupmannahöfn þar sem Gísli vann í Tívolí og á nokkrum hótelum. Á Præstögade var gestrisnin í hávegum og margir fengu að gista, m.a. undirrituð.

Börnin urðu þrjú, öll foreldrunum til gleði. Þar á listin ríkan þátt; mynd- og tónlist og gaman að minnast uppákomanna þegar öll fjölskyldan, grafalvarleg á svip, blæs í, strýkur og/eða hamrar á hljóðfæri sem ekkert þeirra kann þó á. Allt er tekið upp og sýnt á listsýningum yngri sonarins.

Nú síðast „spiluðu“ þau í garðinum fyrir framan líknardeildina. Húmorinn var enn til staðar og hefur erfst til næstu kynslóðar.

Enn eru þau fyrst okkar vinanna, Gísli að kveðja og Bryndís þar með að verða ekkja. Við hin verðum að muna að njóta hvers dags sem við fáum og ættum öll að læra af jákvæðni og stillingu Gísla þegar á bjátar. Ég bið Guð að taka öðlingnum Gísla Thoroddsen opnum örmum í ríki sitt. Megi hann líka umvefja, vernda og styrkja Bryndísi, Arnar, Curver, Evu og barnabörnin fimm.

Fari kær vinur í friði og hafi þökk fyrir góða samfylgd.

Helga Möller.

Ég skrifa þessa litlu minningagrein um minn gamla góða vin og matreiðslugoð, Gísla Thoroddsen, hans minnast allir með hlýju.

Ég kynntist Gísla fyrir þrjátíu árum þegar hann var prófdómari í Hótel- og veitingaskóla Íslands. Sjö árum síðar lágu leiðir okkar aftur saman, þegar ég hóf störf sem matreiðslumaður í Perlunni, árið 1992.

Þar unnum við saman í tíu ár og var það ómetanleg reynsla og gæfa að fá það tækifæri að kynnast þessum höfðingja betur. Við unnum einnig saman um tíma fyrir forsetaembættið, bæði fyrir frú Vigdísi og hr. Ólaf, og áttum við saman ótal stundir sem voru hverri annarri skemmtilegri.

Mér þótti afar vænt um þennan glaða og skemmtilega vin minn sem var vinur vina sinna. Fólk laðaðist að honum og kokkanemar hans dáðu hann, enda var Gísli gæddur manngæsku og hlýju.

Ég er afar þakklátur fyrir þann stuðning sem Gísli veitti mér þegar ég tók þátt í Bocuse d'Or-keppninni 1999, Gísli og Perlan ruddu brautina með mér.

Ég tel það vera forréttindi að hafa fengið að kynnast slíkum mannkostamanni sem Gísli var, heimurinn er fátækari nú þegar hann er allur.

Blessuð sé minning þessa litríka, skemmtilega og góða starfsfélaga og vinar. Við Freyja vottum Bryndísi og börnum hina dýpstu samúð.

Sturla Birgisson.

Gísli Thoroddsen, meistarakokkur og húmoristi, okkar besti og kærasti vinur, er farinn eftir snörp og erfið veikindi.

Minningarnar renna í gegnum hugann, ferðalögin okkar með Gísla og Bryndísi til útlanda sem settu svip á líf okkar stóran hluta ársins, fyrst að skipuleggja, þá að upplifa og síðan að ylja sér við að rifja þær upp. Að minnsta kosti tvisvar á ári fórum við í dásamleg ferðalög saman.

Og ferðirnar eru margar og fjölbreyttar, siglingarnar standa upp úr en einnig Ítalíu- og Frakklandsferðir. Við fjögur gátum verið saman í nokkrar vikur í senn, allan sólarhringinn og aldrei slettist upp á vinskapinn.

Við matarborðið um borð í skemmtiferðaskipunum fengum við útskýringar á matseðlinum og hvernig réttirnir voru búnir til.

Og maturinn sem hann er búinn að elda fyrir okkur í öllum þessum ferðum, sérstaklega í húsunum sem við höfum tekið á leigu saman á Flórída, þvílíkur snillingur. Með í ferð var alltaf „litla eldhúsið“ hans pakkað nauðsynlegum græjum og kryddi til að töfra fram dýrindismáltíðir.

Ofarlega í huga eru líka allar yndislegu stundirnar í Álfalundi við Þingvallavatn. Þau Bryndís voru dugleg að bjóða okkur að gista og þar áttum við rólegar og skemmtilegar stundir saman. Og að sjálfsögðu fengum við alltaf gott að borða og vorum kvödd í hádeginu á sunnudeginum með brunch a la Gísli.

Eiki og Gísli þóttu afar líkir í útliti, þeir völdu sér of oft óafvitandi mjög svipaðan klæðnað og fengu mikið út úr því þegar þeir voru spurðir hvort þeir væru tvíburar, jú, það passar, við erum mæðrasynir. Bryndís á myndarlegt myndasafn af þeim „bræðrum“ saman við ýmsar aðstæður og tækifæri en þeir voru ekkert skyldir, bara bestu vinir.

Skemmtilegri og fróðari maður er vandfundinn. Hann hafði áhuga á öllu mögulegu, las mikið og upplýsti okkur um allskonar fróðleik og einnig margt skrýtið og skemmtilegt.

Eins og allir vita sem þekktu Gísla mundi hann alla brandara sem hann heyrði og deildi þeim með vinum og vandamönnum. Þeir voru örugglega miklu fyndnari þegar hann sagði frá, því hann kunni svo sannarlega að deila skemmtisögum. Hann var líka gjafmildur og góður, mátti ekkert aumt sjá.

Við vinir Gísla og ættingjar munum sakna hans óskaplega mikið en minningarnar munu ylja okkur það sem eftir er.

Elsku Bryndís, Arnar, Birgir og Eva. Tengdabörn og barnabörn.

Megi allir góðir vættir fylgja ykkur og hugga á erfiðum tímum framundan þegar söknuðurinn verður sárastur, við munum gera okkar besta til að fylgjast með ykkur og umvefja með sama kærleika og Gísli gaf okkur öllum.

Eiríkur og Margrét.

„Hæ, ég heiti Gíttli“ – fannst mér hann segja þegar ég hitti hann í fyrsta sinn fyrir um fjórum áratugum. Vissi ekki að hann var svolítið smámæltur og að hann heyrði heldur ekki vel. En, á þessum fjórum áratugum sem við höfum þekkst þá hef ég ekki þekkt mann sem að er jafn hreinskilinn, hjartahlýr – já og góður maður eins og hann Gísli vinur minn var. Alltaf boðinn og búinn til þess að hjálpa og veita góð ráð, gefa þær bestu uppskriftir að mat sem hugsast getur og vera einn minn besti vinur síðan þá.

Gísli og Bryndís pössuðu oft dætur okkar Kristínar þegar þær voru litlar er við fórum til útlanda en Kristín og Bryndís kynntust í Versló og hafa verið bestu vinkonur í næstum hálfa öld.

Gísli útbjó mat í brúðkaup okkar Kristínar og sá m.a um að síðasta saumaklúbbsboð heima hjá okkur hjónum í janúar sl. væri nú samkvæmt stöðlum Club des Chefs des Chefs, en það eru alþjóðleg samtök matreiðslumeistara, forseta og konunga í heiminum. Gísli var fyrsti Íslendingurinn sem öðlaðist þann heiður og sá eini sem hefur farið víða erlendis sem fulltrúi Íslands og matreitt íslenskan mat ofan í fjölmarga þjóðhöfðingja. Forsetakokkur frú Vigdísar Finnbogadóttur alla hennar forsetatíð.

Við höfum spilað bridge ásamt góðum vinum í aldarþriðjung, fyrst vikulega en hin seinni ár á tveggja vikna fresti. Er hans nú sárt saknað því hann var djarfur og skemmtilegur spilari sem stóð oftar en ekki sínar djörfu sagnir.

Við hjónin höfum farið með Bryndísi og Gísla í ótalmörg ferðalög, bæði innanlands og utan – og til annarra heimsálfa. Ferðalög sem eru okkur Kristínu ógleymanleg enda þau hjón einstaklega þægilegir ferðafélagar. Gísli þekkti marga kónga- og forsetakokka sem gáfu honum góð ráð hvert við ættum að fara að borða og því var oftar en ekki farið á staði sem okkur hefði ekki staðið til boða eða dottið til hugar að fara á.

En þó það sé dásamlegt að hafa fengið að njóta alls kyns „konunglegra“ kræsinga með honum þá var hann þó líka maður einfaldrar matargerðar. Eitt sinn er við hjón vorum í Róm fórum við Gísli tveir út að borða í hádeginu á pínulítið veitingahús sem var bara með þremur litlum borðum og ein „mamma“ sá um matinn. Gísli sagði oft að hann hefði sjaldan fengið jafngóðan mat og við fengum þá... svona ekta ítalskan einfaldan „mömmumat“.

Gísli hafði mikla og góða kímnigáfu og aldrei sá ég hann í leiðu skapi. Hann var einstaklega snöggur að öllu sem hann gerði og alltaf til í að vera með í prakkarastrikum, svo fremi sem þau kæmu ekki illa við aðra.

Er hann veiktist í lok janúar sl. þá tók hann veikindum sínum af einstöku æðruleysi og lauk öllum þeim verkefnum sem honum fannst hann eiga eftir. Góða skapið og skopskynið voru líka til staðar fram á síðasta dag.

Það hafa verið mikil forréttindi og heiður fyrir okkur Kristínu að eiga Gísla að vini. Við vottum Bryndísi, Arnari, Birgi, Evu og fjölskyldum þeirra okkar innilegustu samúð og megi góður Guð styrkja ykkur og blessa í ykkar miklu sorg.

Knútur Signarsson

og Kristín Waage.

Gísli vinur minn er látinn. Mínar fyrstu minningar af honum hef ég úr æsku. Við ólumst upp á Ásvallagötunni þar sem allir krakkar léku sér úti eins og þá tíðkaðist. Gísli var prakkarinn í götunni og ein fyrsta minning mín um Gísla frá Ásvallagötunni er þegar hann tók hlaupahjólið okkar Maju systur. Þetta var ég hreint ekki ánægð með, fór auðvitað inn til mömmu og kjaftaði frá. Mamma huggaði mig og sagði að Gísli ætti ekkert hlaupahjól, ég ætti bara að segja að hann mætti fá það lánað öðru hvoru. Þessa sögu rifja ég oft upp með ömmustelpunni minni, hún vill heyra hana aftur og aftur, og þannig lifir minningin áfram. Þegar ég flutti úr Vesturbænum slitnaði samband okkar Gísla um tíma.

Einhverjum árum seinna vildi svo til að við Bryndís vinkona mín vorum saman á ferð, og hún kynnist þá Gísla. Hann var enn sami prakkarinn og í fullum gír. Þá byrjaði okkar vinskapur fyrir alvöru sem aldrei hefur rofnað. Bryndís og Gísli fluttu saman til Kaupmannahafnar og bjuggu þar um tíma. Þau bjuggu í Præstøgade og ég var í næstu götu hjá afa og ömmu á sumrin. Mikið var um gesti á heimili Gísla og Bryndísar. Ég kom daglega, það var svo gaman að koma í heimsókn og alltaf var tekið vel á móti mér. Gott andrúmsloft, fjör og mikið var grínast og hlegið.

Seinna flutti ég til Kaupmannahafnar og Bryndís og Gísli heimsóttu okkur Allan oft, bæði í Eskildsgade og á Hvalsøvej. Margar yndislegar stundir höfum við átt saman þar. Gísli eldaði hjá okkur, eldhúsið var eins og sprengja á meðan á eldamennskunni stóð, en þegar henni var lokið var eldhúsið eins og eftir jólahreingerningu. Allan og Gísli voru oft saman í eldhúsinu og kenndi hann Allan margar kokkakúnstir. Gísli var ófeiminn og blátt áfram, vantaði hann orð í dönskunni skáldaði hann þau sjálfur, t.d. varð gervihnöttur að „forloren måne“.

Mínar síðustu minningar með Gísla voru þegar ég var heima í sumar.

Ég heimsótti Bryndísi og Gísla á Sólvallagötuna, sat á rúmstokknum hjá honum og við ræddum um heima og geima. Gerðum grín að dönsku stjórnmálunum, Henrik drottningarprins og töluðum um slifsatísku Dana í gamla daga. Gísli talaði líka um sín veikindi, hvernig hann hefði það þann daginn. Þrátt fyrir vanlíðan gat hann grínast og prakkarast eins og alltaf. Ég er þakklát fyrir að eiga góðar og skemmtilegar minningar um góðan og tryggan vin.

Elsku Bryndís, börn, tengdabörn og barnabörn, við Allan vottum ykkur innilega samúð, megi Guð styrkja ykkur í sorg ykkar.

Eva Jörgensen.

Ég veit ekki hvort þú hefur,

huga þinn við það fest.

Að fegursta gjöf sem þú gefur

er gjöfin sem varla sést.

Ástúð í andartaki,

augað sem glaðlega hlær,

hlýja í handartaki,

hjarta sem örar slær,

Allt sem þú hugsar í hljóði,

heiminum breytir til.

Gef þú úr sálarsjóði,

sakleysi, fegurð og yl.

(Úlfur Ragnarsson.)

Við hjónin kynntumst Gísla og Bryndísi er við vorum saman frumbyggjar á sömu hæð í stigahúsi í Kópavogi fyrir tæpum 40 árum. Þegar verið var að vinna í húsinu kom Gísli fram á gang í hvítum slopp, var strax ályktað að þarna væri læknir á ferð, en í ljós kom að þarna var frábær kokkur í hvítum slopp, síðar höfum við oft hlegið að þessu. Við bundumst vináttuböndum sem hafa enst og styrkst með hverju ári og verið dýrmæt. Okkur var snemma boðið yfir ganginn í mat og við gleymum aldrei bragðinu af nautasteikinni sem Gísli framreiddi. Var það ekki síðasta og eina boðið sem við nutum með þeim. Fljótlega kom í ljós að eiginkonurnar áttu sama afmælisdag sem varð til þess að við fögnuðum stóru dögunum okkar oft saman. Þegar við buðum þeim í mat í fyrsta skipti var ekki laust við að við hefðum smá áhyggjur hvernig Gísla fyndist maturinn, þeim áhyggjum eyddi hann strax á sinn ljúfa hátt, og mörg heilræðin sem hann gaf eru enn vel nýtt.

Við gátum endalaust spjallað, um lífið, ferðalög, tónlist, Bítlana, Olsen-bræður, bækur, börnin okkar, einnig um mat og góðir brandarar sjaldan langt undan, aldrei skorti umræðuefni.

Gísli var einstaklega hlýr, átti auðvelt með að faðma og tjá væntumþykju, stutt í bros og hress, en jafnframt auðmjúkur, fannst alltaf eins og hann gæti gert enn betur og fús að játa það. Hann var ekki bara frábær kokkur, einnig skák- og bridgemaður og handlaginn eins og kom í ljós í bústað þeirra á Þingvöllum. Hann var bóngóður og tilbúin að gera öðrum greiða og fengum við að njóta þess. Þegar við hugsum til Gísla þá er Bryndís þar, þau voru samhent hjón og er hennar missir mikill. Við erum þakklát fyrir allar góðu samverustundirnar og vináttuna öll árin, Gísla verður saknað.

Margt breyttist síðustu tvo mánuði, en aldrei þraut umræðuefni er Gísli tókst á við erfiðar aðstæður með einstöku æðruleysi með Bryndísi sem klett sér við hlið.

Því ég er þess fullviss að hvorki dauði né líf, englar né tignir...hæð né dýpt, né nokkuð annað skapað, muni geta gjört oss viðskila við kærleika Guðs, sem birtist í Kristi Jesú Drottni vorum.

(Rómverjabréfið 8:38-39.)

Bryndís mín, við biðjum Guð að blessa þig og fjölskyldu þína á þessum erfiða tíma.

Rósa og Ragnar (Raggi).

Með því dýrmætasta í þessu lífi er að eiga góða vini. Þegar þeir kveðja finnur maður hve „Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur“ er rétt. Allt of fljótt þarf ég nú að kveðja mjög góðan vin minn til fjölda ára, Gísla Thoroddsen.

Það má eiginlega segja að ég hafi ekki kynnst honum Gísla almennilega fyrr en sumarið 1973, þegar þau Bryndís bjuggu á Præstøgade í Kaupmannahöfn. Bryndísi hafði ég reyndar þekkt allt frá gagnfræðaskólaárunum. Þetta sumarið starfaði ég sem „snoremand“ í brugghúsi Tuborg og þá fyrst og fremst á næturvöktum. Ég var auðvitað eins og hálfgerð húsrotta hjá þessum elskulegu vinahjónum mínum og þegar Gísli var ekki á vakt í Tívoli, Sheraton eða á Grand, áttum við tveir okkar tíma saman. Sátum saman og spjölluðum í stofunni á Prestó, hlustuðum á tónlist, skelltum okkur í göngutúra um nágrennið, settumst jafnvel inn á hverfiskrána eða smelltum okkur í baðhúsið, en þar lærði ég af vini mínum hversu gott það er að láta sig vaða ofan í ískalda potta! „Hann er eins og bjölluhnappur!“ sagði Gísli við mig hlæjandi um leið og hann leit niður.

Árin líða hratt og gamli vinahópurinn, sem í raun varð til á unglingsárum okkar Bryndísar, hefur átt saman mjög margar skemmtilegar stundir. Sumarbústaðaferðirnar þegar börnin voru lítil voru á hverju sumri til að byrja með. Gísli var auðvitað yfirkokkur og þvílíkur veislumatur, sem hann bauð okkur alltaf upp á! Ógleymanleg og ómissandi voru og eru árvissu búningapartýin okkar í janúar, þar sem alltaf hefur verið fundið upp á nýju þema á hverju ári, en þau fara að nálgast 40. Þar hafa Gísli og Bryndís alltaf verið til í tuskið, m.a.s. var einu sinni sólarlandaferð í funheitu húsinu þeirra í stórhríð um hávetur. Þetta hafa verið frábær boð og Gísli var þar hrókur alls fagnaðar með sína ómissandi og óborganlegu brandara.

Fyrir fjölmörgum árum varð mannaskortur í spilaklúbbnum mínum og ég stakk upp á Gísla sem fjórða manni – vissi svo sem ekkert hvernig spilamaður hann væri – en allavega væri um skemmtilegan náunga að ræða. Gísli var auðvitað samþykktur inn í klúbbinn og höfum við spilað saman brids í tæplega fjörutíu ár. Ýmislegt hefur verið brallað og m.a. tókum við okkur til eitt árið og skelltum okkur til Río de Janeiro.

Skemmtileg ferð fyrir hópinn, sem endaði þó síðasta kvöldið með því að við Gísli lágum hvor á sínu hótelherberginu með sólsting, en eiginkonurnar fóru á flakk á meðan.

Alla tíð hefur verið mjög gott að leita til Gísla. Hann var ráðagóður og vildi alltaf allt fyrir alla gera. Það var sko ekki komið að tómum kofanum, þegar mann vantaði aðstoð varðandi matargerð eða veisluhöld. „Hvað get ég gert fyrir þig, Bjössi minn?“ eða „Hvað þarftu borðbúnað fyrir marga?“

Við Begga erum Gísla ævinlega þakklát fyrir að hafa verið aldeilis frábær vinur í gegnum árin. Við sendum Bryndísi, Arnari Eggerti, Birgi Erni, Evu Engilráð og fjölskyldum þeirra innilegar samúðarkveðjur vegna fráfalls yndislegs drengs og biðjum góðan guð að styrkja þau í sorg sinni.

Björn og Bergþóra.

Mér langar að minnast æskuvinar með fáeinum orðum. Við Gísli ólumst upp saman frá barnæsku á Ásvallagötunni. Á þessum uppvaxtarárum var mikið brallað, enda miklir orkuboltar og grallarar og fulleinbeittir í að lifa lífinu. Svo gerist það að ég flyt inn á Sundlaugaveg en við Gísli héldum ávallt vinskapnum. Síðan flyt ég aftur í Vesturbæinn, nánar á Sólvallagötu, og var bara eitt grindverk á milli okkar. Það var sko enginn hindrun fyrir fríska stráka.

Síðan lá leiðin í Gaggó Vest og þar bættust fleiri í hópinn á þessum árum og var töffaraskapurinn að byrja. Að lokum fórum við allir saman niður í Vonarstræti þar sem landspróf var til húsa. Strax eftir þá skólagöngu fór ég til náms í Danmörku og fóru nokkur bréfaskriftir á milli okkar á meðan ég var þar.

Þegar heim var komið gliðnaði svolítið á milli okkar eins og gerist og gengur, þá var hitt kynið komið inn í líf okkar.

Okkar vinskapur entist alla ævi og er ég mjög þakklátur fyrir að hafa heimsótt hann á líknardeild og hafa fengið að faðma hann innilega þessa síðustu daga sem hann átti eftir ólifaða. Ég vill votta Bryndísi, ásamt börnum og barnabörnum, innilega samúð, ásamt þeim bræðrum, Berki og Ragnari. Blessuð sé minning Gísla.

Gunnar Guðjónsson.

Fallinn er nú frá mikill skörungur og meistari. Gísli var mikill karakter í markmiðum sínum. Hann stóð fremur við rætur fjallsins og horfði upp á tindinn, fremur en niður. Hann stefndi alltaf á toppinn, var eldhugi að eðlisfari, fjölhæfur og hafði þörf fyrir fjölbreytni, hafði sérstakan áhuga fyrir verkefnum sem víkkuðu sjóndeildarhringinn, sóttist ætíð eftir þekkingu og nýjum áskorunum. Að upplagi var hann alla jafna fordómalaus, hress og frjálslyndur. Hann var framkvæmdamaður og „pælari“ að eðlisfari. Kyrrstaða og langvarandi hangs yfir sama verkefninu var ekki í hans anda. Hann þurfti sitt pláss.

Þeir voru ekki margir mánuðirnir sem það tók meinið að fella þennan öðling. Það var um síðustu áramót sem hann greindist fyrst. Þá tóku við rannsóknir og aðgerðir sem tóku töluvert á.

Það var í 29. júní sl. að ég droppa inn í Perluna og hitti Gísla. Hann hafði á orði að þetta væri næstsíðasti dagur hans í vinnunni að sinni.

Ég segi við hann, að hann skuli bara skella sér í sumarbústaðinn og slaka á og hvílast. Það er síðan 2. júlí að Gísli hringir í mig úr sumarbústaðnum og segir: „Raggi, ég ætla að segja þér fréttirnar, og góðu fréttirnar fyrst. Krabbameinið í lungunum er horfið, en hin fréttin er, að eitthvað fundu þeir í lifrinni. Við vonum bara það besta.“ Eftir aðeins fimm daga hringir Bryndís í mig og tilkynnir mér að hann hafi veikst hastarlega og verið fluttur á Landspítala. Síðan hrakaði heilsu hans stöðugt .

Við Gísli störfuðum saman um 12 ára skeið í prófnefnd matreiðslumanna og síðustu tvö ár höfum við verið í mjög nánu samstarfi með þátt á Útvarpi Sögu með Arnþrúði Karlsdóttur. Gísli varð þess heiðurs aðnjótandi að verða sæmdur heiðursmerki fyrir störf sín sem matreiðslumeistari forsetaembættisins í tíð frú Vigdísar Finnbogadóttur. Síðastliðin ár höfum við brallað ýmislegt og haft gaman af. Það var á þeim stundum sem ég skynjaði hvaða mann Gísli hafðir að geyma. Hann var vel inni í öllum málum matreiðslunnar. Ef eitthvað var ekki alveg á hreinu þá bara sagði hann: „Við bara gúglum þetta.“ Okkar samskipti hafa snúist í raun um mat og ekkert nema mat. Hann elskaði t.d. orly-fisk og Vínarsnitsel. Það var líka ógleymanleg stund sem við áttum þegar eldri klúbbmeistarar komu saman í Laugaási.

Við Gísli áttum það sameiginlegt að okkur þótti mjög vænt um íslenska lambið. Við vorum ekki sáttir með meðferðina á þessu frábæra hráefni fyrir og við slátrun. Það var nú verkefni sem langt í frá var búið og voru áform um að halda áfram í haust. Ég veit og er viss um að stuðningur Gísla verður mér til handa að fylgja því verkefni eftir, þótt úr annarri átt verði, en ætlað var. Eitt var það þó sem eftir var og hafði ekki verið komið í verk hjá okkur Gísla, en það var að við snæddum saman ekta „ömmu kótilettur“ með kartöflum, Ora baunum, rauðkáli og Gísla spes sósu með. Því ætla ég að biðja Gísla hér með, að hann hafi þetta klárt og tilbúið þegar við hittumst næst. Kæri vinur,

Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

(Vald. Briem)

Ragnar (Raggi) og fjölskylda.

Eins og sést, eins og sést, eins og sést

þá er ég alinn upp í Gaggó-Vest.

Gaggó-Vest, Gaggó-Vest,

gaf mér allt sem reyndist svo best.

Þessar ljóðlínur Ólafs Hauks Símonarsonar eiga einkar vel við nú þegar við félagarnir úr Gaggó Vest kveðjum vin okkar Gísla Thoroddsen. Gísli er sá fyrsti sem fer yfir móðuna miklu úr þéttum hópi vina sem myndaðist á Gaggó Vest árunum, fyrir hálfri öld, og haldið hefur góðu sambandi síðan. Á þessum tíma var allt að gerast, Bítlarnir og Rolling Stones að ná heimsyfirráðum í tónlistinni og námið varð á tímabili algert aukaatriði eins og sést;

Segðu mér hvaða ár hengdu þeir Krist?

Í hvaða bandi spilar Frans þessi Liszt?

Einn týndi bókinni annar gleymdi að lesa.

Af hverju kallar hann okkur lúsablesa?

Ekki vafðist það fyrir Gísla hvor hljómsveitin væri betri. Gísli var gegnheill aðdáandi Bítlana alla tíð. Ótal minningar koma upp í hugann um ljúfan, góðan og fórnfúsan vin. Það var alltaf tilhlökkun að koma þar sem Gísli var. Hann gat sagt brandara endalaust, var fullur af krafti og elju og hrókur alls fagnaðar, alltaf. Gísli skilur eftir sig stórt skarð. Hann var vinur vina sinna og sá alltaf jákvæða hlið á hverju máli.

Gísli var með eindæmum gjafmildur, við vinirnir fengum að kynnast því. Gjafmildin lýsti sér vel í því að ekki mátti hann ganga framhjá betlara án þess að ónáða hann með peningagjöf. Jafnvel þegar hann vissi að endalokin væru í nánd var hann samur við sig og veitti vinum sínum innsýn inn í hugarheim þess sem er að kveðja á einstakan hátt.

Vinahópurinn frá unglingsárunum hefur brallað margt saman í gegnum árin. Hluti af hópnum myndaði Skákklúbb fyrir 40 árum, sem síðan hefur hist aðra hverja viku. Seinasti Skákklúbburinn sem Gísli stóð fyrir verður lengi í minningunni, en hann var haldinn á líknardeild Landsspítalans.

Klúbburinn, ásamt mökum, hefur ferðast víða um lönd. Þar var Gísli, að sjálfssögðu, fremstur í flokki við val veitingastaða. Þegar fréttist að í hópnum væri Gísli Thoroddsen, félagi í hinum virtu samtökum Club des Chefs des Chefs, var stjanað við hópinn líkt og þjóðhöfðingi væri þar á ferð.

Gísli var líka ein aðalsprautan í Trivial Pursuit-hópnum sem hefur í mörg ár spilað nokkrum sinnum á ári ásamt mökum. Þar var hann á heimavelli, því Gísli var margfróður og átti oft svör við undarlegustu spurningum. Inntur eftir því hvernig hann vissi svarið sagði hann gjarnan „Ég las þetta fyrir löngu“. Síðan kom ítarlegri frásögn sem tengdist svarinu og bætti síðan jafnan við „annars veit ég ekkert um þetta“. Það væri hægt að halda lengi áfram og við úr Gaggó Vest munum sárt sakna Gísla.

Við vinirnir munum með tímanum tínast um borð í gula kafbátinn, einn af öðrum, þar sem Gísli mun vafalítið verða í sömu stöðu og faðir hans var – skipherrann.

Bergþór, Eiríkur,

Gilbert, Sigurður Heimir, Snorri og Úlfar.

Gísli Thoroddsen matreiðslumeistari er látinn, langt fyrir aldur fram. Gísli Thor var einn virtasti og besti matreiðslumeistari okkar Íslendinga. Hann var hafsjór af fróðleik um allt sem matreiðslu varðaði og deildi þeirri þekkingu til allra matreiðslumanna sem leituðu til hans, þá sér í lagi matreiðslunema sem Gísli hafði á sínum snærum. Gísli útskrifaði á annað hundrað matreiðslunema og það er klárt að þeir nemar hafa svo sannarlega farið með mikla þekkingu út á vinnumarkaðinn eftir lærdóm sinn hjá honum. Gísli var félagi í Klúbbi matreiðslumeistara og tók þátt í keppnum á vegum klúbbsins hér á árum áður og var einn af brautryðjendum á því sviði.

Gísli tók hin síðari ár virkan þátt í starfi Klúbbsins og mætti vel á fundi og hafði alltaf eitthvað fram að færa matreiðslunni til framdráttar.

Gísli var í orðu- og laganefnd klúbbsins ásamt undirrituðum. Það var einstaklega ánægjulegt að starfa með honum, hann var alla tíð mjög jákvæður og sá alltaf ljós í myrkrinu. Hann var réttsýnn og traustur félagi og vildi allt fyrir alla gera. Við í orðu- og laganefnd viljum þakka Gísla fyrir samstarfið sem aldrei bar skugga á.

Við kveðjum þennan litríka og yndislega félaga með söknuði, um leið og við vottum Bryndísi, börnum og allri fjölskyldu hans virðingu okkar. Megi góður guð styrkja þau í þeirra sorg. Hvíl í friði kæri vinur.

Orðu- og laganefnd Klúbbs matreiðslumeistara,

Lárus Loftsson, Einar

Árnason, Brynjar Eymundsson og Ingvar Sigurðsson.

Mér er það bæði ljúft og skylt að kveðja vin minn, Gísla Thoroddsen.

Ég kynntist Gísla fyrir hartnær 40 árum, þegar hann gerðist meðlimur Tígulsjöunnar. Ég kunni strax vel við Gísla, þarna var greinilega hamingjusamur maður á ferð, vel giftur og þau áttu efnileg börn.

Gísli lærði matreiðslu, starfaði í Kaupmannahöfn, Brauðbæ og síðast í Perlunni. Hann varð fljótt einn besti kokkur á Íslandi; matreiðslumeistari, Masterchef – hvað annað? Ekki eru slíkir listamenn á hverju strái. Eitt sinn þegar klúbburinn var haldinn hér þá hafði ég rétt sem í var örlítið kúmen. Ég fann ekkert bragð af því. Gísli smakkaði á matnum og spurði strax „Ertu með kúmen í þessu?“

Ég játti því og hugsaði: Þetta er ekki normalt, en eru ekki bragð- og lyktarskyn ein bestu tæki matreiðslumeistara? Starfslega séð var Gísli á réttri hillu í lífinu, frábær kokkur sem alltaf var duglegur að tileinka sér nýja strauma í matreiðslu. Oftar en ekki þegar ég var að vesenast í eldhúsinu og varð strand – hvað á ég að gera?

Hringja í Gísla, hann hafði alltaf tíma: þú gerir bara svona og svona þá ertu búinn að redda þessu.

Stundum þurfti ég að fá eitthvað lánað, ekkert nema sjálfsagt. Þegar ég spurði hvenær hann vildi að ég myndi ná í hlutinn: „Hvenær sem er,“ var svarið. Ég er varla búinn að leggja á tólið þá hringir dyrabjallan. Hver er ekki kominn með það sem ég þurfti, nema Gísli. „Ég átti leið fram hjá,“ sagði Gísli brosandi.

Ég er ekki viss um að það hafi alltaf verið satt. Greiðviknin óendanleg og alltaf sjálfsögð. Gísli var mikill vinur vina sinna.

Við félagarnir reyndum að spila hálfsmánaðarlega. Alltaf gott að borða hjá Gísla – buff tartar.

Það varð hefð fyrir nokkrum árum, að Gísli byði upp á tartar í spilaklúbbnum. Ekki slæm hefð það.

Í vor þá ákváðu þau hjónin að hætta að vinna, 1. júlí sl., og njóta lífsins; ferðast og gera það sem þau langaði til, en skjótt skipast veður í lofti. Bryndís konan hans hefur staðið eins og klettur við hlið hans í veikindunum og er sjálfsagt orðin örþreytt eftir þennan erfiða tíma. Börnin gáfu henni mikinn styrk enda dugleg að styðja við bakið á mömmu sinni. Bryndís mín, þrátt fyrir að Gísli hafi farið allt of snemma þá veit ég að þetta er erfitt en hugsaðu til baka, til allra góðu áranna sem þið Gísli áttuð saman.

Gísli, þín verður sárt saknað. Ég er betri maður fyrir að hafa þekkt þig. Hafðu þökk fyrir allt og allt.

Ég votta nánustu fjölskyldu Gísla mína dýpstu samúð. Með vinsemd og virðingu,

Gísli Krogh.

Aðafararnótt fimmtudagsins 3. september dreymdi mig draum. Ég kom í hús sem tilheyrði samtökum sem ég sæki reglulega og hef gert í mörg ár. Í draumnum var líkan af breska þinghúsinu og klukkuturninn, Big Ben, var að brotna af módelinu. Ég reyndi að festa turninn en ekkert gekk. Við það vaknaði ég.

Mín fyrsta hugsun var að Gísli væri dáinn. Það var rétt. Því miður. Ég og Gísli áttum samleið í nokkuð mörg ár. Hittumst undantekningalítið í hverri viku, sátum saman með góðu fólki þar sem við samhæfðum reynslu okkar, styrk og vonir. Þau sem það gera kynnast vel og innilega. Gísli var ómetanlegur félagi og vinur. Það veit ég eftir áralöng samskipti.

Því datt mér í hug að Gísli væri dáinn þegar mig dreymdi að kirkjuturninn væri brotinn og fallinn? Jú, vegna þess að Gísli var áreiðanlegur, tryggur, nákvæmur og taktfastur. Eins og heimsins besta klukka.

Félagar Gísla í litlu góðu deildinni á miðvikudagsmorgnum sakna eflaust allir hins góða vinar. Fjölskylda Gísla á hug minn allan. Þau horfa á eftir einstaklega góðum og gefandi manni.

Sigurjón M. Egilsson.

HINSTA KVEÐJA
Blómin falla, fölskva slær
á flestan ljóma. –
Aldrei hverfur
angan sumra blóma.

Þannig varstu vinur, mér
sem vorið bjarta.
Það sem gafstu
geymist mér í hjarta.

Ilma sprotar, anga lauf,
sem aldrei falla.
Drottinn launi
elskuna þína alla.
(Sigurbjörn Einarsson)
Innilegar samúðarkveðjur sendum við elsku Bryndísi og fjölskyldunni allri.
Jóhanna og Valdimar
(Hanna og Valdi).